Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

22.12.05

JólaBjartur

Þá er allt að verða vitlaust í jólaundirbúningi! Hehe, nei bara að plata. Erum meira að segja búin að kaupa jólatré og allt. Mamma og pabbi eru bara að fara í leikhús í kvöld og taka því rólega! Afi og amma ætla að passa mig- jibbííí. Á morgun fer ég svo aftur í pössun til afa því mamma þarf að fara í klippingu- hún verður að vera fín á jólunum.
Ég er orðinn frekar spenntur sko... mér finnst svo gaman að jólaljósunum og svo er ég búinn að hitta jólasveininn- hann gaf mér nammi og gat látið stól standa á nefinu á sér. Amma og mamma sögðu að ég hefði verið alveg gaaaapandi hissa-bókstaflega.. Ég er búinn að kaupa jólagjafir fyrir alla, mamma og pabbi pökkuðu þeim inn fyrir mig, þannig að allt er reddí og jólin mega koma. Lilja, bumbuprinsessan, Svala og Tóti fóru í flugvélina um daginn.... þau ætla að eyða jólunum í sólinni- og ég á sko eftir að sakna Svölu mikið!
Aðfangadagur verður æðislegur. Eins og venjulega byrjum við í morgunsúkkulaði hjá afa og ömmu. Í hádeginu verður möndlugrautur og möndlugjöf. Svo koma gestir með pakka til að fá pakka ;o) Svo verður klukkan sex áður en maður veit af!
Jæja, vinir! Ég óska ykkur gleðilegra jóla!!
-Bjartur

13.12.05

Ömmu- og afastrákur

Jæja, þá er pabbi orðinn árinu eldri- hundgamall karlinn! Ég fékk nú ekki að halda uppá afmælið með mömmu og pabba... var bara settur í pössun til ömmu og afa. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar í röð! Þeim finnst nú ekki leiðinlegt að hafa mig;o) og ekki finnst mér leiðinlegt að vera hjá þeim- var víst einum of kátur að kveðja ma&pa... þeim fannst það eitthvað móðgandi.

Það er nú ýmislegt búið að gerast hjá mér síðan þið heyrðuð frá mér síðast... maður er bara ekki nógu duglegur að skila af sér fréttunum :os Það kom ný dama -Júlía Kristín- í heimsókn til mín um daginn. Ég var alveg dolfallinn yfir henni! Sat bara og starði á hana súpa mömmu sína! Emil Gauti og Gústaf Bjarni voru líka í heimsókn en ég vildi ekki leika með þeim, heldur bara horfa á þessa litlu prinsessu. Hún fékk að sitja í ömmustólnum mínum og mér fannst alveg merkilegt að hún gæti það! Svo var hún líka með bleyju- alveg eins og ég nota- nema bara pínulitla! En hún gerði nú ekki mikið nema að sitja og dotta þannig að ég lék mér aðeins við strákana líka.

Balli frændi sótti mig um daginn og fór með mig að gefa öndunum brauð. Það var alveg rosalega gaman. Alltaf gaman að fara í Ballabíl! Svo fórum við mamma og pabbi á stóran róló um daginn. Mér finnst skemmtilegast að renna. Við afi fengum okkur göngutúr um helgina. Fórum út í búð að kaupa ís (hvað annað?) Ég tímdi ekki að gefa afa með mér- hann fór þá að grenja og mér fannst það fyndið! hehehehe.....

Svo skilst mér að ég hitti bráðum Helgömmu. Ég skoða stundum myndirnar af okkur þegar hún kom hingað að passa mig og verð alltaf glaður að sjá hana.

Jæja, nú er komið nóg í bili;o)

-Bjartur

21.11.05

Hitt og þetta

Þá er heldur betur farið að líða að jólum- ég veit það því ég er alltaf í jólakortamyndatöku... Er ekki að nenna því sko. Mamma og pabbi láta alveg eins og vitleysingar til að fá mig til að sitja/standa kyrr. Þau skilja ekki að ég er upptekinn maður og þarf að vera að leika mér og svona. Reyndar skemmti ég mér alveg konunglega áðan þegar mamma var að labba um með könguló á hausnum og þykjast hrasa. Massa fyndið!
Um helgina síðustu fór ég í næturpössun til ömmu og "avva". Það var voða gaman. Þeir eru alltaf svo hressir þeir "Blalli og Gagei". Alltaf til í að leika og láta mig fljúga.
Undanfarið erum við mamma annars bara voða dugleg að búa til hús og leika og pússla og svona. Hún er svo dugleg að leika við mig þegar við komum heim frá Hildi- ég er nefnilega ekkert alltaf til í að fara heim- vil bara vera eftir og leika mér þegar ég er búinn að heilsa mömmu þegar hún kemur. En ég fæ víst ekki að ráða, er alltaf drifinn í úlpu og skó og látinn labba heim. Það finnst mér reyndar rosalega gaman- finnst ég voða fullorðinn þegar við mamma löbbum svona hönd í hönd. Svo kemur pabbi alltaf fljótlega heim og leikur með okkur þangað til ég fer að sofa. Það er búið að vera mikið að gera hjá pabba. Hann er alltaf að hitta strákana og spila á bassann sinn. Bráðum fer ég að nappa hann til að gera eitthvað bara við tveir saman. Við eigum pottþétt eftir að gera fullt þegar jólin koma, svo förum við austur þar sem alltaf er nægur tími til alls. Þá hitti ég Helgömmu og fleiri góða.
Annars var ég klukkaður af Ara Birni vini mínum.... Here goes:
1. Mér finnst GOOOOOTT að sofa. Og uppáhalds mitt í því efnum er koddi og dudda. Algjörlega ómissandi!
2. Ég er matargat- þótt ótrúlegt megi virðast.
3. Mamma á mig- segi ósjálfrátt voða sætt "mamma" þegar ég er spurður:"Hver á þig?"
4. Mér finnst ofboðslega gaman að krökkum- sérstaklega þeim sem eru eldri en ég.
5. Það er staðreynd að ég er yndislegur í alla staði- er aldrei til vandræða, er eins og hugur mömmu, pabba, ömmu og afa og rosalega duglegur lítill strákur.

Jæja.. það eru víst til alveg fullt af myndum, m.a. frá ferðalaginu okkar austur- það verður að bíða betri tíma (eða þegar fer að hægjast um hjá pabba).

1.11.05

Svala að tala við mömmu sína um dagmömmu Bjarts

"Hann getur ekkert átt mömmur út um allan bæ, Bína er mamma hans og þú er amma hans". Lilja ekki ánægð með greininguna( en er ömmusystir hans ) en fékk litlu breytt.

Módel

Bjartur sá módelin í sjónvarpinu vera að ganga niður sýningarbrautina og gekk fram og aftur eins og þær.

21.10.05

Jæja...

Verður maður ekki að segja ykkur fréttir af mér?
Síðast þegar þið vissuð var Helgamma að koma og passa mig. Núna er hún löngu farin en við skemmtum okkur alveg frábærlega saman! Hún er alltaf svo dugleg að leika við mig og dekra við mig. Vonandi sjáumst við aftur í lok október þegar mamma fer í vetrarfrí. Þá á langafi Emil líka stórafmæli og við verðum eiginlega að heimsækja hann þá- ef hann verður á landinu....
Nú er Svala stórafrænka mín orðin 5 ára og ég var auðvitað boðinn í afmælið hennar. Það var æðislega gaman- fullt af krökkum og stuð og læti.
Látum okkur nú sjá..... hvað er meira að frétta? Það er víst voða lítið. Ég er bara á fullu að fíla mig hjá Hildi dagmömmu á virkum dögum og svo gerum við familían eitthvað skemmtilegt um helgar. Til dæmis fórum við að hitta nýjustu börnin í vinahópnum, þau Ásdísi og Birki, einn sunnudaginn. Þau búa í Danmörku og eru í heimsókn á Íslandi. Ég var alveg heillaður af Ásdísi og vildi bara knúsa hana og kyssa. Svo á hún svo fína, bleika duddu sem ég átti fullt í fangi með að setja uppí hana.
Síðustu helgi kom Óðinn Bragi í heimsókn. Við vorum duglegir að leika saman og skála í mjólk:o) Þið sjáið að ég er bara spakur þessa dagana... Tíminn er svo fljótur að líða hjá okkur- það er alltaf þannig þegar það er mikið að gera;o)
Pabbi lofar að setja inn myndir á morgun fyrir aðdáendur mína!
Bless í bili.
-Bjartur

20.9.05

Enn einn vinurinn

Er ekki enn einn vinurinn kominn hjá vinafólki gamla settsins. Magni&Eyrún voru að eignast lítinn gutta, við óskum þeim innilega til hamingju með frumburðinn og ég hlakka til að hitta stráksa og kenna honum hvernig á að ráða öllu =)

19.9.05

Ég er glaður lítill strumpur

Nú eru sko allir glaðir. Ég átti alveg frábæran dag hjá Hildi í dag- fólkið er eitthvað að tala um að loksins sé ég að fatta þetta en ég er sko löngu búinn að fatta út á hvað þetta gengur..... ég var bara að mótmæla allan tímann. En það eru allir glaðir með strumpinn og alveg sérstaklega mamma og pabbi. Þeim líður víst eitthvað betur í vinnunni ef ég er sáttur.
Í gær fór ég í heimsókn til Óðins Braga. Við skemmtum okkur alltaf vel við "Bæji". Við náðum að draga gömlu settin okkar út að gefa öndunum brauð og náðum báðir að bleyta skóna okkar í gegn. Það var alveg hörkustuð- hopp í pollum, elta gæsir og fleira. Myndavélin var auðvitað með í för en það er alveg spurning hvenær þær komast hingað inn.
Bráðum kemur Helgamma að passa mig! Ég á alveg eftir að sýna henni nýja leikvöllinn við blokkina mína. Hún verður nú glöð að sjá að Trallinn hennar eigi svona fínan leikvöll til að róla, moka og ramba. Ég ætla sko að sýna henni leikvöllinn á hverjum degi;o) Oh ég hlakka svo til- það er svo langt síðan ég sá hana!
Jæja, ég ætla að láta þetta gott heita núna.
-Bjartur

14.9.05

Heyrist ekki í mér

Jæja allir góðir hálsar! Nema- ekki minn háls- hann er ekki góður....

Nú er ég heldur betur búinn að vera veikur! Ég hef bara ekkert komist til hennar Hildar og leikið mér. Ég er farinn að vera frekar úldinn sko. Vonandi fæ ég að fara á morgun. Það eru allir að verða geðveikir á þessu ástandi mínu. Mamma og pabbi skiptast á að vinna hálfan og hálfan dag á móti hvoru öðru til þess að geta verið heima hjá mér.

Helgamma er bráðum að koma í heimsókn til mín og passa mig í heila viku! Mikið hlakka ég til. Við eigum sko eftir að hafa það gott saman við amma. Eins gott að eiga svona ömmu þegar það er frí hjá dagmömmunni maður! Mamma og pabbi verða að fara að mæta almennilega í vinnuna og voru alveg sveitt yfir þessu fríi... en Helgamma reddaði okkur! Ég er alveg búinn að plana alla dagana sem hún verður með mér: DEKUR! Ójá, hún á sko eftir að snúast í kringum mig og fara með mig út að leika og svoleiðis.

Annars er ég bara hress, þannig lagað...ég sagði tvö orð saman um daginn og ég vissi ekki hvert gamla settið ætlaði! Þvílíkt spennandi! Ég var bara að leika mér og lét skóinn minn detta og sagði:,,Gó datt". Það náttúrulega fór allt uppí háaloft og skórinn var látinn detta aftur og aftur og alltaf sagði ég:,,Gó datt", við mikinn fögnuð. Ég skil þetta ekki alveg- þau eru alltaf að banna mér að láta hluti detta en svo alltí einu mátti ég það....ekki alveg að fatta...

Jæja, vonandi koma bráðum inn myndir.... svona fyrir ættingja og vini sem mætti halda að byggju hinu megin á hnettinum!

29.8.05

Frekjustrumpur

Já, maður er sko ákveðinn ungur maður! Ég var ekkert á því að vera hjá dagmömmu... þannig ég bara grenjaði og grenjaði þangað til að hún gafst upp á mér. Hehehe ég vann... hélt ég. Ég var bara settur til annarrar dagmömmu, sem er reyndar rosalega skemmtileg, og verð bara að vera sáttur. Það er voða gaman að hitta krakkana og leika dótið og svo syngjum við saman og teljum putta og fleira. Ég læri eitthvað nýtt á hverjum degi og mamma og pabbi eru alveg hissa á öllu þessu nýja sem ég kann.
Í kvöld var voða gaman hjá mér. Vinir mínir komu í heimsókn og borðuðu hjá mér. Mömmu fannst líka gaman því vinkonur hennar komu líka. Pabbi fer alltaf í bandy og svo á tónlistaræfingu á mánudögum og hinir pabbarnir eru líka uppteknir á mánudögum þannig að nú ætlum við að vera dugleg að hittast. Reyndar var ég eitthvað slappur í kvöld... ég er búinn að vera svo kvefaður og svo alltíeinu ældi ég öllum fisknum sem ég borðaði í kvöldmatinn. Ætli ég fari nokkuð til Hildar í fyrramálið? Maður má ekki smita alla krakkana...

8.8.05

Bjartur stóri strákur

Maður er alltaf að stækka og stækka og verða skemmtilegri og skemmtilegri. Það segja mamma og pabbi. Þeim finnst ég orðinn svo mikill krakki- ég heyrði þau tala um það í gær. Skil það ekki alveg.... ég ER krakki (?)
Annars er svo mikið nýtt að frétta að ég veit ekki einu sinni hvort ég man það allt! Um Verslunarmannahelgina fórum við familían til Akureyrar og hittum Þorberg Níels, vin minn og foreldra hans og stóra bróður. Við hittum líka Gústaf Bjarna og mömmu hans og Ara Björn og foreldra hans. Þið sjáið að það hefur verið ansi mikið stuð á okkur strákunum! Ég var alveg rosa duglegur að sofa í tjaldi og fannst ekkert smá næs að liggja svona á milli mömmu og pabba í heilar þrjár nætur! Við fórum í sund og tívolí og horfðum á skemmtiatriði og borðuðum ís í góða veðrinu á Akureyri. Þetta fannst öllum svo gaman að það á að endurtaka leikinn við tækifæri.
Núna um helgina sótti Balli frændi mig og fór með mig til ömmu og afa. Þar fékk ég að sofa eina nótt (heppinn ég). Ég var voða stilltur -eða, eins og engill eins og amma sagði. Algjör draumur, enda finnst mér nú svo gaman að vera hjá þeim. Og þeim finnst svo gaman að vera með mér;o)
En þá koma stóru fréttirnar: Ég er orðinn svo stór strákur að ég er byrjaður hjá dagmömmu!! Já, ég get svarið það! Mamma er líka hjá sömu dagmömmunni- en bara þessa viku segir hún. Bráðum á ég að vera alveg aleinn (með fullt af öðrum krökkum) og engin mamma! Ég hlýt að fara létt með það.... eða hvað? Ég er nú svo mikill mömmustrumpur..... Það var annars alveg rosa gaman að leika og skoða allt dótið. Svo er ég svo góður við litlu krakkana og kyssi þau og er aaaa við þau. Ég fór samt einu sinni að grenja og það var þegar Svala, dagmamma mín, vildi taka kúkinn af mér. Ekki aaaalveg til í það. Ég þekki hana ekki nógu vel ennþá.
En, jæja. Það eru hvorki meira né minna en TVÖ ný albúm í myndaalbúminu! Endilega kíkið:;o)

21.7.05

Skemmtilegir sumardagar

Það hefur verið alveg rosalega gaman hjá mér þessa sólardaga! Ég og mamma höfum gert eitthvað skemmtilegt á hverjum degi og svo er ennþá skemmtilegra þegar pabbi kemur heim og leikur við mig. Við erum búin að leika úti í garði, hoppa á trampolíni (ég er ógó góður í því), fara í dagsferð uppí bústað til möllu ömmusyss og í húsdýra- fjölskyldu- og grasagarðinn. Ég var þar í dag með ömmu, Lilju ömmusyss og Svölu Birnu. Ég veit ekkert skemmtilegra en að skoða dýrin og reyna að klappa þeim. Svo fórum við í fjölskyldugarðinn og þar gat ég snúið ömmu alveg í hringi í kringum mig! Hún gerði allt sem ég vildi og er alveg í uppáhaldi hjá mér núna. Við fórum svo í grasagarðinn að borða og svo þegar við fórum heim vildum við Svala fara beint út í garð að hoppa... Þannig að ég er búinn að vera úti í allan dag! Amma var svo ekki búin að fá nóg af strumpinum sínum í dag því hún bauð mér (og mömmu og pabba auðvitað) í mat. Þar sýndi ég allt sem ég kann og var með glæsileg skemmtiatriði við matarborðið. Ég get svarið það - það voru allir að drepast úr hlátri yfir mér! Mikið svakalega er ég skemmtilegur þegar sólin skín svona- kem eiginlega sjálfum mér á óvart og bara verð að taka undir með svaka hlátursrokum og innsogi og allt- alveg eins og fullorðnir gera...
Mamma og pabbi eru búin að vera frekar dugleg með myndavélina þessa dagana en það gengur eitthvað seint að setja þær inn í tölvuna- gerist kannski þegar sólin er farin...
Later, yours Bjartur skemmtikraftur

16.7.05

Frekar rólegt...

Halló.
Það eru búnir að vera frekar rólegir dagar hjá mér núna. Pabbi er aftur byrjaður í vinnunni -ég er búinn að venjast því að hafa hann ekki heima á daginn núna en fyrst var ég alltaf að leita að honum og kalla á hann. Svo áttaði ég mig á því að hann var ekkert á svæðinu og þá var ekki til neins að vera alltaf að kalla...
Mamma er búin að vera dugleg að fara með mig í heimsókn til ömmu og afa því þar finnst mér svo gaman að vera. Þau eiga svo fínt dót handa mér og það er alveg meiriháttar að fá aðeins að breyta til. Nýjasta dótið er algjör töfrakassi! Maður setur peninga í raufar og ýtir á takka og þá hverfa þeir! Svo ýtir maður á annan takka og þá koma þeir rúllandi út- ekki á sama stað og þeir hurfu, heldur allt annars staðar! Þetta finnst mér sko merkilegt.
Við mamma fórum um daginn í Nauthólsvíkina og hittum Lilju ömmusyss og Svölu. Það var svo gott veður að ég fékk að leika mér í sandinum á táslunum og með sólgleraugu. Svo fékk ég meira að segja að vaða líka! Þetta var skemmtileg upplifun. Mér finnst svo gaman líka að leika við Svölu. Núna er hún í sumarfríi og við getum leikið og leikið allan daginn.
Svo er ég búinn að vera alveg óþekkjanlegur í röddinni. Læknirinn segir að ég sé með barkabólgu en ég er nú að lagast. Mér finnst ég frekar flottur með röddina svona því þá er ég eins og alvöru ljón þegar ég segi eins og ljónið og mamma verður svaka hrædd við mig hehe.
Jæja- vonandi fara nú að koma inn myndir af aðalstrumpinum- ég veit að einhverjir hafa verið að rukka;o)

4.7.05

Fyrstu göngutúrarnir

Þá er ég byrjaður að fara í smá göngutúra =) Byrjaður að labba um aleinn og stundum sleppi ég pabba þegar ég geng með honum og held í höndina á honum. Ég er rosa montinn og alltaf að sýna hvað ég er duglegur að rölta um, þótt ég detti nú stundum =) Fyrst varð ég alltaf að hafa hendurnar uppí loft þegar ég var að labba en núna er nóg að hafa þeir beint fram. Helgamma og mamma segja að ég sé eins og múmía en ég verð einhvern veginn að halda jafnvægi!! Mér finnst líka rosa gaman að herma eftir pabba mínum, er alltaf að segja "Oh" þegar eitthvað dettur eða gerist eins og pabbi segir. Stundum segjum við oh á sama tíma, það er nú svoldið fyndið. Ég sest líka stundum í stólinn sem pabbi situr oft í og hlæ að sjónvarpinu eins og pabbi, eða halla mér aftur eins og hann og hlæ eins innilega og ég get. Ef einhver ropar eða hóstar þá hermi ég eftir og skellihlæ svo- mér finnst ég svo sniðugur. Mamma kom með lítinn hund handa mér frá London sem geltir og hoppar. Ég var nú svoldið smeikur við hann fyrst um sinn þegar hann var að gelta og hoppa, en núna þykir mér endalaust vænt um hann og knúsa hann fast og gef honum að drekka úr glasinu mínu. Ég er að reyna að kenna honum að segja ahh þegar hann er búinn að súpa en hann er eitthvað tregur greyið....

29.6.05

Bústaðarferð

Þá er ég búinn að hafa það gott fyrir austan hjá Helgu ömmu eftir afmælið mitt og kominn heim og farinn aftur í bústað( og kominn heim aftur ). Í bústaðnum var rosa gaman. Fullt af fólki fyrstu helgina og síðan komu gestir alla vikuna og við, mamma&pabbi, skoðuðum okkur um Grímsnesið. Ég fór reyndar í smá tanntöku á sunnudeginum og tók restina af vikunni í smá pirring vegna þess, en annars fannst mér rosa gaman í bústaðnum. Við fórum í Slakka og skoðunum full af dýrum og má sjá myndir úr allri ferðinni á myndasíðunni minni.

11.6.05

Fyrstu orð Bjarts

húa = húfa
fuva = fluga
gó = skór
dess = kex
daðði = dudda
dathi = koddi
di(th) = heitt

6.6.05

Eins árs

Þá er liðið eitt ár síðan ég kom í heiminn. Mömmu og pabba finnst það hafa verið fyrir nokkrum vikum sem ég mætti á staðinn. En mér finnst nú bara heilmikið búið að gerast á þessu ári, en gamla settið man nú bara svo lítið =) Viku fyrir afmælið mitt var haldin veisla heima hjá mér í Hafnarfirðinum þar sem mætti fullt af fólki og ég skildi ekkert í því hvað var í gangi heima hjá mér. Við erum komin í sveitina á Seyðis og finnst mér alveg rosa gaman hérna núna, engin tanntaka að trufla mig og ég kannast nú við pleisið og fólkið frá því um páskana. Hér var haldin afmælisveisla á Múlaveginum í gær. Það var heilmikið stuð og Ari Björn vinur minn mætti og við lékum okkur heilmikið( og rifumst smá ). Pabbi tók fram gamlan fjarstýrðan bíl sem okkur Ara Birni leist ekkert á. Pabbi var að hrekkja mig með því að setja hann af stað þegar ég var að skoða hann. Síðan fékk Sól að prófa að keyra hann og keyrði beint á Ara Björn, þá leist honum ekkert lengur á þetta tryllitæki sem óð um gólfin. Myndir úr báðum veislunum má finna á myndasíðunni minni.

25.5.05

Afmæli og sumarfrí

Þá er ég búinn að bjóða fólki í fyrsta afmælið mitt! Svo líður bara vika og þá á ég annað afmæli, hehe. Heppinn ég! Ætli ég verði nokkuð búinn að læra að ganga fyrir afmælið- hugsa ekki. Ég þarf alltaf að vera að flýta mér svo mikið að bumban fer alltaf á undan öllu hinu og þá missi ég jafnvægið og dett. Það finnst mér voða fyndið og skemmtilegt að ég held bara áfram að gera þetta svona... Svo bólar nú ekkert á öðrum tönnum... Reyndar sést móta fyrir einni efri tönn en ég er að spara þær og tími ekki að poppa þeim út strax.
Bráðum fer pabbi í sumarfrí í vinnunni og þá brunum við til Seyðis því ég á svo flottan pabba sem er í hljómsveit sem heitir Kóngulóarbandið og hann er að fara að spila á tónleikum með vinum sínum á Eskifirði. Vonandi fæ ég að sjá hann spila aðeins að deginum til- en svo fer ég í pössun til Helgömmu því mamma vill líka horfa á pabba spila um kvöldið. Þegar við erum búin að vera á Seyðis í nokkra daga (vonandi sem lengst fyrir mig og Helgömmu) förum við aftur heim og fögnum 17. júní og brunum svo í bústað með afa og ömmu, Balla og Valgeiri. Svo eigum við von á fullt af gestum í bústaðinn: Frænkur mínar Matthildur og Anna eru búnar að lofa að koma;o) og vonandi kíkja líka Gústaf Bjarni og Emil Gauti á mig og Baldvin Hrafn og Þorbergur Níels- það er nú ekki langt að keyra þetta;o) segir mamma.
Jæja, það eru komnar nýjar Hvítasunnumyndir í albúmið mitt- það er aldeilis að fólkið tók við sér með myndavélina!

18.5.05

Héddna

Hringdi í pabba í vinnuna í gær( reyndar gerði mamma það fyrir mig ) og var að segja hérna við hann. Mömmu fannst þetta þvílíkt sniðugt að hún lét mig hringja. Pabba fannst þetta líka rosa gaman að heyra hvernig ég sagði "hé'na" aftur og aftur. Gerði þeim meira að segja til geðs að segja það mismunandi skýrt og þeim fannst þetta endlaust gaman. Stórmerkilegt fólk, finnst ekkert smá merkilegt að ég segi eitt orð aftur og aftur( sem þau tönglast á sjálf ), þetta er nú bara heilaþvottur =) Læknisskoðun í dag, ma&pa voru reyndar búin að gleyma því þannig að kanski förum við mamma bara ein í þessa skoðun því pabbi er í vinnunni og skoðunin er klukkan tvö. Nú er eins gott að ég sé búinn að bæta aðeins á mig eftir veikindin um daginn =)

11.5.05

Nýjar fréttir...

Jæja, halló!
Ætli maður verði ekki að standa sig í þessum skrifum hérna... Það er svo margt í fréttum að ég veit bara varla hvar á að byrja.... Helgamma kom að heimsækja mig í nokkra daga um daginn- nema ég var ekki skemmtilegri en svo að ég varð veikur um leið og hún kom. Mamma og pabbi héldu að þriðja tönnin væri að fara að koma en ég var bara að plata þau:o) Það fylgdi engin tönn þessum hita og enginn skilur neitt í mér....
Mamma mín átti afmæli um daginn. Ég fékk ekki að vera með í partýinu- var bara settur í pössun til ömmu og afa. Það fannst mér ekki leiðinlegt. Ég er svo spenntur þegar ég er í pössun hjá þeim að ég vakna fyrir allar aldir (6:15, ehemm). Pabbi sótti mig svo snemma á sunnudagsmorgun og við fórum í bakarí því Óðinn Bragi vinur minn var að fara að koma í heimsókn. Það var rosalega gaman að hitta hann og ég sýndi honum allt sem hægt er að fikta í heima hjá mér. Pabbi tók myndir af okkur prakkarast og það fannst okkur gaman (myndirnar koma fljótlega fyrir myndaóða).
Á mánudaginn átti mamma alvöruafmæli og þá var haldin grillveisla sem ég fékk að vera með í. Amma, afi, Balli, Valgeir, Lilja og Svala komu. Það er líka gaman þegar Svala kemur í heimsókn- hún nennir að leika svoldið við mig og passa mig. Annars þarf voða lítið að passa mig núna- finnst mér allavega. Ég er ofursjálfstæður þessa dagana og vil helst bara vera í friði að skoða mig um og leika og svoleiðis. Svo er ég byrjaður að æfa mig að ganga og er voða montinn þegar mamma eða pabbi leiða mig bara með annarri hendi! Svo kann ég að standa sjálfur í nokkrar sekúndur- ég er alveg hissa á því! Held að ég sé bara alveg að fara framúr mér í þroska núna- ég er svo hissa þegar ég get eitthvað svona fullorðinslegt! Ég tók meira að segja tvö skref til mömmu áðan án þess að ætla það! Allir urðu voða hissa á mér og ekki síst ég sjálfur. Þetta átti ég auðvitað að gera svo strax aftur en ég held ég bíði með það í nokkra daga.... þetta er svo stórt stökk...

2.5.05

Eftirherma

Pabbi var að horfa á box í sjónvarpinu um daginn og þá rétti sigurvegarinn upp höndina...það gerði ég þá um leið líka =)

25.4.05

Aftur orðinn svaka hress

Góðan daginn, góðir hálsar!
Bjartur is back! ;o) Ég er búinn að vera svo lengi veikur að mamma og pabbi voru bara eiginlega búin að gleyma hvað ég er mikill djókari og hress alltaf. Síðan ég jafnaði mig hef ég verið alveg non stop í að sýna mig og skemmta þeim. Það er líka að koma sumar og ég er alveg kominn með vorfíling um allan kroppinn. Ég er aftur farinn að borða eins og hestur og mömmu er mikið létt! Mér finnst svo gaman að borða því ég er farinn að borða sjálfur. Ég vil sko setja brauðið upp í mig sjálfur og halda sjálfur á mjólkurglasinu. Mamma reynir stundum að setja uppí mig brauðbita, en nei takk- ég spíti honum út og set hann svo aftur upp í mig með mínum eigin puttum - það er allt annað bragð þá. Þegar það er kvöldmatur er ég settur í smekk með ermum, því ég sóða svo mikið, og svo er ég líka með plastsmekk með skúffu sem grípur allt sem ég missi. Ég held að pabba og mömmu finnist voða gaman að horfa á mig borða því þau eru alltaf brosandi og skilja ekkert í því hvað ég er að spá. Maður þarf nefnilega að skoða aðeins matinn, smakka á honum, kíkja svoldið aftur hvernig hann lítur út með því að taka hann aftur úr munninum, sleikja og finna bragðið.... og svo getur maður stungið uppí sig og tuggið með öllum tveim tönnunum og kyngt! Þetta þarf ég að gera með hvern bita og það þýðir ekkert að reyna að gera þetta öðruvísi!
Annars átti ég alveg meiriháttar skemmtilegan eftirmiðdag í dag! Við mamma sóttum pabba í vinnuna og svo fórum við út að labba og ég fékk að renna og ramba og allt!! Ég vona að við gerum þetta fljótlega aftur því mér fannst þetta svo skemmtilegt! Ég er eiginlega alveg viss um að við förum fljótlega því ég sá alveg að mömmu og pabba fannst alveg jafn gaman og mér- við þurfum bara að muna eftir að taka myndavél með næst.
Jæja- sjáumst síðar og munið eftir gestabókinni!

18.4.05

Lasarus

Það var aldrei að ég varð veikur! Ég er sko heldur betur búinn að taka þetta með stæl núna: Ég var sko ekkert að jafna mig á þessum smá hósta eins og ég talaði um síðast- ég hélt bara áfram að hósta og pústið virkaði lítið. Þegar ég var kominn með hita og ekkert búinn að borða í 2 daga fóru ma&pa með mig til læknis. Hann hlustaði mig og sagði okkur að ég væri kominn með lungnabólgu! Ég fékk lyf við því og er voða duglegur að taka þau. En það gengur voða lítið að fita mig- ég hef enga lyst á mat og vil bara drekka. Ég er svo mikill töffari að ég drekk Gatorate hehe. Sannkallaður íþróttaálfur. Núna er ég allur að koma til og alveg merkilegt hvað ég er búinn að vera duglegur og hress þó ég sé veikur (ég heyrði mömmu og pabba segja það í gær). Afi minn og amma mín hafa líka verið dugleg að koma að heimsækja mig og passa það að ég verði ekki alveg grænn af leiðindum að hanga svona alltaf heima.. Þau er alveg mitt uppáhalds
Annars er eiginlega ekkert að frétta af mér.... Ég get svo sem sagt ykkur frá því að ég var klipptur um daginn. JÁ! ekki fá hláturskast. Það ÞURFTI að snyrta smá! Það er alveg svaka munur að sjá mig;o) Svo er ég boðinn í afmæli til hans Emils Gauta á laugardaginn. Það verður gaman! Þá fæ ég að hitta alla strákana og leika! Yeah.
Jæja, læt þetta duga núna- sjáumst.

10.4.05

Mjóni Skjóni

Þá er maður bara kominn í fitun! Já, ég er of fitt fyrir læknana á Heilsugæslustöðinni minni. Núna drekk ég rjómabland og fæ smjör útí matinn minn;o) Ekki kvarta ég yfir því...
Mamma og pabbi (og auðvitað ég sjálfur) fengum að skoða hjartað mitt um daginn. Það var rosa kröftugt og flott. Ég skil ekkert í læknunum að halda að það væri eitthvað að því! Ég sem er svo frískur og flottur! Reyndar búinn að vera hóstandi í smá tíma núna en það er allt að lagast- ég þarf að anda í belg með pústi og það finnst mér sko ekki gaman. Maður verður samt að láta sig hafa það....
Ég hitti félaga mína, bræðurna Gústaf Bjarna og Emil Gauta, í dag. Mikið finnst mér gaman að leika með þeim. Gústaf Bjarni er líka svo duglegur að passa mig að mamma þarf ekkert að vera með augun alltaf á mér. Þeir eiga alveg svakalega mikið af flottu dóti og ég má alveg leika með það næstum því allt! Það er alltaf svo gaman að hitta þá að ég er alveg búinn á því eftirá og sofna vært í vagninum mínum.
Jæja, pabbi ætlar að setja inn páskamyndirnar í kvöld- þá sjáið þið hvað ég hafði það gott á Seyðis hjá Helgömmu.

3.4.05

Við afi erum svo fyndnir

Já við erum góðir saman! Okkur tókst að hrekja ömmu út úr herberginu í nótt- þannig að hún varð að sofa frammi í sófa hehe. Afi hraut svo hátt og ég hóstaði og hóstaði (er með smá kvef í mér) að amma varð að flýja. Það skipti mig engu máli þó afi væri að hrjóta- mér fannst það bara notalegt og svaf alveg til hálf níu í morgun.
Ég var sem sagt í næturpössun hjá ömmu og afa og skemmti mér alveg rosalega vel eins og venjulega- mamma og pabbi eru móðguð út í mig því ég er ekkert svakalega spenntur að sjá þau þegar þau komu að sækja mig. Ég veit að það þýðir bara að þá er fjörið hjá afa búið. Afi er líka svo góður við mig og ég get notað hann eins og fjarstýringu! Þegar hann heldur á mér bendi ég bara þangað sem ég vil fara og hann hlýðir mér alveg. Þegar ég er hjá afa get ég farið hvert sem ég vil. Mamma og pabbi nenna ekki svoleiðis....
Þegar mamma og pabbi sóttu mig fórum við í formúlupartý til Óðins Braga. Gamla fólkið kjaftaði svo mikið að við Óðinn vorum alveg frjálsir og gátum alveg rústað herberginu hans óáreittir! Það var ekki fyrr en við fórum að borða kerti að þau tóku við sér og bönnuðu okkur...Við erum ansi góðir félagar!
Jæja... það er annars ekkert að frétta af myndamálum- en það hlýtur að fara að koma....
Þangað til næst: Hafið það gott og sjáumst!

29.3.05

Nýtt fyrirbæri

Þá er maður aftur kominn heim frá Helgömmu. Ég var alveg rosalega stilltur á ferðalaginu. Mamma og pabbi eru alveg rosalega ánægð með hvað ég er duglegur að sofa í bíl. Ég ákvað nú samt að láta heyra í mér á nóttinni í ferðalaginu. Ég skildi þetta samt ekki alveg. Ég sem er vanur að sofa allar nætur. Ég fann bara eitthvað vera að brjótast um í mér og varð að vakna og vekja mömmu og pabba. Þau skildu þetta heldur ekki. Sögðu mér bara að fara aftur að sofa en mér var eitthvað illt og eina leiðin til að fá þau til að skilja það var að gráta og gráta... ég er ekkert svakalega stoltur af því en svona er þetta bara. Það var ekki fyrr en ég var að borða hafragrautinn minn einn morguninn að það heyrðist fallegt "kling" í skeiðinni! Þarna kom skýringin á öllum pirringnum á nóttinni og við fólkið mitt! Mamma og pabbi segja að þetta fyrirbæri heiti Tönn og ég á víst eftir að fá fleiri svoleiðis.. Kannski ég verði rólegri þegar næsta tönn kemur því núna veit ég alveg hvað málið snýst um.
Mikið var ég glaður að koma heim! Amma og afi héldu að ég væri búinn að gleyma þeim! Þau eru svo vitlaus! Eins og maður geti gleymt heilum tveimur manneskjum á einni viku! Ég var auðvitað látinn sýna þeim allar listir mínar sem ég lærði á Seyðis. Nú frussa ég þegar ég er spurður hvernig bíllinn segi, mjálma þegar ég er spurður hvað kisan segi og segi þþþþþ þegar ég er spurður hvað afi segir. Ég á að segja ís en það heyrist alltaf bara þþþþþ, en það skilst alveg;o) Svo klappa ég alltaf saman höndunum því þá gera allir hinir það - og þeir eiga að gera það því ég á það skilið fyrir að vera svona klár strákur.
Þegar ég kom heim skreið ég um íbúðina mína til að athuga hvort allt væri örugglega á sínum stað og tékkaði á dótinu mínu og svona. Ahh hvað það var gott að koma heim! Verst að ég gat ekki tekið Helgömmu með mér. Hún er svo dugleg að sýna mér hluti og leyfa mér að koma við þá. Ég heyrði samt að hún lofaði mömmu og pabba að koma fljótlega í heimsókn til mín. Ég þarf að hringja í hana og láta hana standa við það! Hehehe... hún á sko ekki eftir að geta sagt nei við Trallann sinn! ;o)
Pabbi á nú fullt í fangi með að setja allar myndirnar sem voru teknar inní tölvuna og skrifa við þær...
Ég læt vita þegar þær eru allar tilbúnar. Sjáumst!

14.3.05

Afi, amma og ég

Hann litli ég átti alveg þessa fínu helgi. Var í næturpössun hjá ömmu og afa og skemmti mér alveg konunglega. Þegar mamma og pabbi komu að sækja mig var ég ekkert alltof spenntur að láta þau taka mig. Maður verður nú að láta þau hafa aðeins fyrir því að vinna mann aftur þegar maður er skilinn svona eftir yfir nótt! Ég vildi bara helst vera hjá afa mínum. Hann er líka alltaf svo góður að leika við mig og sýna mér hluti. Amma er líka alltaf svo skemmtileg við mig. Knúsar mig í bak og fyrir og mér finnst það svo gott- því mamma gerir það líka;o) Mamma og pabbi fara bráðum aftur að skemmta sér með vinnunni hans pabba og þá ætla ég sko að fá að vera hjá ömmu og afa! Þar er sko alltaf líf og fjör. Ég er svo vinsæll að meira að segja Balli og Valgeir frændur mínir hoppa um og segja:"Tada!" og Balli er alltaf að kenna mér eitthvað nýtt. Núna segir hann alltaf við mig hátt og skýrt:"BAAALLLLLLIIII". Ég skil ekkert í því- ég veit alveg að hann heitir Balli.... Stundum svara ég honum og segi:"Ba", og þá verður hann alveg rosalega glaður. Nýjasta trikkið mitt að dansa og klappa og það er alveg merkilegt hvað mamma og pabbi verða glöð yfir því. Segja alltaf að ég sé svo duglegur strákur, þá hristi ég hausinn og þau halda þá að ég sé enn að dansa og þá segja þau aftur:"VEI! Duglegur!" Það þarf ekki mikið til að gleðja þessi grey;o)

9.3.05

Styttist í austurferð

Ég fór í afmæli til hans Óðins Braga á föstudaginn síðasta og gaf honum pakka og allt! Það var voða gaman að leika sér svo með dótið sem hann átti og fylgjast með öllum krökkunum sem voru í afmælinu líka. Ég var rosalega stilltur og sló alveg í gegn hjá Hörpu vinkonu minni, pabba og mömmu. Henni fannst ég svo rólegur og kúltiveraður og spáir því að ég verði bókmenntafræðingur eða eitthvað álíka... Óðinn Bragi var hins vegar alveg í fullu fjöri og mér fannst alveg merkilegt að fylgjast með honum. Svo er Ari Björn, vinur minn, líka orðinn eins árs en ég komst ekki í afmælið hans. Ég er samt búinn að gefa honum pakka og við hittumst aftur um páskana þegar við förum austur.
Amma Helga er alveg rosalega spennt að fá að knúsa mig þegar ég kem og hún getur knúsað mig lengi.... því við verðum í marga daga hjá henni! Mamma og pabbi eru eitthvað stressuð yfir því að keyra svona langa leið með mig. Ég veit ekki hvað þau halda eiginlega að ég sé! Ég er nú ekki vanur að vera með læti eða grenja í bíl. Ég er samt glaður yfir því að við ætlum að gista hjá Emil Gauta, vini mínum, og Gústafi Bjarna, bróður hans, á Mývatni eina nótt. Þeir bræður verða í sveitinni sinni yfir páskana með mömmu sinni og pabba. Þannig að þetta verður ekki næstum því eins erfitt og mamma og pabbi eru búin að ímynda sér.
Jæja, það koma glænýjar og skemmtilegar myndir í myndaalbúmið mitt í kvöld ef ég man eftir að biðja pabba að setja þær inn. Sjáumst síðar!!

2.3.05

Pabbi að tala um "litla" kallinn sinn

Pabbi var að segja að hann og mamma ætluðu að keyra með kallinn austur um páskana og Bogga í vinnunni hans pabba sagði hissa "Hvaða kall?", hún hélt að pabbi væri að tala um gamlann kall =)

28.2.05

Fullt af afmælum

Nú er aaaalveg að koma mars og þá verða vinir mínir, Óðinn Bragi og Ari Björn, eins árs! Við mamma og pabbi förum kannski á eftir að kaupa handa þeim afmælisgjöf og þá ætla ég sko að fá að velja! Það verður að vera eitthvað flott dót handa svona stórum strákum.
Valgeir, frændi minn, varð 16 ára um helgina. Mér var boðið í afmæli til hans á laugardaginn. Það var alveg rosalega gaman- ég svaf eiginlega allan tímann af því að það var kvöld þegar afmælið var. Ég var svolítið þreyttur líka því mamma og pabbi drösluðust með mig allan daginn niður og upp Laugaveginn og inn og úr úr búðum. Reyndar var ég bara í mestu makindum í vagninum mínum og gat fylgst svona aðeins með mannlífinu.... Svo á sunnudaginn fór gamla settið með mig í Háskóla Íslands. Það var sko verið að þvæla manni um allt þessa helgi. Pabba finnst hann eitthvað eiga eftir að læra...og mömmu reyndar líka þannig að þau voru að kynna sér aðeins málið. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af háskóla á næstunni- kemst vonandi einhverstaðar að hjá dagmömmu næsta haust! Mamma fær að hafa áhyggjur af því fyrir mig- ég brosi bara áhyggjulaus allan daginn, alla daga!;o) Þannig á það að vera þegar maður er að verða níu mánaða.
Jæjajá! Það eru annars nýjar myndir í myndaalbúminu mínu og mörg laus pláss í gestabókinni:O) Sjáumst!

22.2.05

Bjartur uppistandari

Jæja, það er nú meira hvað maður er lélegur að skrifa fréttir! Það er alltaf svo mikið að gera. Ég er orðinn rosalega duglegur að standa upp við hluti og labba með.... aðeins erfiðara að fara niður aftur. Ég er samt alltaf að æfa mig og titra alveg í hnjánum þegar ég er að vanda mig að fara niður- svo ég skelli ekki bara í gólfið. Hef nefnilega dottið ansi oft og safnað marblettum. En ég er búinn að læra að fara varlega núna.
Mamma er að fara með mig að heimsækja gamla fólkið á eftir- svo kíkjum við kannski í heimsókn til Emils Gauta vinar míns. Mér finnst hann svo skemmtilegur. Hann getur nefnilega labbað um allt og leikið sér svo flott. Hann kom í heimsókn um daginn og ég elti hann út um allt í göngugrindinni minni nema þegar hann fór inní herbergið mitt- yfir þröskuld- þá gat ég ekki elt hann lengur og fór þá alltaf að gráta. Þá kom mamma hans Emils Gauta og hélt að hann væri kannski að meiða mig!! Þessar mömmur fatta aldrei neitt...kveiktu reyndar loksins á perunni en þá var það orðið of seint og Emil Gauti fór að lúlla í vagninum mínum.
Það fylgja engar myndir með núna...koma vonandi um næstu helgi þegar pabbi er búinn að skrifa við þær... kannski mamma geri það frekar... held að hún sé fljótari;o)

8.2.05

Enn einn strákurinn!

Ég var að eignast nýjan vin. Þessi vinur kemur til með að verða rosalegur prakkari. Hann var eitthvað að flýta sér í heiminn og kom öllum að óvörum ca mánuði fyrir tímann. Svo plataði hann alla alveg upp úr skónum því hann átti að verða stelpa, fyrsta stelpan í vinahópnum hans pabba, en svo var hann bara strákur!! Það verður sko stuð að leika sér við þennan þegar við verðum eldri!
Amma og afi ætla að passa mig á sunnudaginn því mamma og pabbi ætla að fara út að borða og í leikhús. Ég er sko strax farinn að hlakka til! Það er alltaf svo gaman þegar amma og afi passa mig. Svo var ég að passa Svölu Birnu frænku mína um síðustu helgi. Mikið svakalega var það gaman! Ég varð svo glaður þegar ég vaknaði og sá hana að ég hló upphátt! Hún er líka ofsa góð við mig og passar uppá mig. Ég er nefnilega orðinn svo stór að ég er farinn að standa allstaðar upp og er ekkert smeykur við að sleppa- þ.e.a.s. ef einhver er nálægt og getur gripið mig EF ég dett.

1.2.05

Grallarastrákur

Sælt veri fólkið.
Það er alveg brjálað að gera hjá mér að stækka og læra nýja og nýja hluti. Ég fatta eitthvað nýtt trix á hverjum degi núna- mömmu og pabba til mikillar gleði. Ég tek svo vel eftir að ég kem þeim hvað eftir annað á óvart með hvað ég kann. Balli frændi er duglegur að kenna mér eitthvað sniðugt og ég apa allt eftir honum. Hann segist vera uppiskroppa með atriði núna...
Ég átti alveg voða góða helgi. Var settur í næturpössun til ís-afa og fékk sko ís! Ég var ofsa góður og stilltur og mamma og pabbi sóttu mig svo klukkan 10 morguninn eftir en þá var ég bara steinsofandi. Við höfðum planað að fara í sund á sunnudagsmorguninn en mamma og pabbi voru eitthvað voða mikið þreytt... Það er orðið svolítið langt síðan ég fékk að kafa síðast að ég verð að plata gamla settið næstu helgi. Svo hefur ekkert bólað á myndum á myndasíðunni minni... það á nú að lagast í kvöld (segir pabbi).

25.1.05

Bjartur í sumarhúsi í afmæli

Um síðustu helgi skelltum við mamma okkur í bústað - pabbi kom svo til okkar á laugardeginum og var eina nótt. Ég var nú farinn að sakna hans voða mikið og var alveg rosalega glaður að sjá hann þegar hann kom. Lilja, Tóti og Svala eiga bústaðinn sem við fórum í og það var sko æðislegt að leika við Svölu alla helgina! Mér finnst svo gaman að fylgjast með henni því hún kann að syngja svo mörg lög og hoppar og skoppar út um allt. Lilja ömmusyss varð 32 ára á laugardaginn og þá var heldur betur gaman. Malla, hin ömmusystir mín, og Þröstur, maðurinn hennar, komu á snjósleða í afmæliskaffið. Þegar allir voru búnir að borða passaði Malla ömmusyss mig á meðan liðið fór út að prófa sleðann og láta draga sig á slöngu og prófa fjarstýrðan bensínbíl. Ég var voða stilltur og rólegur hjá henni Möllu minni- enda svo prúður drengur. Hún setti mig í vagninn minn og ég bara fór að sofa eins og til var ætlast ;o)
Um kvöldið kom svo alveg nýtt fólk sem ég hef aldrei séð.... enda var ég með varann á. En það leið nú ekki á löngu þar til ég var sko búinn að heilla þau öll upp úr skónum og þeim fannst ég svoooo sætur drengur og bara algjört æði! Mömmu og pabba fannst nú ekki leiðinlegt að heyra það og voru að springa úr monti af gullmolanum sínum.
Á sunnudaginn fannst ís-afa ekki nógu gott hvað það var langt síðan við höfðum hist svo hann hringdi í mömmu mína og pantaði mig í heimsókn. Svo við brunuðum í bæinn og beint á Vellina til hans afa. Ég var alveg í essinu mínu þar og sýndi hvað ég er skemmtilegur. Reyndar leist mér ekkert á lætin í liðinu yfir einhverjum handboltaleik!! Það sem fullorðnir geta öskrað hátt!! Maður fer alveg í kleinu þegar manni bregður svona! Loksins komum við svo heim til okkar rétt fyrir kvöldmat og þá gat ég leikið með dótið mitt sem ég var ekki búinn að leika með alla helgina. Auðvitað voru svo teknar fullt af myndum af mér í bústaðnum- þær ættu að koma á næstu dögum...

17.1.05

Nýtt dót

Í gær vöknuðum við pabbi og leyfðum mömmu að sofa því hún er svo mikil svefnpurka... Við fórum í göngutúr í bakarí og keyptum bakkelsi. Svo þegar við feðgarnir komum heim var ég orðinn svo þreyttur og vildi bara fara út að lúlla í vagninum mínum. Ég fékk það auðvitað og um leið og ég var kominn út vakti pabbi mömmu. Hún var voða glöð að fá svona fínan morgunmat. Þegar ég vaknaði aftur fórum við fjölskyldan í Smáralindina til að kaupa dót handa mér! Það var gaman að fá glænýtt dót! Ég er orðinn svoldið leiður á gamla draslinu sem er alltaf í dótakassanum mínum. En ég fékk ekki að leika með það þegar við komum heim- ég var aftur orðinn svo þreyttur og fór út í vagn. Það er nú meira hvað maður getur sofið! Rosalega var gaman þegar ég vaknaði. Þá lék ég mér heillengi með nýja dótið. Svo fékk ég líka að prófa göngugrindina sem Emil Gauti og Gústaf Bjarni lánuðu mér. Ég er voða fyndinn í henni því ég verð svo montinn að geta flakkað svona um.... fer líka svakalega hratt, þó ég segi sjálfur frá! Þegar ég er í göngugrindinni opnast líka ótal nýir tætumöguleikar og sjóndeildarhringurinn stækkar! Allt það sem ég næ ekki í þegar ég er á maganum er sko nó problem í grindinni! Verst hvað mamma og pabbi eru fljót að átta sig á þessu og eru svo snögg að fjarlægja allt sem mér finnst svo spennandi. En eitt geta þau ekki fjarlægt svo auðveldlega! Það er videoið, dvd spilarinn og sjónvarpið! Ég hlæ bara að þeim þegar þau segja ó-ó þegar ég nálgast það!
Jæja, kæru félagar. Verð víst að ljúka þessu núna...en áður en ég fer: Pabbi var að setja glænýjar myndir í myndaalbúmið mitt. Sjáumst!!

10.1.05

Í pössun

Í gær fóru mamma og pabbi út úr húsi án mín! Amma og afi komu að passa mig og það var alveg rosalega gaman hjá okkur. Ég fékk að stripplast og réði mér ekki fyrir kæti. Svo heillaði ég þau auðvitað eins og venjulega með því að sýna allar mínar listir. Ég kann hvað ég er stór (eins og allir vita núna), svo kann ég "týndur" svona þegar ég nenni því, ég kann að veifa halló og bless, svo er nýjasta nýtt að smella saman vörunum þannig að ég verð eins og fiskur á þurru landi. Þetta geri ég í tíma og ótíma núna og þetta er alltaf jafn vinsælt. Ég lét gömlu hjónin líka dekra aðeins við mig og skreið til þeirra og hékk í buxnaskálmunum til að þau tækju mig upp. Þá kúrði ég mig í hálsakot og þóttist vera feiminn- bara til að vera dúllulegur. Amma gaf mér líka að borða og ég er alltaf svo duglegur að borða að hún hefur bara aldrei þekkt barn sem borðar svona mikið eins og ég! Já, maður er sko duglegur að stækka. Svo var ég líka duglegur að leika mér (eins og engill) þegar ég var orðinn vanur því að hafa þau hérna hjá mér- maður verður aðeins að tryggja það að þau fari ekki strax. Ég bara tók eiginlega ekkert eftir því að ma&pa væru ekki heima! Ég svaf svo bara á mínu væra þegar þau komu heim.....ég er svo súper

5.1.05

Bjartur prakkari

Halló, halló!
Mikið svakalega varð ég glaður í gær! Mamma og pabbi fóru loksins með mig í sund aftur. Ég er búinn að bíða og bíða eftir næsta sundtíma og í gær var biðin á enda. Það var sko alveg æðislega gaman. Ég sýndi allar mínar listir og var sko engu búinn að gleyma. Kafaði eins og sannur sundmaður!
Núna eru dagarnir annars voða rólegir. Mamma er að taka niður allt fína skrautið sem mér finnst hún nýbúin að vera að setja upp.... Og svo var svoldið skrítið í morgun að hafa pabba ekki heima. Hann er víst farinn að vinna aftur:o( Ég sakna hans mikið.... en ég hef alveg nóg að gera í því að láta mömmu hlaupa á eftir mér. Mér finnst voða fyndið að þegar ég fikta í einhverju spennandi þá verður mamma reið á svipinn og segir ó-ó. Þetta er mín helsta skemmtun nú til dags. Kellingin hefur líka gott af því að hreyfa sig aðeins eftir allt átið um jólin ;o)

1.1.05

Herbergið mitt =)

Það er búið að vera rosa stuð á mér yfir jólin. Á aðfangadag fórum við til Bekku&Bödda uppá Burknavelli, og auðvitað fékk ég ís hjá ís-afa. Ég fékk fullt af pökkum...meira að segja frá vinum mínum sem ég gaf ekki pakka( ég skammast mín svoldið fyrir að gefa þeim ekki neitt...en það verður bara að bæta það upp seinna ). Ég fékk fullt af flottum gjöfum og held að ég hafi ekki pláss til að telja þær allar hér, enda voru mamma og pabbi orðin svoldið þreytt á að opna pakkana mína, en var upptekinn af því að leika mér að nýja dótinu um leið og það barst í mínar hendur.

Á gamlárskvöld vorum við líka á Burknavöllunum. Pabba tókst að vekja mig fyrir miðnætti og ég fékk að horfa á flugelda með afa og öllum hinum líka. Ég kunni nú bara ágætlega við lætin og ljósin, enda voru mamma og pabbi búin að fara með mig á flugeldasýningu og venja mig við. Ég var í rokna stuði fram eftir nóttu og alveg búinn að því þegar ég kom heim. Þegar heim var komið fór ég að sofa í herberginu mínu sem mamma og pabbi gerðu tilbúið á gamlársdag. Það er risastórt og allt dótið mitt kemst fyrir þar á gólfinu þannig að ég get leikið mér þar eins og mér sýnist.

Annars er ég líka orðinn víðförull, farinn að skríða fram í eldhús og inní stofu svona þegar ég nenni ekki að leika mér inní herbergi =)