Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

28.12.06

Jól 2006

Mikið svakalega erum við búin að hafa það gott um jólin!
Bjartur sá um að vekja foreldra sína snemma á aðfangadag og við brunuðum til ömmu og afa í heitt súkkulaði og smákökur. Í hádeginu var svo möndlugrauturinn hans pabba og hver haldiði að hafi fengið möndluna?? Pabbi auðvitað! Þetta gengur alltaf betur og betur: Balli og Valgeir eru að venjast grautnum... þeim finnst hann ekkert sérstaklega góður hehehe en þeir sleppa sko ekki við að borða hann.
Eftir grautinn fóru mamma og pabbi með Bjartmanninn í bíltúr til að reyna að fá hann til að sofna en hann var sko ekki á því- endaði með því að amma hringdi og þá var Sunna orðin svöng og mamma varð að fara og redda því- ekki hægt að ætlast til þess að litlir strákar sofni bara á svona spennandi degi.
Eins og venjulega komu Malla og co og Lilja og co til ömmu og afa líka að narta í hangikjöt og laufabrauð og til að afhenda og fá pakka. Það var sko svakalegt pakkaflóð undir jólatrénu hjá ömmu og afa! Þegar klukkan var rúmlega 4 fóru mamma og pabbi heim til að skipta um föt og þá tókst Balla frænda að svæfa Bjartastrumpinn loksins enda orðinn þreyttur strákurinn. Hann var svo vakinn rétt fyrir 6 svo hann væri kominn í jólafötin þegar jólunum hringdi inn.
Kvöldið leið svo með pakkatætingi og leik og allir skemmtu sér vel. Litla fjölskyldan fór svo heim með flest sitt hafurtask rétt fyrir miðnætti- mamman og pabbinn frekar þreytt.... Komu krökkunum í háttinn og opnuðu annað eins pakkaflóð þegar þau voru sofnuð. Bjartur fékk svo að opna restina af pökkunum til hans þegar hann vaknaði á jóladag. Úff... þið getið ímyndað ykkur gjafaFLÓÐIÐ! TAKK FYRIR OKKUR ÖLL ;O)

Svo hefur verið nóg að gera í jólaboðum og svoleiðis. Á gamlárskvöld á að taka það rólega... með ömmu og afa auðvitað ;o) Því miður fórum við ekki austur á Seyðis þessi áramótin- Sunnulingurinn ennþá svo lítill og ekki nenna í pabbanum hehehe hann er orðinn svo gamall karlinn. Nennir ekki neinu. Við förum bara næst...

Jæja, það var auðvitað tekið bunch af myndum... alveg spurning hvenær pabbinn hefur nennu í að koma þeim hingað inn... við látum ykkur bara vita...

19.12.06

Styttist í jól

Nú er jólaundirbúningurinn í hámarki. Við litla fjölskyldan erum reyndar alveg róleg bara.... Allt að verða reddí- búið að kaupa allar gjafir og ekki þarf maður að hafa áhyggjur af mat því við borðum hjá ömmu og afa á aðfangadag og jóladag.

Á föstudaginn fórum við í Brekkuskóg með Palla og Erlu og co... Mikið svaaakalega var gott að keyra útúr bænum, útúr öllu brjálæðinu! Við höfðum það alveg rosalega gott í bústað og veðrið var æðislegt! Snjór og kalt. Félagarnir Óðinn Bragi og Bjartur voru duglegir að leika úti og inni og lítið um árekstra á milli þeirra. Sunna og Freyja Sif voru líka duglegar og stilltar og tóku lífinu bara með ró. Það var ýmislegt brallað: Farið í pottinn, leikið, tröllaleirað og farið á róló. Grýla kom í heimsókn að leita að óþekkum strákum. Hún fann enga. Félagarnir voru svolítið hræddir þegar þeir heyrðu í henni (- þeir sáu hana aldrei) ekkert nema augun og steinþögðu svo hún myndi ekki koma alveg inn í bústaðinn. Svo renndum við í bæinn í gær (mánudag) og beint í brjálaða umferð og stress... Komum við hjá Emil afa á spítalanum. Hann var glaður að sjá afastrákinn sinn. Við stoppuðum stutt hjá afa og drifum okkur heim.

Í dag voru svo kláraðar jólagjafirnar- Bjartur fór í bæinn að kaupa handa Sunnu sinni og mamma og pabbi keyptu líka gjafir handa strumpunum sínum. Svo er bara að pakka öllu þessu inn! úff....

2.12.06

Stór magi

Mamma: ,,Bjartur, manstu þegar Sunna var í maganum hennar mömmu?"
Bjartur: ,,Já."
M:,,Já manstu? Þá var mamma með stóra bumbu."
B: ,,Já! Núna er bara öðruvísi stór magi!"
Ehemm.....

Pælingar Bjarts

Amma var að lesa Snúð og Snældu fyrir Bjart. Snúður og Snælda sitja við borð og eru að borða mat úti í náttúrunni. Bjartur er eitthvað að skoða myndirnar og sér kóngulær á myndinni.
Bjartur:,,Amma? Sérðu kóngulærnar eru að borða með kisunum"
Amma:,,Já."
Bjartur:,,Það er enginn stóll fyrir þær. Það er afþví þær eru ekki með neinn rass!"
Hahahaha við hlógum mikið: enginn rass=enginn stóll (til hvers?)

24.11.06

Skírnin mín

Sunnudaginn 19. nóvember síðastliðinn gekk í garð með látum. Þegar Bjartur og pabbi fóru fram sáu þeir fullt af snjó úti. Þeir fóru á Víðistaðatún að renna og þá skall á blindhríð þannig að pabbi þurfti að halda á Bjarti heim og draga sleðann. Nokkur stopp voru tekin á göngunni í óveðrinu en heim komust þeir feðgar á endanum. Allt var meira og minna ófært og fór pabbi um hádegið út að sækja skírnarkökuna mína. Það tók hann góðan tíma að komast af bílastæðinu og festist hann fjórum sinnum á leiðinni. Á endanum komst hann heim og með dugnaði tókst að koma öllu tilheyrandi og gestum í tæka tíð fyrir skírnina kl. 15. Henný frænka spilaði á fiðlu og síðan spilaði Þröstur undir í skírnarnarsálinum. Bragi prestur skírði mig alveg eins og hann skírði Bjart stóra bróður heima hjá okkur í stofunni. Mömmu hafði dreymt að ég átti að fæðast á sunnudegi og þaðan kom upphaflega hugmyndin af nafninu mínu. En einnig þegar pabbi var á leið til Vestmannaeyja um daginn var hann á Þorlákshöfn og sá þá tvo húsbíla sem voru merktir, annar hét Bjartur og hinn Sunna :)
Hérna má sjá boðskortið í skírnina mína ;)
-Sunna

16.11.06

Bráðum fær systa nafn

Systa litla fær nafn um helgina og höfum við fengið góða hjálp frá vinum og vandamönnum. Ég er nú ekki alveg búinn að samþykkja og vil bara að hún heiti "systa"!
Systa er rosalega dugleg að sofa og búin að stækka helling síðan hún kom fyrir þremur vikum. Sumum finnst hún vera alveg eins og ég, sumum alveg eins og pabbi og öðrum alveg eins og mamma. Ég held að hún sé bara góð blanda af okkur öllum ;)
Pabbi setti loksins inn nýjar myndir og hægt er að sjá þær á myndasíðunni okkar. Þarna eru myndir af mér að tromma uppí æfingarhúsnæðinu hans pabba, en við feðgar höfum farið nokkrum sinnum uppeftir og leyfði Siggi( sem trommar í hljómsveit með pabba ) mér að spila á trommurnar. Pabbi leyfir mér samt bara að nota bjuða( ímyndaðu þér trégrillpinna bundna saman ) þ.s. þá eru ekki jafn mikil læti í mér þegar við erum að spila og æfa okkur.
Ég bíð spenntur eftir að snjórinn komi svo ég geti farið út á sleða að renna með pabba. Hélt hann myndi koma um daginn. Það snjóaði smá og pabbi sagði að kannski kæmi meiri snjór daginn eftir. Hann var líka eitthvað að tala um að það gæti komið rigning og tekið snjóinn en ég hlustaði ekki á það. Stökk á fætur daginn eftir og við feðgar litum út um gluggan og þá var enginn snjór. Ég var frekar leiður og fór næstum að gráta því mig langaði svo mikið að fá mikinn snjó. Helgamma er víst búin að fá fullt af snjó á Seyðisfirði og kanski kemur hún með hann með sér á morgun ;)
-Bjartur

12.11.06

Nýjar fréttir...

Jæja, það er nú ekki hægt að segja að maður sé duglegur að skrifa inn fréttir og setja inn myndir... :o/ en það komu þó loksins nýja myndir inn í dag ;)

Maður fer eiginlega bara hjá sér þegar maður sér hvað maður var virkur í þessu þegar Bjartur var lítill.... Nýtt myndaalbúm í hverri viku og svona.... ehemm... Ekki alveg að standa okkur með dótturina. Okkur til varnar- þá er meira að gera núna.. Þegar Bjartur var lítill höfðum við greinilega ekkert að gera ;o)

Annars er hún Sunna litla algjört sólskinsbarn. Hún bara sefur allar nætur og drekkur vel og þyngist vel og er farin að brosa til okkar og hjala smá. Við skiljum ekki alveg þennan þroska því hún er alltaf sofandi hehe. Bjartur stóri bróðir er voða góður við hana og vill helst alltaf kúra með hana. Hann á þó stundum alveg sín frekjuköst og sýnir okkur stæla... Maður er líka bara tveggja... Það sem hefur hjálpað honum (og okkur) mikið eru elsku amma og afi. Þau eru nú alveg ómissandi fyrir svona litla gutta.... Og ekki séns að mamma eigi hann- AFI á hann! og hana nú! Samt er maður nú ansi mikill mömmustrákur þessa dagana.

Við erum ennþá alveg bit yfir allri hjálpinni fyrir skírnina. Þetta er alveg ómetanlegt! Að eiga svona góða fjölskyldu og vini! Þúsund þakkir til ykkar allra :o* Dagur áttaði sig alveg á þessu eftir veisluna- hann sagðist ekkert ætla að þakka Loga fyrir sig- eina sem hann gerði var að hleypa sér inn! Hehehe og það var alveg rétt. Við gerðum minnst...
Þetta var afskaplega vel heppnað fannst okkur. Þröstur og Henný spiluðu listavel, kræsingarnar voru æðislegar og gestirnir frábærir ;o) Þetta leit nefnilega ekki vel út á sunnudagsmorguninn. Þvílíkur snjór allstaðar og pabbinn fastur á planinu fyrir framan bakaríið, afinn og amman komust ekki úr bílageymslunni og þar fram eftir götunum.... Við sáum fram á að fresta þessu bara... en þetta hafðist. Stelpan fékk nafnið sitt og eru bara allir ánægðir með það. Hún fæddist á fyrsta vetrardegi, var skírð þegar fyrsti snjórinn kom (og ekkert smá af honum) og hún heitir Sunna- ekki Snæfríður hahaha...

10.11.06

Elsku vinir og vandamenn

Takk fyrir allar kveðjurnar sem þið hafið sent okkur í símann, á síðuna og gegnum aðra vini og kunningja!! Þið eruð æðisleg og gaman að vita af svona stórum hópi í kringum okkur. Þúsund kossar til ykkar til baka ;o) :o* Þúsund þakkir líka fyrir hjálpina við nafnavalið.... það gengur samt hægt að velja nafn á svona litla sæta stelpu... Hvað er eiginlega nógu flott fyrir hana?? ;o) Það hlýtur þó að vera hægt að finna fallegt nafn en þangað til er hún kölluð Systa... Nú er Systa orðin vikugömul og allt gengur eins og í sögu. Hún er voða dugleg að drekka og þyngjast og er vær og góð. Aðalmaðurinn á heimilinu er líka duglegur en maður á bágt með sig stundum.... Ekki gaman að hafa allt í einu lítinn krakka hangandi á brjóstinu á mömmu þegar hún Á að koma í fótbolta! En samt gætir hann litlu systur eins og sjáaldurs augna sinna... hendir dóti- en Systa fær að vera í friði. Það hjálpar líka að eiga svona flottan pabba sem er til í að gera ýmislegt með manni- og ömmu og afa sem eru alltaf tilbúin til að hjálpa. Þannig að maður á nú ekki svo mikið bágt....er ennþá PRINSINN þó að lítil prinsessa hafi bæst við ;o)

5.11.06

Erfiður dagur

Ég gisti hjá ömmu&afa í nótt sem mér þykir alltaf gaman. Ég vaknaði nú reyndar og vissi ekkert hvar ég var staddur, en það var allt í lagi þegar ég áttaði mig á því að afi&amma voru hjá mér. Við afi mættum of seint í íþróttir í Haukahúsinu í morgun ... við gleymdum okkur í bókalestri ;)
Fór með mömmu í afmæli til Júlíu Kristínar og það var rosalega gaman. Pabbi var heima með systu. Vitiði hvað Júlía Kristín er orðin rosa stór, miðað við litlu systur þá er hún alveg að vera fullorðin ;) Í afmælinu fékk ég pizzu og hitti Emil Gauta og Gústaf Bjarna vini mína, við vorum í boltaleik og Gústaf Bjarni er svo sniðugur að ég hló endalaust mikið =)
Þegar við mamma vorum á leiðinni heim sofnaði ég. Rankaði við mér þegar pabbi var að halda á mér inn í rigningu og roki og var ekki alveg sáttur. Lék mér svolið og svo fór ég í bíltúr með pabba. Sofanði aftur og vaknaði þegar pabbi hélt á mér inn í sama leiðindaveðrinu. Var hundfúll þegar inn var komið og ekki í skapi fyrir neitt. Ma&pa héldu að ég væri að verða lasinn, en ég var bara pirraður. Þegar ég var fullvaknaður var ég kominn á fullt í hopp&skopp um íbúðina og fór seint að sofa því það var svo mikið að gera ;)
-Bjartur

4.11.06

Pabbi nuddari

Bjartur stóri bróðir fór til afa&ömmu að gista í nótt, en hann og afi ætla að fara í íþróttaleikskólann í fyrramálið. Þau( og Valgeir ) komu í Logapizzu í kvöld og Bjartur vildi endilega fara og gista hjá þeim. Ég var nú óskaplega þreytt og vildi helst bara sofa í allt kvöld, en ég samþykkti á endanum að kíkja í smá mat. Fékk nudd hjá pabba að vanda og verð að segja að ég farin að kunna svoldið vel við það...sérstaklega þegar pabbi nuddar bakið. Það fannst mér rosa gott í kvöld. Lét bara fara vel um mig á maganum og pabbi nuddaði mig vel og lengi. Ma&pa voru alveg gáttuð á því hvað mér þótti þetta gott. Síðan fékk ég mér vel að borða og hélt áfram að sofa...er svoldið letidýr ;)

2.11.06

Allir í golfi í útlöndum

Amma sagði Bjarti að Katrín vinkona hans væri flutt til Svíðjóðar og hún hefði farið þangað með stóru flugvélinni.
Já, að spila gólf svaraði Bjartur ( en amma&afi voru nýkominn úr gólfferðalagi )

Fyrst á réttunni...

Sunna var að sveifla höndunum og Bjartur að fyglast með henni og sagði Hún er að gera fyrst á réttunni og svo á röngunni.

31.10.06

Stórfjölskyldan

Jæja, þá er litla systir mætt á svæðið. Aðfaranótt föstudagsins fór mamma að finna fyrir vægum seiðing en bara hress á föstudeginum. Fyrir miðnætti skuppu mamma og pabbi uppá Hreiður til að ath. hver staðan væri og tæpum 3 tímum seinna var litla systir komin í heiminn kl. 1:33 þann 21. október 2006. Þegar ég vaknaði voru amma&afi í mömmu&pabba rúmi og ég skildi ekki neitt í fyrstu en fékk svo að heyra fréttirnar. Afi fór með mig í íþróttir í Haukahúsinu og svo fórum við að hitta systur( og ma&pa ). Systa er voða lítil og öllum finnst ég vera rosalega stór =) Við pabbi fórum og versluðum barnabílstól og svo fórum við heim af fæðingardeildinni.
Það er búið að vera mikið að gera þessa fyrstu viku heima fyrir. Ég er alltaf í vinnunni( leikskólanum ) og við pabbi erum búinir að vera mjög duglegir að leika okkur þegar ég er búinn í vinnunni, en hann er heima þessa dagana. Erum búnir að fara út að hjóla í körfubolta, henda steinum í Hvaleyrarvatn og tromma á trommusettið hans Sigga uppí æfingarhúsnæðinu hans pabba.
Ég er líka rooosalega góður við systu. Passa alltaf að svo hendurnar áður en ég greiði henni með puttunum og stundum fæ ég að sitja með henni =) Við erum búin að fá fullt af fólki í heimsókn og það er búið að vera rosalega gaman. Nú reynum við að vera duglegri að skrifa hvað við gerum af okkur...en ég á víst ekki þessa dagbók einn lengur :)
-Bjartur og co.

21.10.06

Bjartur þegar hann sá Sunnu fyrst

"Hún er með rúsínuputta" :)

Fæðingarsaga Sunnu

Fæðingarsaga Sunnu

Við Logi fórum uppá fæðingardeild bara til að láta tékka á stöðunni.. Ég var búin að vera með smá seiðing í bumbunni. Amma og afi voru auðvitað kölluð til til að passa Bjart sem var sofnaður þegar þau komu, enda klukkan að verða ellefu.

Ég var sett í mónitor og vorum við bara sallaróleg... alveg á leiðinni heim aftur því verkirnir voru svo sem engir. Svo heyrðum við líka í konu fæða og þegar það gerðist þegar Bjartur var á leiðinni datt allt saman niður hjá mér...

Ljósmóðirin vildi nú samt tékka á útvíkkun svona til öryggis. Þá var mín bara komin með 7 í útvíkkun og ljóst að við vorum alls ekkert á leiðinni heim! Við fengum að fara inná herbergi í Hreiðrinu þar sem er stórt baðkar. Það var fyllt með vatni og ég skellti mér ofaní. Smám saman fóru verkirnir að ágerast og glaðloftið sogað með áfergju! Stuttu seinna kom rembingurinn, Sunna skaust í heiminn og flaut upp í mömmufang.. öskrandi eins og lítil kría. Yndislega falleg með mikið og svart hár. 2825gr og 49 cm.

Þannig var sú stutta saga... þetta tók svo stuttan tíma. Komum á fæðingardeildina um 23:00 og daman var fædd kl. 01:33.

8.10.06

Styttist í litla barnið

Jæja góðir hálsar.
Nú er sko undirbúningurinn í hámarki... Ég bíð spenntur eftir litla barninu okkar og hlakka svo til að sýna því hvað ég er duglegur að púsla og spila bandý og allt annað sem ég kann. Mamma er búin að ná í vöggu, pabbi er búinn að mála rimlarúmið, ég er búinn að kaupa fínt til þess að setja inní rúmið og ég á bara eftir að kaupa kodda fyrir krílið- það er algjört möst í mínum huga, eins og þið vitið;o)
Mamma segir að bráðum verðum við að þvo öll litlu fötin og raða þeim í kommóðuna en ég get ekki beðið- skil ekki eftir hverju við erum að bíða og setti öll litlu fötin bara sjálfur í þvottavélina!! Maður þarf að gera allt sjálfur á þessu heimili til þess að hlutirnir gerist. Dugar ekki að vera að slóra við þetta!

Annars er ég bara voða duglegur alla daga- fer á leikskólann og skemmti mér. Er alltaf að læra ný og ný lög sem ég syng heima- ekki í leikskólanum.... maður er ekkert að opna sig of mikið ennþá eða að trana sér eitthvað alltof mikið fram ;o)

Svala stóra frænka mín átti afmæli 5.okt. og hélt uppá það fyrir mig í dag. Við mamma og pabbi og litla barnið (það fylgir alltaf með og ég gleymi aldrei að nefna það líka) fórum í góða veislu. Ég fékk vöfflur og bleika köku og lék mér með barbiedótið hennar Svölu.
Í gær fór ég í Haukahúsið. Þangað fer ég alltaf á laugardögum með afa. Ef afi kemst ekki með mér koma mamma og pabbi. Þar er sko gaman að príla og hoppa og leika sér! En ég fæst samt ekki til að segja að Haukar séu bestir... en ég er bara að stríða liðinu og segi alltaf HUGINN þegar ég er spurður hverjir séu bestir. Hehehehehe og allir verða voða svekktir (nema pabbi auðvitað).

Jæja.. það er víst til fullt af ææææðislegum myndum af mér. Pabbi þarf bara að setja þær á myndasíðuna mína... og hann gerir það á eftir;o) (Þá verður Helgamma glöð)

Sjáumst!

P.s. pabbi er búinn að setja inn myndirnar :) Bumbumyndir og full af myndum af mér ;)

2.10.06

Stafurinn hans Bjarts

Fjölskyldan fór á rúntinn á sunnudaginn. Bjartur var í svaka góðu skapi og samkjaftaði ekki. Alltaf þegar hann sá stafinn sinn hrópaði hann: Þarna er stafurinn hans Bjarts! Hann heitir bé!
Svona gekk þetta framhjá Bónus, BYKO og fleiri fyrirtækjum.... alla leið inní Reykjavík.
Hjá einhverri bílabúðinni segir Bjartur: Þarna er stafurinn hans Bjarts! BÉ!
Þá segir mamma: Þú ert alveg í essinu þínu bara!
Bjartur: Nei, ég á BÉ!!

Það er ekki að spyrja að gáfunum;o)

Bjartur ruglaður í nöfnum og lýsingarorðum og nafnorðum...

Pabbi var að spila á Bandýmóti í Keflavík. Mamma og Bjartur ætluðu að keyra þangað og horfa á einn leik. Á leiðinni segir mamma: ,,Nú ætlum við að fara að horfa á pabba spila bandý".
Bjartur: ,,Já. Kannski sjáum við líka tunglið!" (Alltíeinu mikill áhugi á tunglinu)
Mamma: ,,Nei, tunglið kemur bara þegar það er nótt. Nú er dagur og bjart úti".
Bjartur: ,,HA???!!!"
Okkar maður ekki alveg að skilja... Dagur (frændi) og Bjartur úti??? Hvað er kellan að meina?

Bjartur svín

Mamma og Bjartur sátu við eldhúsborðið að púsla. Allt í einu fer Bjartur að reyna að rýta eins og svín með tilheyrandi hljóðum og innsogum. (Svoldið erfitt að vita hvort hljóðið eigi að koma þegar maður andar inn eða út). Loksins tókst þetta hjá honum og þá sagði hann hissa en stoltur: Mamma! Það kom svín útúr munninum á mér!!

17.9.06

Skírnin hennar Ásthildar Elvu

Helgamma er búin að vera í heimsókn hjá mér síðan í seinustu viku. Það er rosalega gaman að hafa hana sofandi hérna heima hjá mér. Þegar ég vakna á morgnanna og mamma og pabbi nenna ekki á fætur þá get ég alltaf dregið hana á lappir og fengið hana til að gera allt sem mig langar. Í morgun fékk ég til dæmis ÍS í MORGUNMAT og það er sko bara Helgamma sem hefur leyfi til að stjana svoleiðis við mig ;) enda er ég alveg hættur að reyna eitthvað svoleiðis við foreldra mína, það er ekki jafn einfalt að stjórna þeim.

Í dag fór ég í skírn til Ásthildar Elvu heima hjá Möllu. Þar var Gutti auðvitað þegar ég kom og ég þurfti að klappa honum svolítið, "hann er svo mjúkur" :) Húsið var fullt af fólki, presturinn kom og skýrði Ásthildi Elfu og við fengum rooosalega gott að borða. Ég fór að leika mér með mótorhjólið og kallinn inní herbergi hjá Hörpu. Á einhverjum tímapunkti gleymdi ég mér og "kúkaði í bleyjuna". Pabbi byrjaði að taka bleyjuna og þá kom í ljós að það þurfti nú að skella mér í sturtu. Pabbi var að reyna að skamma rassinn minn fyrir að hafa kúkað í bleyjuna og segja honum að kúka í koppinn, en ég var nú ekki sammála: "Kúka í bleyjuna, VEIIIiiii". Ég og pabbi týndum okkur nokkur rifsber í nesti í bílinn og þar sat ég og hámaði í mig berin, buxnalaus í sokkum, skóm og úlpu :)

2.9.06

Stafurinn hans Bjarts

Fjölskyldan fór á rúntinn einn sunnudaginn. Bjartur var í svaka góðu skapi og samkjaftaði ekki. Alltaf þegar hann sá stafinn sinn hrópaði hann: Þarna er stafurinn hans Bjarts! Hann heitir bé! Svona gekk þetta framhjá Bónus, BYKO og fleiri fyrirtækjum.... alla leið inní Reykjavík.
Hjá einhverri bílabúðinni segir Bjartur: Þarna er stafurinn hans Bjarts! BÉ!
Þá segir mamma: Þú ert alveg í essinu þínu bara!
Bjartur: Nei, ég á BÉ!!
Það er ekki að spyrja að gáfunum;o)

Bjartur er með ýmislegt í maganum...

Bjartur er svo spenntur fyrir litla barninu og tileinkar sér allt sem því tilheyrir. Á morgnana segir hann alltaf:,,Góðan daginn litla barn. Eigum við að koma fram og fá okkur cheerios?" Voða sætur með rödd sem maður notar til að tala við lítil börn.
Um daginn vorum við svo komin fram og byrjuð að borða og þá segir minn:,,Mamma! Finnurðu??" Tekur í hendurnar á mömmu og setur þær á magann sinn- alveg eins og gert er við hann þegar hann á að finna spörk.... ,,Finnurðu?!"
Mamma: ,,Já, vá..." (skilur ekki alveg hvað á að finna).
Bjartur: ,, Mamma finnurðu cheeriosið?"

Bjartur: ,,Þegar Bjartur var litla barn var hann með engar tennur."
Mamma:,,Nei."
Bjartur: ,,Nei, þær voru í maganum á honum. En núna er Bjartur með maaaaargar tennur!"

28.8.06

Litli trommarinn

Jæja þá er helgarfríið búið. Þetta var ágætishelgi, eins og pabbi segir alltaf. Mamma og pabbi komu bæði að sækja mig á föstudaginn. Mér finnst æðislega gaman þegar þau koma bæði að sækja mig. Þau voru með góðar fréttir af litla barninu í bumbunni okkar - reyndar var ég voða lítið stressaður: Lítið barn=lítil bumba, ekki satt?

Á laugardaginn fórum við í sund og ég eeeeelska að fara í sund. Svo áttum við góðan dag heima, lúlluðum saman og borðuðum góðan kvöldmat og lékum okkur. Pabbi er búinn að búa til trommukjuða fyrir mig og nú er ég alltaf að tromma, nágrönnum til mikillar ánægju ;o) Ég bið svo pabba reglulega um að koma inn í herbergið mitt með bassann, hann á að spila og ég tromma og mamma á að sitja á stól og hlusta með aðdáun og putta í öðru eyranu (því það eru svolítil læti í okkur en hún verður samt að heyra smá). Þegar ég er búinn að stilla öllum upp sest ég með kjuðana og finnst ég flottastur í heimi. Þegar mamma og pabbi nenna ekki að spila með mér vil ég hafa prumpulagið á og tromma í takt við það. Efnilegur!!

Í gær fengum við svo góða gesti: Palla, Erlu, Óðinn Braga og Skottu, litlu systur hans og svo komu Harpa og Guðjón líka. Það var heljarinnar pizzuveisla og eplakaka og ís í eftirrétt. Við Óðinn lékum okkur mikið og pabbi bjó til aðra trommukjuða svo við gætum báðir trommað. Svo var mest gaman að hlaupa hringinn- úr eldhúsi í stofu og syngja hástöfum: ,,rassgat í bala!" Mamma og pabbi voru nú mest hissa á hvar ég lærði svona lag (vonandi ekki á leikskólanum) og spurðu mig:,, hver kenndi þér?" ,,Emil Gauti." sagði ég þá og þá hló mamma mikið. Ég skil ekki alveg afhverju...

Jæja félagar. Sé ykkur seinna
Ykkar Bjaaaatttur (ekki lengur Dattur)

11.8.06

Leikskólastrumpur

Já það gengur svona glimrandi vel á leikskólanum!
Ég er alveg að fíla þetta- leika úti með krökkunum og með allt nýja og spennandi dótið inni. Svo er Sigga svo góð við mig að þetta er bara ekkert mál! Mamma fær samt svoldinn sting í hjartað yfir þessu öllu saman- segir að ég sé orðinn fullorðinn...
Í dag sótti mamma mig eftir hádegismat og spurði mig hvað ég hafði gert á leikskólanum í dag:

Ég:,,Ég mokaði í þandkaþþanum. Ég gerrri köku. Það var sykur."
Mamma: ,,Vá varstu svona duglegur? Hvað gerðirðu meira?"
Ég: ,,Ramba með Þobbeggi. Við þyngja Kalli litli kóngulÓ og Nói kann ekki keyra bíl."

Þið sjáið að maður er orðinn ansi mannalegur..

Amma mín á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið eeeelsku amma mín. Ég er búinn að kaupa flotta gjöf í Samkaup hehehe. Fékk að ráða sjálfur. Það er samt ekki grafa eða eitthvað svoleiðis (þó að mér finnist það vera það flottasta sem hægt er að fá). Ég fatta það alveg að ömmur leika sér voða sjaldan að gröfum- þær drekka bara voða mikið kaffi ;o)
Ég er sko boðinn í afmælismat í kvöld og mér finnst ég svo merkilegur að það kemur ekkert annað til greina en að ég eigi þetta afmæli með ömmu...
Á morgun á svo Malla ömmusyss líka afmæli! Til hamingju með það fyrirfram ;o) Mér finnst hún flott- hún á hund! Hún og Harpa frænka heimsóttu mig í gær og þegar þær fóru tók ég fram skóna mína og ætlaði sko með. ,,Ég langa ssssoh goða Gutta". En ég fékk ekki að fara að skoða Gutta- ég verð að skoða hann seinna. Hins vegar fór ég og fékk nýja leikskólaskó með blikki! OG ný leikskólastígvél (núna heitir allt leikskóla-...)

Svo er hann Óðinn Bragi vinur minn orðinn stóribróðir! Hann fékk litla systur 9. ágúst! Knús til þín Óðinn Bragi minn ;o*

Jæja, nú held ég að ég sé búinn að tjá mig nóg í bili :O)
Síjú!

7.8.06

Bjartur leikskólastrákur

Á morgun fer ég í heimsókn á leikskólann minn. Við erum öll svo spennt: Pabbi ætlar að koma úr vinnunni og skoða pleisið með mér og mömmu. Við mamma erum aðeins búin að fara og skoða leikskólann að utan og horfa á krakkana leika í garðinum. Ég er orðinn svaka spenntur og finnst ég vera svo stór strákur.

Við fjölskyldan fórum nú ekki í útilegu um helgina... Á föstudaginn fórum við til Lilju og Tóta og grilluðum með þeim. Pabbi og Tóti og fleiri karlar fóru svo að spila hátt í bílskúrnum hans Tóta. Ég var svoldið smeykur við öll lætin en mér finnst pabbi minn alveg flottastur á bassanum.
Á laugardaginn fórum við í Húsasmiðjuna að kaupa málningu fyrir baðið okkar, það var kominn tími á að mála það (segir mamma). En við nenntum nú ekki að hanga yfir því allan daginn og fórum í sund.
Sunnudagurinn fór í að leika, leika og leika. Ég er alveg ótrúlega góður í að leika mér- gleymi mér með sjóræningjana mína, gröfuna og vörubílinn og alla kubbakallana (sem eru allir afar og heita allir Böddi).

Í dag fórum við pabbi svo í fjöruferð að kasta steinum í sjóinn og skoða krabba (mömmukrabba, pabbakrabba, ömmukrabba, afakrabba og meira að segja litlabarnakrabba!) á meðan mamma var heima með bumbuna að hvíla sig. Ég er voða upptekinn að mamma hugsi vel um litla barnið. Hún má til dæmis ekki láta neitt rekast í bumbuna (eins og haldfangið á vagninum þegar hún er að rugga mér) þá segi ég: ,,Mamma, passaðu litla barnið!" Svo lána ég því reglulega dudduna mína og koddann með því að setja dudduna í naflann og koddann vel yfir. Er ég ekki góður? Svo þegar litla barnið kemur út úr bumbunni ætla ég að kaupa alveg nýja og litla duddu handa því.

Jæja, ég læt ykkur vita hvernig leikskólaheimsóknin fer...
-Bjartur

2.8.06

Bjartviðri

Þegar Bjartur horfir á veðurfréttirnar finnst honum svakalega merkilegt að kallinn segi nafnið hans...
Bjartviðri austanlands.... Bjartur:-Hann segir Bjartur!!
Þoka og súld fyrir norðan en bjartara yfir suðurlandi.... Bjartur:-Hann segir Bjartur!!

24.7.06

Kominn úr fríinu

Þá er maður kominn aftur heim á Hjallabrautina eftir frábært sumarfrí á Seyðis... Ég var alveg í essinu mínu allan tímann og söng og trallaði daginn út og daginn inn... svona á milli þess sem ég stjórnaði ömmu:o) Von er á myndum úr ferðinni og þá sést hvað ég brallaði þarna fyrir austan- nenni ekki alveg að fara að telja það upp því það var svo mikið.
Ég var glaður að koma heim: hljóp um kátur og hlæjandi, en ég sakna Helgömmu og allra hinna...vonandi kemur Helgamma fljótlega í heimsókn til mín.

Við mamma erum ennþá í sumarfríi og tökum því bara rólega þessa dagana á meðan pabbi er í vinnunni. Mamma er loksins farin að stækka og ég er voða góður við litla barnið okkar. Ég hef fundið það sparka og svo kíki ég í naflann og segi:"he,he! Sætur!" Ég hjálpa mömmu við flest allt sem þarf að gera: set inní ísskápinn og tek til í herberginu mínu (eins og Einar Áskell- goðið mitt þessa dagana) og labba sjálfur upp stigana. Ég vil ekki að haldið sé á mér nema að ég sé ofur þreyttur.

Jæja, held ég láti þetta duga í bili.... býð ykkur að skoða myndirnar frá Seyðis (sem koma fljótlega inn) og minni á GESTABÓKINA ;o)

8.7.06

Kveðjubréf frá Hildi "sætu" dagmömmu

Elsku Bjartur og fjölskylda,

Takk fyrir yndislegar samverustundir sem við höfum átt saman. Vá, hvað ég á eftir að sakna þín! Þú ert alveg frábær strákur. Þrátt fyrir langa og oft á tíðum erfiða aðlögun tókst okkur það og þá varðst þú nú alveg bara bestastur :) ! Og ég vona bara að allar þessar gáfur sem þú býrð yfir eigi eftir að nýtast þér vel í framtíðinni, svona skýr, duglegur, málglaður, fyndinn og skemmtilegur strákur á sko bara eftir að gera góða hluti, og núna orðinn svona stór "leikskólastrákur" og bráðum stóri bróðir. Vá, mikið að gerast, en Hildur á nú eftir að fylgjast með þér á heimasíðunni þinni.

Gangi þér sem allra best í framtíðinni

Knús & kossar
Þín Hildur dagmamma.

2.7.06

Svo klár

Pabbi: Bjartur! sérðu bátinn þarna?!
Bjartur: Þetta er skúúúta!
Vantaði bara: vitleysingurinn þinn fyrir aftan miðað við tóninn í röddinni... Hvernig átti pabbinn líka að vita að krakkinn þekkti skútur??

Hvað er í matinn?

Bjartur var að elda inní herbergi. Segir svo: ég er að elda mat.
Já? hvað er í matinn?
Bjartur: .....matur!
So simple....

28.6.06

Bjartur gæi

Daginn, daginn.
Ég er nýkominn heim frá "Þeyðisfiðði". Þetta var svaka upplifun fyrir mig sko! Ég fór í FLUGVÉL!! Mamma og pabbi segja mér að ég hafi nú farið áður í flugvél á Seyðis en ég man ekkert eftir því.. Ég sat spenntur þegar flugvélin fór í loftið og sá þegar dekkin fóru inní flugvélina! Svaaaaakalega fannst mér þetta flott! Ég sá líka sjóinn og húsin sem voru pínulítil og pínulitla bíla líka.

Mikið var ég líka glaður að sjá hana Helgömmu (sem ég kalla bara Helgu núna því Sól gerir það). Við keyrðum í afabíl á Seyðisfjörð og ég rataði sko alveg um afahús! Vissi alveg hvar pottaskápurinn er og dótið og svona- maður er nú klár í kollinum. Það er alltaf gaman hjá ömmu. Hún leyfir mér að sulla í eldhúsvasknum og dekrar við mig eins og hún möööögulega getur. Mér finnst æðislegt að rápa inn og út í garð og hlaupa í grasinu á sprellanum, tjalda, grilla, sparka bolta, leika með nýju gröfuna mína og stóóóra vörubílinn. Ari Björn kom og lék smá við mig og haldiði að hann Óðinn Bragi, vinur minn, hafi ekki verið þarna líka!!? Hann á víst líka afa og ömmu á Seyðis. Við lékum okkur helling, ásamt Jónasi Bjarka frænda hans. Settum bensín á bílinn og fórum í fjallgöngu alveg aleinir og allt! Já, það er hægt að segja að Seyðisfjörður sé algjört ævintýraland fyrir mig! Og ég á eftir að segja frá AÐALATRIÐINU. Ég fékk að stýra lyftara í vinnunni hans Braga og sá kranabíl að störfum og ég veit ekki hvað og hvað! Þið sjáið bara hvað ég er flottur á myndunum sem koma bráðum, því auðvitað var ég myndaður á alla kanta.
Svo kom að heimferð :o( Þegar við vorum að fara sagði ég:"Nei! Mamma og pabbi fara flugvélina. Dattur vera á Þeyðisfiðði og passa ömmu!" En ég fæ víst engu að ráða.... bráðum förum við líka aftur og hittum allt liðið.

Núna eru dagarnir bara venjulegir- ég fer til Hildar og leik við krakkana, kem svo heim og sýni harðstjórahliðina á mér, fæ að grenja það úr mér og svona ;o) Ég gefst ekki upp á að reyna að stjórna, neineinei... hehehe.
Læt ykkur vita þegar gæjamyndirnar koma;o)
Síjúbæ

5.6.06

Togið í spottann, afmælið er í dag!

Vaknaði hress og kátur eldsnemma í morgun, enda grunaði mig að eitthvað væri í gerst. Vitir menn, átti ég ekki afmli í dag, eða eins og Viddi segir, "Togið í spottann, afmælið er í dag". Talandi um Vidda þá skreið ég uppí til mömmu og pabba og fékk þá tvær gjafir og getiði bara hvað var í þeim :) Viddi( frá Helgömmu ) og Bósi( frá ma&pa ). Það var nú gaman að fá þá félagana loksins því ég er rosalega duglegur að horfa á þá félaga og ævintýri þeirra í leikfangastögunum tveimur í sjónvarpinu. Við fórum allir saman að horfa á leikfangasögu 1: ég, Bósi og Viddi. Ég er svoldið upptekinn af Bósa og Vidda og hef ekki alveg tíma til að sinna Binna( dúkkunni minni ) en hann fær samt að leika með okkur :)
Fullt af gestum komu í afmælisveisluna mína í dag. Pabbi eldaði fullt af pizzu, mamma eldaði gröfuköku og amma kom með kökur. Ég fékk fullt af flottu dóti og fötum og fleiru. Pabbi spilaði á gítar undir afmælissöngnum og allir sungu amælissönginn handa mér og þá var ég orðinn "teggára".

2.6.06

Bjartur kisa

Mamma. Ég er lítil kisa en þegar ég er búinn að vera kisa þá verð ég aftur Bjartur!
Einn að tryggja sig- vera viss um að hann sé ekki tekinn of alvarlega...

Karlrembutaktar

Þegar Bjartur er að leika sér með kubbakallana og kubbakonurnar virkar ekki að skíra þeim einhverjum nöfnum. Þannig að þegar hann leikur sér heyrist: Komdu kona!, Keyrðu kona! Kona? Komdu kona? Alveg eins og lítið karlrembusvín, án þess að hann geri sér grein fyrir því.
Svo eru tveir gráhærðir kubbakarlar. Þeir eru báðir afi, einn gamli afi og hinn bara afi- hvers vegna vitum við ekki alveg...Væri gaman að komast inní hugann á honum stundum.

22.5.06

Bjartur stóri bróðir

Ég ætla að óska "Hengömmu" til hamingju með afmælið í gær! Við töluðum reyndar saman í símann í gær- ég lá uppí rúmi í símanum við hana, alveg eins og ekta unglingur.... nema ég er ennþá í rimlarúmi hehe. Ég á samt stórustrákasæng núna! Með Dipsý og Pó sængurveri!! Massa flott sko. Bráðum fæ ég svo stórustrákarúm- kannski í sumar... eða þegar litla barnið fæðist. Ég er aðeins að sætta mig við litla barnið í bumbunni.... er að átta mig á þessu.... Ég er nefnilega búinn að heimsækja hana Ásthildi Elvu, frænku mína, aðeins- og hún er svo pínulítil að ég sé alveg fyrir mér að mamma sé með svona lítið barn í maganum. En ég Á samt hana mömmu ennþá. ALEINN. Bara svona svo það sé á hreinu!

Það sem ég er búinn að vera að gera undanfarið... Það sama og venjulega svo sem: Hitta vini og vandamenn. Fór í heimsókn til vinar míns, hans Óðins Braga og við drógum foreldra okkar í sund- það var æðislega gaman. Við ætlum pottþétt að gera það aftur, sérstaklega af því að Palli (pabbi hans ÓB) er alveg æstur í að vera í sundi! ;o) já já já..

Við mamma fórum í Eurovisionpartý til Lilju, Tóta, Svölu Birnu og Ásthildar Elvu. Grilluðum saman og höfðum það huggulegt. Mér fannst gaman að sjá skrímslin syngja í sjónvarpinu. Ég er líka algjör söngfugl! Syng allan liðlangan daginn- mamma er svona mismikið í stuði til að hlusta á mig. Afi kenndi mér nefnilega að syngja ljótt- með svona ljótukarlarödd. Hehehehe þá verður mamma svo hrædd og mér finnst það æði því þá þarf ég að hugga hana og "kúsa"- fæ aldrei nóg að því að kyssa og knúsa mömmu mína. Ef hún verður ekki nógu hrædd segi ég:,,Gráttu"! Fæ eitthvað útúr því að snúa við huggunarhlutverkinu...

Svo vil ég afsaka þessa foreldra mína og myndaleysið- maður hálfskammast sín fyrir þetta lið....

12.5.06

Frekjustrumpur

Halló allir sem nenna að lesa :o)

Nú er sko að koma sumar!! Það er svolítið erfitt að vera lítill strákur í sumrinu.... Maður er svo mikið úti að ég er alveg búinn á því á kvöldin! Mér finnst svo gaman að leika í sandkassanum með Hildi og krökkunum og svo þegar ég er sóttur þá vil ég helst fara strax út aftur á róló. Er líka settur sneeeeemma í háttinn þessa dagana og er ekki tilbúinn til að vakna á morgnana þegar ég á að vakna.

Svo er ég að reyna fyrir mér í frekjunni þessa dagana. Ég Á nefnilega mömmu mína og hún má bara koma við mig og ég vil alltaf vera hjá henni! Mamma og pabbi þola nú ekki þessa stjórnsemi í mér og ég fæ alveg að grenja þetta úr mér á hverjum degi núna....:o( Maður má þó alltaf reyna....

Nú er afi nýbúinn að eiga afmæli og ég gaf honum stóóóran pakka! Svo er mamma líka búin að eiga afmæli en ég á eftir að gefa henni pakka- hún er samt búin að fá fullt af knúsi og kossum frá mér. Bráðum á Helgamma líka afmæli og bráðum fer ég líka austur á Seyðis að hitta hana. Reyndar hittumst við á Ólafsfirði um daginn og það var æðislega gaman.

Jæja, nú er pabbi búinn að kaupa nýja myndavél svo vonandi á liðið eftir að bæta sig í þessum myndamálum... ég pikka í hann að setja inn myndir fljótlega- veit að Helgamma bíður spennt ;o)

2.5.06

Með barn í maganum

Bjartur og Valgeir voru að labba niður stigann hjá ömmu og afa.
Þá segir Bjartur: Halda á mér.
Valgeir: Nei ég er svo þreyttur. Halt þú á mér.
Bjartur: Nei get það ekki. Ég er með barn í maganum.
Búinn að heyra þessa afsökun aðeins of oft hjá mömmu sinni.....

Bjartur mamma

Okkar maður er voða upptekinn af ungbörnum og öllu sem því fylgir. Hann segir t.d. fólki blákalt að Binni dúkkan hans hafi einu sinni verið í maganum sínum...
Svo situr hann í sófanum með bolinn upp um sig, horfir á sjónvarpið, með Binna sinn í fanginu og segist vera gefa honum mjólk úr bumbunni. Baaara sætur!

Hlutverkaskipti

Bjartur sturtar úr kubbakassanum og segir okkur að taka til. HANN ætli að horfa á....

24.4.06

Fullt af heimsóknum

Jæja nú er komið að helstu fréttum.
Ég er nú búinn að vera í VIKUpössun hjá ömmu og afa! Ma&pa fóru til Barcelona með vinnunni hennar mömmu og mér var ekki boðið með. Ég hafði það nú rosa gott í dekrinu hjá ömmu og afa en fyrsta daginn fannst mér þetta eitthvað skrítið... sagði bara:,,mamma, pabbi, Dattur, heim!" En svo þegar leið á vikuna þá neitaði ég því að vera að fara bráðum heim og lúlla heima hjá mömmu og pabba.
Við amma og afi gerðum ýmislegt saman, fórum í sund og svoleiðis. Svo þegar mamma og pabbi komu heim fórum við að sækja þau uppá flugvöll. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að vera þegar ég sá þau. Hljóp bara í burtu til að byrja með.... svo varð ég nú að faðma þau og kyssa. Á leiðinni heim vildi ég láta mömmu taka mig en varð víst að bíða þangað til við værum alveg komin heim... Þegar við komum heim byrjaði svo fjörið!! Ég fékk MAAAARGA pakka! og svo var ég ekki búinn að sjá dótið mitt svo lengi að ég þurfti alveg að dunda mér aðeins í herberginu mínu með Binna.
Þegar ég átti að fara út í vagn að sofa var ég sko ekki alveg á því!! Vildi bara láta mömmu taka mig en þó sofnaði ég eftir smá rugg- eins og gert er við litlu börnin... Svo var ég voða glaður að fara í mitt rúm um kvöldið og vildi svo bara halda áfram að leika mér með nýja dótið þegar ég vaknaði í morgun. Það var víst ekki í boði- ég þurfti að mæta til Hildar og mamma og pabbi í vinnuna.
Á næstunni fer ég svo að hitta hina ömmu mína- Helgömmu. Við erum að fara í fermingarveislu á Ólafsfirði- mætumst á miðri leið ;o) Ég er spenntur að hitta hana og hún mig! Við höfum ekki sést síðan um áramótin og það er alltof langur tími!
Ég er líka nýbúinn að hitta "nöfnu" mína, hana Helgu BJÖRT. Ég fór með hana og mömmu í Kringluna um daginn til að kaupa fermingargjöf handa Svönu Rós, barnapíu. Ég var ekki lengi að finna það út að ég gat stjórnað nöfnu minni og leitt hana um allt Stjörnutorg eftir mínu höfði! Það hefur ýmsa kosti að vera svona sætur hehehe.
Svo var mér boðið í mat til Halls afa og Sæunnar skáömmu um daginn. Mamma og pabbi komu með og við fengum hangikjöt sem var æðislega gott. Ég eyddi kvöldinu þar í því að laga lampana fyrir hjúin- þeir virka vel núna, búið að mýkja takkana á þeim....
Ég hitti líka Sól, Mána, Dag og Ingu, Emil langafa, Gauta og Svövu, Auði, Björk og Silju. Þau komu hingað í pizzuveislu. Þá var nú meira fjörið! Alltaf gaman að fá svona marga í heimsókn því þá fær maður svo mikla athygli.
Allir hafa nú fengið nýju fréttirnar af fjölskyldustækkuninni og eru voða glaðir- ég er samt ekki alveg að skilja þetta "litla-barn-í-maganum-á-mömmu-tal". Þverneita þessu bara! Í mínum huga er þetta ekki hægt!
En, jæja, þetta er víst orðið ansi langt hjá mér núna....þannig að ég er að hugsa um að hætta bara ;o)
-Bjartur

5.4.06

Alltaf stærri og stærri

Nú eru mamma og pabbi alveg í vandræðum með mig...eða réttara sagt fötin mín. Það er allt að verða of lítið á mig því ég er búinn að stækka svo mikið! Það er eins gott að þau eru að fara bráðum til útlanda og mamma segist ætla að reyna að kaupa fullt á mig þar. Svo er ég orðinn svo rosalega duglegur að tala undanfarið að mamma og pabbi eru bara alveg hissa á þessum framförum allt í einu. Það er ekki langt síðan ég sagði eitt og eitt orð til að koma liðinu í skilning um hvað það var sem mig vantaði eða langaði í. Þau eru bara svo treg greyin að maður verður bara að gjöra svo vel og mata hlutina alveg ofan í þau! Ekki skemmir hvað við "Hengama" erum dugleg að tala saman í símann- Ég er nefnilega búinn að komast að því að það þýðir ekki að segja:"sjáðu?" í símann- maður verður að lýsa hlutunum og segja frá. Hildur dagmamma mín er líka svo dugleg að hvetja mig og segja mér hvað ég er duglegur strákur. Núna er ég sem sagt bara orðinn símalandi daginn út og daginn inn. Pabba og mömmu finnst ég svo sætur þegar ég tala og hlæja eftir hverja setningu. Svo þurfa þau alltaf að apa allt eftir mér sem ég segi. Dæmi:"Dattur - dida- hessa- bílli". Ma&pa:"Já! Bjartur sitja á þessum bíl!"
"Dattur - hara- baaa- kubbana". Ma&pa:"já! Bjartur fer í bað með kubbana!" og fleira og fleira, allan daginn, alltaf jafn stolt á svipinn. Svo láta þau mig segja reglulega "appelsína, kónguló, sokkabuxur, gallabuxur, Ásthildur" og fleiri svona löng orð því þeim finnst það svo sætt!
Það er annars mest lítið í fréttum... fór í fermingarveislu um daginn til hans Kára frænda og skemmti mér manna mest á staðnum! Skelllihló svo með henni Svölu Birnu að undir tók í húsinu. Svo fórum við pabbi að sækja Emil afa í flugvélina um daginn. Það fannst mér svakalega merkilegt. Er svo farinn að kúka í koppinn (löngu búinn að læra að pissa í hann en ekki viljað kúka í hann hingað til)... en það eru kannski engar fréttir því pabbi lét mig hringja út um allt eftir það og segja fólki frá því. Frekar vandræðalegt...
Svo eru bara frekar nýlega komnar inn myndir þannig að ekki fylgja myndir með í þetta skiptið.
Munið svo eftir GESTABÓKINNI minni ;o)
-Bjartur L

2.4.06

Í bíl á leið norður

Snjór þakti allt og Bjartur borgarbarn ekki vanur að sjá snjóbreiðuna yfir allt og sagði "Mamma sjáðu, snjór út um allt gólf".

Bjartur var að teikna mynd

Þegar hann var spurður "Hvað er þetta?" og bent á myndina svaraði hann "Litir"( augljóslega )

"Hvað er í gangi"

Segir Bjartur þegar hann getur ekki eitthvað.

Oní baði

Þegar Bjartur talar um vin sinn "Óðinn Braga" segir hann "Oní baði".

Rennibraut

Þegar Bjartur var spurður að því hvar hann ætti heima sagði hann: "Rennibraut 23". Aðeins að rugla saman Hjallabraut og rennibraut....

15.3.06

Fékk ekki leikfang

Fór með ma&pa í Fjarðarkaup um daginn að versla föt og leita að náttfötum handa Helgömmu og pabbi leyfði mér að hlaupa um og skoða allt sem mig langaði( var nú reyndar eitthvað að skipta sér að ýmsu sem ég tók, hélt ég myndi skemma sumt ). Síðan fundum við mömmu eftir gott hlaup um búðina og ég var settur í innkaupakerruna og þá var farið í DÓTADEILDINA. Ég var nú ekki par sáttur við að vera fastur í kerrunni í kringum allt dótið en tók til minna ráða þegar gamla fólkið var ekki að horfa og byrjaði að hrúga leikfangabílunum í kerruna. Pabbi sá þetta uppátæki mitt og tók bílana aftur og síðan var farið á kassa. Þá þurfti hann endilega að fatta að mér hafði tekist að fela einn svo vel í kerrunni, ætlaði að koma honum heim og leika mér með hann, en pabbi tók hann og fór aftur með í dótadeildina, þannig að ég fékk ekkert nýtt leikfang í þeirri ferð :)

11.3.06

Afmæli eftir afmæli...

Halló skralló..
Nú er laugardagur og undur og stórmerki gerast! Amma mín (sem haaatar sund) er búin að hringja og segja við mömmu að hana langi til að fara með mig í sund!! Það er ýmislegt lagt á sig fyrir eina barnabarnið! Malla ömmusyss ætlar víst að fara líka og það skemmitlegasta: Svala Birna frænka kemur með! Ég er voða glaður með það. Reyndar er svo mikill snjór allt í einu að það gæti alveg vel verið að þeim systrum detti í hug að fara að gera eitthvað allt annað en að fara í sund- kannski bara út að renna! Við gerum vonandi eitthvað saman í dag..... Mamma og pabbi eru nefnilega að plana að fara eitthvað á stúfana í búðir og Lilja, mamma hennar Svölu, er að fara til nýju frænku minnar, hennar Ásthildar Elvu á vökudeildina og þá er eins gott að eiga svona gamlar kellur til að passa okkur krakkana....ekki hafa foreldrarnir tíma! ;o)
Um daginn fór ég í "ammli" til Óðins Braga (sem er að verða stóri bróðir) og mikið var gaman! Hann fékk ekkert nema stóra bíla og gröfur í afmælisgjöf! Ég sem er svoooo gröfusjúkur og á bara eina pínulitla! (Amma er reyndar búin að redda því- og nú á ég gröfu heima hjá henni og afa). Annar vinur minn, hann Ari Björn, átti líka afmæli um daginn en því miður komst ég ekki í afmælið hans því hann býr á Seyðis... Svo á morgun er eitt afmælið enn- Emil Gauti verður 3 ára!

23.2.06

Bjartur stóri frændi

Já, nú er ég sko stóóóór frændi! Ég er búinn að eignast pínu, pínulitla frænku. Hún er systir hennar Svölu Birnu stóru frænku minnar og hún er ekki stærri en Binni dúkkan mín! Henni lá svo á að koma í heiminn til að leika við okkur Svölu. Hún þarf samt að sofa í glærum kassa í nokkrar vikur í viðbót áður en við getum knúsað hana. En þegar hún er alveg tilbúin þá verður sko gaman hjá okkur.
Annars er ekkert að frétta af mér... ég er búinn að vera lasinn og pirraður. Vil bara horfa á skrípó og drekka djús. Reyndar kom Ari Björn í heimsókn til mín um daginn og við lékum okkur smá. Mér tókst nú að smita hann... það var ekki gaman :o/ Jæja... það er nú ekki meira að frétta af mér í bili... en elsku munið nú eftir gestabókinni minni! Það er svindl að kvitta ekki ;o)

6.2.06

Jæja.... komið að fréttum

Er það ekki??
Veit bara ekki hvar ég á að byrja- það er alltaf nóg að gera hjá mér....
Það sem mér finnst skemmtilegast þessa dagana er að ryksuga og bora. Já, maður er fjölhæfur!
Berglind, vinkona mömmu, lánaði mér svo fína ryksugu og ég er bara alltaf að. Við mamma erum bara í því að ryksuga í takt, hehe. Þegar ég er ekki að ryksuga þarf ég að bora og laga alla veggi hérna á heimilinu. Afi er voða glaður með það;o)
Síðustu helgi gisti Svala frænka hjá mér. Við erum ansi góð saman. Mér fannst þetta svo merkilegt: Svala svaf í mínu herbergi og við fórum í bað saman og allt! Hún kom meira að segja með mér í matarboð til Óðins Braga vinar míns. Það var sko ekki leiðinlegt kvöld! Við þrjú vorum alveg að missa okkur- við vorum svo skemmtileg... að okkar mati;o) Svoldið mikill hasar í okkur.
Ég er orðinn rosa duglegur að tala, maður er alltaf að æfa sig sko... pabbi heldur að ég hafi gáfurnar frá honum en mamma segir að ég sé svona duglegur því ég er aaaalgjör bókaormur. Helst vildi ég lesa bækur allan daginn! Verð aldrei þreyttur á því- mamma og pabbi eru með eitthvað minna úthald.
Það er eitthvað lítið um myndatökur þessa dagana því myndavélin hans pabba er orðin eitthvað leiðinleg. Mér finnst það frekar slæmt því þá getur Helgamma ekki séð hvað ég er duglegur að stækka... Það er nú samt eitthvað til og vonandi nennir pabbi að setja þær hingað inn bráðlega...
-Bjartur

2.2.06

Á leið í búðina

Mamma kom fram og sá þá Bjart að klæða sig í skóna. Mamma spurði "hvert ertu að fara?" "Útí búð að kaupa meira tommakex" svaraði Bjartur.

6.1.06

Gleðilegt strumpaár allir!

Já þá er búið að sprengja okkur inn í nýtt ár og mér finnst þetta alveg merkilegt fyrirbæri-sprengjur. Ekki aaaaalveg til í að vera neitt OF nálægt þessum sprengingum, er svona meira fyrir það að horfa bara út um stofugluggann í öruggum höndum, lem svo í gluggann og segi:"BOMM!" Get samt alveg verið sammála því að þetta eru rosalega flott ljós.
Mikið svaaaakalega er ég annars búinn að hafa það gott um jólin- þó ég saknaði krakkanna og Hildar alveg rosalega mikið! Á aðfangadag fórum við fjölskyldan á Burknavellina til ömmu, afa, Balla og Valgeirs. Þar byrjar dagurinn alltaf á heitu súkkulaði a´la afi og smákökur við englakertaljós- svaka flott. Í hádeginu er möndlugrautur og möndlugjöf..... ég borða grautinn en hef svona takmarkaðann áhuga á gjöfinni...Svo koma gestir með pakka til að fá pakka og hangikjöt á pinna, smá laufabrauð og karlarnir fá eitthvað sterkt með kaffinu. Ég var settur svo út í vagn að lúlla mig fyrir kvöldið og mamma og pabbi fóru ÞRIÐJU ferðina heim til að ná í pakka- alveg ótrúlegt pakkaflóð- og mér fannst það sko ekki leiðinlegt. Þau komu svaka fín rétt í tæka tíð, ég drifinn í jólafötin og þá hringdi inn jólunum! Þetta smellpassaði bara allt saman.
Í matinn var kalkúnn og ég borðaði hann með bestu lyst- þó svo að ég borði ekki kjúkling- enda er þetta sko ekki það sama! Þegar maður var búinn að sprengja sig út fékk ég strax að opna pakkann minn frá mömmu og pabba- ég gat ekki látið hann vera, hann var svo stór! Og hvað haldiði að ég hafi fengið?? Hvað annað nema ELDAVÉL? Kokkurinn sjálfur. Enda eldaði ég kvöldið á enda- bakaði líka þrisvar í bleyjuna mína við dræmar undirtektir.... Mömmu fannst þetta ekkert mjög... svona... jólalegt hjá mér..hehehehe
Svo fékk ég alveg fullt af flottum gjöfum! og segi bara við alla: TAKK, TAKK, TAKK! og læt blautan koss fylgja með ;o)

Jæja, þetta er sko ekki allt búið enn.... því milli jóla og nýárs fórum við austur á Seyðis til Helgömmu og hinna. Þar var dekrað við okkur eins og venjulega. Gamlárskvöld var svona týpískt: borða mat, svo fórum við að sjá stóra bálið og svo var ég með stórskemmtileg skemmtiatriði þegar allir þóttust vera að horfa á eitthvert "skaup".... Ég var nú miklu fyndnari- allavega sagði amma það :o) Eftir þetta byrjaði sko ballið: Allir út að sprengja...nema ég. Það fannst mér ekkert svakalega spennandi- nema í hæfilegri fjarlægð. Vandist þessu samt svona þegar á leið.

Við kvöddum svo Helgömmu með tár í augum en ég tók sko gleði mína aftur þegar ég hitti Hildi mína og krakkana! Hildur sagði við mömmu að hún hefði bara aldrei séð mig svona kátan- hlaupandi í hringi og hlæjandi- mikið leið mér vel að vera kominn í rútínu aftur! Og þannig er það bara núna: rútína. Allir farnir að vinna og eru alveg svakalega sáttir með allt saman.
Það eru væntanlega til myndir af þessu öllu saman ;o) þær koma með kalda vatninu segir gamla liðið...

-Bjartur