Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

23.12.08

Jæja, það er komin Þorláksmessa!

Allt tilbúið fyrir jólin á þessum bæ. Bara eftir að skúra yfir gólfin, það tekur því ekki að gera það fyrr en á síðustu stundu. Annars fær mamman á bænum geðvonskukast ef einhver slysast til að hella niður. Jú, svo á eftir að klára að skreyta jólatréð. Það liggur við að það þurfi að pína þessi börn til að taka þátt í skreytingunni....það er mjög takmarkaður áhugi..
Núna er Logi með Bjart OG Sunnu í Bónus. Hehehehe væri til í að sjá hvernig honum gengur. Skil ekkert í því að hann hafi nennt að taka þau bæði með. Á meðan erum við Dagný bara heima að dúllast eins og vanalega- við erum svo miklar dúllur. Við settum hreint á rúmin. Alltaf vaknað í hreinu á aðfangadag. Það er æði. Svo erum við búnar að brjóta saman fjall af þvotti og ganga frá. Og ryksuga gólfin.

Við fórum í bústað um helgina. Enduðum á því að fara eftir að hafa hætt við nokkrum sinnum vegna veðurs. Svo komu amma, afi og Balli á laugardaginn. Það var æðislega kósý hjá okkur í miklum snjó og roki. Það var grillað, spilað, farið í pottinn, étið nammi og snakk og drukkinn smá bjór og rauðvín- ekki mikið:o) Á sunnudeginum komumst við ekki heim... það þurfti að moka okkur út. Þetta var bara skemmtilegt ævintýri. Þetta var önnur bústaðarferðin á stuttum tíma þar sem okkur fannst Dagný varla vera með. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta er stillt barn. Maður veit varla af henni.

Best að fara að ganga frá úr pokunum...liðið er komið heim.

Gleðileg jól!

16.12.08

Svo dimmt á morgnana...

Sit hérna við eldhúsborðið með te og kex. Hjúkkan er að koma að vigta Dagnýju. Trust me- ef hún væri ekki á leiðinni væri ég sko sofandi með dúllunni minni. Við skríðum alltaf aftur uppí þegar stóru krakkarnir eru farnir í leikskólann.

Hópstjórinn hennar Sunnu boðaði foreldraviðtal í gær. Þær eru ánægðar með stúlkuna. Hún er dugleg, farin að pissa í klósettið, tekur vel þátt í öllu, er vinsæl hjá krökkunum og ekki séns að setja hendur eða fætur í málingu til að stimpla fótafar eða handarfar. Maður er svoldið pjattaður...Hehehe svo sagði hún:,,Málþroskinn er góður." Einmitt, hún er sítalandi. Alveg farið að suða í eyrunum stundum....
Það er nóg að gera hjá krökkunum á leikskólanum þessa dagana. Jólaföndur, heimsóknir í kirkjur, jólaþorpið, Árbæjarsafnið og ég veit ekki hvað. Jólaballið er á fimmtudaginn og þá kemur jólasveinn. Þá verður Sunna mín hræddur, eins og hún segir sjálf. Bjartur stóri bróðir passar hana án efa. Hann getur nefnilega verið alveg óskaplega ljúfur við hana svona þegar hann er ekki að stríða henni.

Jæja, dinglar hjúkkan. Á ég að hleypa henni inn?

Komin og farin. Dagný dafnar vel. Aaaaaaðeins farið að sléttast úr þyngdarkúrfunni. En bara eðlilega. Við þekkjum það hér á bæ, engar bollur þessi börn. Næst á dagskrá er 3 mán. skoðun og sprauta :os

Nú styttist í Balla bró og bústaðarferð. Hér er talið niður. Það er svo gaman að fá Balla frænda heim. Svo er allt að verða tilbúið fyrir jólin. Bara eftir að kaupa jólatré og skreyta það. Pakka inn einhverjum gjöfum. Kaupa 1-2 gjafir.... æ, það er alltaf plentí eftir.

Ætlað skríðundir sæng í dimmunni.

7.12.08

Jóla jóla...

Farið var í búðarferð með alla fjölskylduna um helgina. Það gekk alveg ágætlega en var ekkert svakalega gaman. Krakkarnir skemmtu sér svosem og Dagný svaf bara í vagninum. Foreldrunum fannst eitthvað erfitt að reyna að velja jólagjafir og hafa augun á krökkunum um leið. Endaði á því að Bjarti langaði í ALLT sem til var í búðinni. Notaði öll sín ráð til að fá hitt og þetta en þau virkuðu ekki vel. Alveg skrítið líka hvernig svona flott krókódílatár gátu klikkað! En það tilheyrir að fara í eina leiðinlega verslunarferð fyrir jólin. Er einhvern veginn bara hluti af öllu stússinu;o)

Bóndinn á bænum heldur áfram að pakka inn jólagjöfum. Kerlingin fór svo eitthvað að rausa um að hann notaði alltaf sama pappírinn! Barnapappír! Þið hljótið að þola það;o)
Svo tókum við okkur til og skrifuðum öll jólakortin í gærkvöldi. Rauðvín, ostar....hljómar vel. Nema það endaði auðvitað á því að Logi drakk mest allt rauðvínið (hann er ekki þessi með brjóstin jú sí) og var farinn að rausa í jólakortin. Okkur fannst allt fyndið en reyndum að hemja okkur. Við grenjuðum úr hlátri þegar Logi söng:,,Skreytum TRÉ með grænum greinum..." og:,,Hoppa kátur út um gluggann." Það eru ábyggilega einhverjir sem fá skrítin jólakort í ár. Kerlingin, sem fór á undan að sofa, fékk ekki að ritskoða sum kortin. Þau voru komin í lokuð umslög í morgun....

Við tókum því svo ósköp rólega í dag. Bjartur svaf hjá ömmu og afa og kom heim í hádeginu. Svo kíktum við í jólaþorpið og sáum jólasveina syngja. Gerðum tilraun til að heimsækja Emil Gauta og Gústaf Bjarna en þeir voru ekki heima... Nú eru allir komnir í ró og við alveg að detta í slikkerí. Það verður tekið á því eftir jólin.... kannski

2.12.08

Lífið á Hjallabrautinni...

Drengurinn situr á klósettinu. Leiðinlegur ávani að þurfa að kúka alltaf þegar hann er kominn uppí rúm. Gerist ansi oft. Þá heyrist alltaf í litla dýrinu:,,Ég þarf líka að kúka og pissa. Í koppinn." Svo fær maður nánar lýsingar á hvernig kúkurinn er. Núna til dæmis datt kúkurinn einn og einn og einn niður. Svona eins og lítil snjókorn sem falla til jarðar. Hann kann að lýsa hlutunum hehehe.

Við fórum öll fjölskyldan á sýningu Bangsadeildar í dag. Horfðum á skemmtiatriði og fengum svo smákökur sem krakkarnir höfðu bakað og heitt súkkulaði með. Það var æðislega gaman. Svo duglegir og skemmtilegir krakkar. Sunna var sótt á Ungadeildina til að horfa á stóra bróður. Henni finnst allt svo sniðugt sem hann gerir og hermir eftir honum. Dagný svaf yfir skemmtiatriðunum en það kemur ekkert á óvart. Á fimmtudaginn förum við aftur á sýningu. Þá er það Sunna söngdrottning sem fær að sýna atriði með deildinni sinni. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það fer..

Dagný fór í 6 vikna skoðun um daginn. Hún er styttri en Sunna var á þessum aldri og þá er mikið sagt! Svo er hún líka töluvert þyngri.... Logi sagði að það var eins gott að hún héti ekki Sunna... þá væri hún kölluð Sunna tunna ;o)

Nú er nóg að stússast fyrir jólin.. Logi situr sveittur að pakka inn gjöfum sem Máni greyið fær að flytja austur. Einn pakki til úglanda fór á pósthúsið í dag. Svo þarf að afgreiða fleiri jólagjafir og afmælisgjöf. Jólakortin eru svo gott sem tilbúin! Haldiði að það hafi ekki alveg óvart náðst þvílíkt flott móment af systkininum um daginn! Við vorum búin að mikla þetta svo fyrir okkur og eiginlega bara búin að ákveða að stilla þeim upp í svefni hehehe. Nei, nei. Myndin er komin og þá er meira en helmingur búinn...

Úff, er búin að vera í allt kvöld að skrifa þessa færslu... best að fara að baða yngsta molann og koma honum í rúmið..
over and out.

p.s. Þúsund þakkir til Helgömmu fyrir gleðisendinguna um daginn. Þvílíkur munur! Fólk flykkist í heimsókn til að fá almennilegan sopa.
Og líka þúsund þakkir til Erlu og Palla og krakkana fyrir kjólinn. Hann er alveg bjútífúl! Jólakjóllinn kominn sko!

Vá. Svo gleymi ég næstum aðalmálinu. Það eru komnar myndir. Úr skírninni og eitthvað fleira...