Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

29.9.08

Góðar fréttir...

Sunna var í hjartasónar í dag og er með fullkomlega eðlilegt hjarta. Hvað þetta aukahljóð er, vissi læknirinn ekki- gat helst skrifað það á að stundum heyrist aukahljóð þegar hjartað slær svona kröftuglega ;o) Já það er kraftur í litlu stelpunni okkar! Sunna var eins og engill meðan á skoðuninni stóð og lá bara hjá mömmu og bærði ekki á sér.

Svo eru fréttir af hinni litlu skvísunni: Við fórum í vaxtarsónar og auðvitað leit allt vel út þar líka. Daman orðin 10 merkur og dafnar bara vel. Gott blóðflæði um strenginn, eðlilegt magn af legvatni og óeðlilegt ef hún væri stærri... svona miðað við stærð mömmunnar. Nú eru 2-3 vikur eftir og miðum við bara við að hún verði svipuð og Sunna þegar hún fæddist, hún var rétt rúmar 11 merkur. Samt eigum við að mæta aftur í tékk eftir rúma viku því hún er undir meðallagi... og við bara hlýðum :o)

Þannig að það er barasta allt gott að frétta af Hjallabrautinni. Næst á dagskrá er afmælið hennar Sunnu. Ákváðum að halda uppá það áður en fjölskyldan verður einum fleiri. Sunna er ekki að ná þessu afmælisdæmi... Þegar maður spyr hana hvað hún sé gömul segir hún:,,Víðivellir". Svo þýðir ekkert að fá Bjart til að hjálpa við að kenna henni því honum finnst að hún eigi bara að vera eins árs! Og hana nú! Þessi ákveðni í liðinu er öll frá pabbanum....

Sjáumst flest á miðvikudaginn ;o)

25.9.08

Máni-fáni

Máni frændi var í mat á Hjallabrautinni. Krakkarnir báðir nokkuð spenntir að fá Mána í heimsókn... Sunna var sett í bað fyrir matinn og tók það sinn tíma að þvo hárið og svona... Þegar þær mæðgur opnuðu svo baðherbergisdyrnar var Máni það fyrsta sem Sunna sá. Hún varð mikið glöð og sagði:,,Íslenda fáninn er ennþá í heimsókn!"
Máni... Fáni... þetta hljómar alveg eins;o)

Krakkabragð

Bjartur og mamma voru í búðinni að versla íþróttanammi. Þegar þau komu á kassa var samt svoldið freystandi að kaupa alvöru nammi.... Endaði málið á því að Bjartur fékk Extra krakkatyggjó. Hann hefur aldrei smakkað svoleiðis áður og skildi ekki alveg hvernig þetta "krakkatyggjó" var.
Mamma:,,Þetta er svona fyrir krakka..."
Bjartur:,,Er þá nammi inní því?"
Mamma:,,Nei, þetta er tyggjó fyrir krakka"
Bjartur:,,Þá er það nammi."
Mamma:,,Nei þetta er svona tyggjó með krakkabragði"
Bjartur virtist nokkuð sáttur... þar til komið var heim. Þá sagði hann:,,Mamma. Ef ég borða þetta tyggjóóó... veit ég þá hvernig bragð er af mér?"

22.9.08

Litlu krílin

Sunna hefur nú aldrei þótt stór þótt hún sé með stórt skap... Þessvegna fer hún reglulega í aukavigtun og mælingar á Heilsugæsluna og vorum við í einni slíkri heimsókn nýlega. Stelpan heldur bara sínu striki og stækkar alveg á sínum hraða, spyr hvorki kóng né prest að því hvernig á að gera þetta;o) Hún er hinsvegar langt á undan jafnöldrum í málþroska (og vitsmunaþroska, vilja foreldrarnir meina).
Þegar barnalæknirinn skoðaði og hlustaði hana heyrði hann eitthvað aukahljóð í hjartanu.Sunna sat hljóð og stillt en læknirinn hefur hingað til ekki fengið að snerta hana án þess að skerandi öskur komi frá þessum litla kroppi þannig að það er ekki furða að þetta hefur ekki heyrst fyrr en nú. Svo nú erum við á leiðinni í hjartaómskoðun með litlu dömuna og glöggir lesendur muna kannski eftir því að einkasonurinn hefur verið í samskonar eftirliti og mun verða það eitthvað áfram. Vonandi að Sunnu hljóð sé jafn "saklaust" og hjá Bjarti.

Hin litla daman, sem er nú ekki enn komin í heiminn, á að fara í aukavaxtarmælingu líka. Ljósmæðrum finnst mamman með litla kúlu svona miðað við meðgöngulengd. Svo sagan endurtekur sig- þegar Sunna var í bumbunni var líka farið í vaxtarsónar.... Það eru ekki stórar konur í þessari fjölskyldu... hæðarlega séð;o)

7.9.08

Í berjamó á Seyðis

Við systkinin fórum til Seyðisfjarðar með pabba að hitta Helguömmu og alla sem eru fyrir austan. Mamma keyrði okkur út á flugvöll á fimmtudaginn og var svo ein heima að hvíla sig með litlu stelpuna í maganum. Bjartur var nú ekki alveg á því að vera mömmulaus yfir helgina en hugsaði líka að það væri gaman að hitta hana aftur á sunnudaginn. Flugferðin gekk bara nokkuð vel og Bragi & Helgamma sóttu okkur uppá Egilsstaði. Við kíktum í heimsókn til Dags og hittum Sól og lékum góða stund á trampólíninu áður en við héldum niðrá Seyðisfjörð. Sunna svaf sínu værasta á leiðinni enda ekki búin að sofa neitt allan daginn fyrir utan smá lúr rétt áður en við lentum. Alltaf gaman að komast á Múlaveginn og leika í öllu dótinu =)

Á föstudeginum fórum við í heimsókn á leikskólann á Seyðisfirði og Bjartur fór beint að leika við Ara Björn út um allan skólann. Síðan var farið heim og Sunna lagði sig yfir skrípó. Helgamma tók fram Radio Flyer kerruna og í honum fórum við saman í apótekið þar sem hún vinnur. Þar fengum við endurskynsmerki á töskurnar sem hún var búin að gefa okkur. Sunna fékk líka spennur og teygjur, en þurfti nú að halda aðeins aftur af sér því hana langaði í allt dótið sem til var í hárið =) Við héldum svo förinni áfram og fórum í búð og komum svo við á nýja stóra leikvellinum á bakvið sundlaugina og vorum þar drykklanga stund og heldum svo heim á Múlaveginn.

Laugardaginn voru allir komnir snemma á fætur að vanda og allir komnir í föt og tilbúin í verk dagsins snemma morguns. Við heimsóttum Ara Björn og fjölskyldu um morguninn og fengum hádegismat hjá þeim. Bjartur og Ari Björn duttu alveg í leik gírinn eins og á leikskólanum daginn áður. Síðan var farið út og leikið í garðinum að baka drullumall í vatni í hjólbörunum og rólað. Síðan fékk litla prinsessan loksins að fara heim og leggja sig aðeins. Á meðan fór Bjartur, pabbi, Helgamma, Dagur og Sól uppí Sesselíulund og tóku nokkrar myndir. Þegar við komum heim vaknaði Sunna um leið og þá var haldið í berjamó undir Hátúni. Borgarstelpan hún Sunna var nú ekkert alveg á því að sitja í grasinu og tína uppí sig. Pabbi reyndi að gefa henni bláber en þau fengu að fljúga út aftur um leið og fengu auk þess heitið drasl. En krækiberin datt hún í og var hin sáttasta. Svo þegar allt fór að verða tómt í kringum hana var hún færð til um nokkra sentimetra þar sem allt var krökkt af berjum og þá sat hún sínu fastasta og hámaði. Bjartur hoppaði og skoppaði út um allt, alveg þangað til hann datt með fæturna tvisvar ofan í læk, þá var gamanið búið hjá honum. Eftir berjamó var dýrindis læri á boðstólum og gengu allir sáttir frá þeirri máltíð.

Sunnudagurinn var tekinn í ró á Múlaveginum fram eftir morgni. Fórum aftur á leikvöllinn og hittum Ara Björn og Huga Rafn sem voru að viðra pabba sinn. Vorum þar heillengi þ.s. Sunna fékk endalaust magn af súkkulaði frá Helgömmu og kom það í stað hádegisverðar hjá prinsessunni. Síðan keyrði Helgamma okkur uppá Egilsstaði þ.s. við fórum í lummur til Dags & Ingu. Þar æddum við fram og aftur um garðinn í dýrindis veðri og borðuðum öll ber og grænmeti sem við komumst yfir og var af nógu af taka hjá þeim. Pabbi var afskaplega hrifin af sólberjunum sem við fengum hjá þeim á Sólvöllunum og haft var orð á því að svona góð sólber hefði enginn fengið hér á landi áður. Þegar vel hafði verið hoppað á trampólíninu kvöddum Sól og foreldra og keyrðum á flugvöllinn. Þegar kom að því að kveðja Helgömmu var Bjartur alveg miður sín og litla hjartað brast, en hann herti sig upp og reyndi að gleyma sorginni og kvöddum við Helgu og þökkuðum fyrir yndislega helgi.

Þegar heim var komið vorum við afskaplega glöð að sjá mömmuna okkar aftur og hún líka að sjá okkur og knúsa =)