Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

25.10.11

Fer það eftir stærðinni?

Mamma segir reglulega við Dagný:"Ég elska þig mikið."
Þá segir Dagný alltaf:"Elska þig lítið."
Fyrst var þetta bara fyndið og sætt en eftir nokkur svona svör ákvað mamman að verða agalega móðguð og sár. "Af hverju segirðu alltaf "lítið"?"
Þá kom:"Mamma. Ég er lítil og get bara elskað lítið!"

22.10.11

Sunna sæta sól 5 ára skvísa

Við náðum ekki að vekja Sunnulinginn okkar á afmælisdaginn en náðum henni þó í rúminu. Þær systur höfðu sofið saman um nóttina í Sunnurúmi og vöknuðu saman og lágu bara og spjölluðu í rólegheitum þegar pabbi og Bjartur komu með pakkana og sungu afmælissönginn. Sindri og mamma slógust svo í hópinn þegar pakkarnir voru opnaðir. Skvísuföt frá mömmu og pabba og Strympubangsi frá Bjarti stórabróður. 

Svo var tekið til við að klæða þær systur og greiða. Sunna valdi sér afmælisföt fyrir leikskólann og skrípóstelpan vildi auðvitað líka fara fín í tilefni dagsins. Afmælisskvísan valdi að baka köku fyrir krakkana á deildinni og, gæðablóðið sem hún er, leyfði hún litlu systur sinni að taka þátt í öllu þessu með sér, sleikja sleikjuna og allt saman. Svo fékk hún glæsilega kórónu og afmælissöng, að sjálfsögðu. 
Þegar heim var komið opnaði hún pakka frá Dagný syss og svo var undirbúið pizzapartý fyrir ömmu&afa, Balla frænda og Valgeir&Þyrí. Í eftirrétt vildi hún bjóða uppá banana með bráðnuðu súkkulaði. En það gleymdist eiginlega að græja eftirréttinn því það var svo mikið að gera að föndra með föndurdótið og  gaman að hoppa og skoppa í náttfötunum sem amma&afi gáfu. Hann var þó afgreiddur með hraði eftir beiðni (og nokkur tár) afmælisbarnsins og fór okkar kona afar sátt í rúmið eftir æðislegan 5 ára afmælisdag.

20.10.11

Stundum er erfitt að vera alltaf þessi yngri....

Sunna var að byrja að æfa fótbolta og auðvitað vildi Dagný þá líka byrja að æfa. Við vorum á heimleið í haustsólinni úr leikskólanum þegar þessar umræður áttu sér stað og langir skuggar mynduðust. Mamman reynir að útskýra fyrir skrípóstelpunni að hún sé ekki alveg nógu stór ennþá til að byrja í fótboltanum...Þá segir Dagný afar sannfærandi, eins og svo oft áður:"Jú, mamma! Sjáðu skuggann minn. Hann er nógu stór!" .........og hvað segir maður þá? ;o)

18.10.11

tvær er betri en ein....

Dagný fékk möndlu (nammi) hjá mömmu. Um leið og hún var búin að kyngja bað hún um aðra.
Mamma:"Nei, ekki meira"
Dagný:"En, ég VERÐ að fá aðra. Þessi er bara ein í maganum og vill hitta vinkonu sína!"
Það má reyna ýmislegt...  ;o)

11.10.11

Dagný Logadóttir orðin 3 ára!

Litla kellingin var vakin eldsnemma í morgun af allri fjölskyldunni. Hún var lengi að vakna, aldrei þessu vant. Mátti svo leita sjálf að afmælisgjöfunum sem systkini hennar voru búin að kaupa handa henni. Sú leit gekk fljótt og vel og var þá sett í 5. gír því drífa þurfti liðið í föt og af stað í skóla/leikskóla.
Daman fékk auðvitað að baka sjálf þegar í leikskólann var komið og valdi hún að hafa kremið bleikt. Hún fékk svaka fína glimmer-HelloKitty-kórónu og afmælissöng og naut þess að vera aðalnúmerið í dag ;o) ....ekki það að hún sé það ekki alltaf! hehe.
Þegar heim var komið lék hún sér með afmælisgjafirnar frá krökkunum og beið þess að matargestirnir kæmu. Amma&afi, Balli og Valgeir&Þyrí voru boðin í afmælismat sem afmælisbarnið mátti velja og bauð hún uppá dýrindis grjónagraut, flatkökur með hangikjöti og slátur. Í eftirrétt var svo súkkulaðifondue með ávöxtum.
Kvöldið endaði með afmælisbaði eftir að hafa verið með danssýningu fyrir gestina og eftir að hafa leikið sér eeeeendalaust með gjöfina frá ömmu&afa. Búðarkassi með kallkerfi og færibandi og ég veit ekki hvað og hvað... svo spennandi dót að ekki gafst einu sinni tími til að tala við Helgömmu sem hringdi auðvitað í afmælisbarnið í tilefni dagsins! Daman sofnaði svo ofursátt og ofurvært eftir daginn sinn með það á vörunum hvað hún elskar ömmu og afa mikið :O)