Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

7.8.06

Bjartur leikskólastrákur

Á morgun fer ég í heimsókn á leikskólann minn. Við erum öll svo spennt: Pabbi ætlar að koma úr vinnunni og skoða pleisið með mér og mömmu. Við mamma erum aðeins búin að fara og skoða leikskólann að utan og horfa á krakkana leika í garðinum. Ég er orðinn svaka spenntur og finnst ég vera svo stór strákur.

Við fjölskyldan fórum nú ekki í útilegu um helgina... Á föstudaginn fórum við til Lilju og Tóta og grilluðum með þeim. Pabbi og Tóti og fleiri karlar fóru svo að spila hátt í bílskúrnum hans Tóta. Ég var svoldið smeykur við öll lætin en mér finnst pabbi minn alveg flottastur á bassanum.
Á laugardaginn fórum við í Húsasmiðjuna að kaupa málningu fyrir baðið okkar, það var kominn tími á að mála það (segir mamma). En við nenntum nú ekki að hanga yfir því allan daginn og fórum í sund.
Sunnudagurinn fór í að leika, leika og leika. Ég er alveg ótrúlega góður í að leika mér- gleymi mér með sjóræningjana mína, gröfuna og vörubílinn og alla kubbakallana (sem eru allir afar og heita allir Böddi).

Í dag fórum við pabbi svo í fjöruferð að kasta steinum í sjóinn og skoða krabba (mömmukrabba, pabbakrabba, ömmukrabba, afakrabba og meira að segja litlabarnakrabba!) á meðan mamma var heima með bumbuna að hvíla sig. Ég er voða upptekinn að mamma hugsi vel um litla barnið. Hún má til dæmis ekki láta neitt rekast í bumbuna (eins og haldfangið á vagninum þegar hún er að rugga mér) þá segi ég: ,,Mamma, passaðu litla barnið!" Svo lána ég því reglulega dudduna mína og koddann með því að setja dudduna í naflann og koddann vel yfir. Er ég ekki góður? Svo þegar litla barnið kemur út úr bumbunni ætla ég að kaupa alveg nýja og litla duddu handa því.

Jæja, ég læt ykkur vita hvernig leikskólaheimsóknin fer...
-Bjartur

Engin ummæli: