Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

25.2.09

Öskudagur

Það var spennandi að vakna í morgun og fara í leikskólann. Bjartur var ekki alveg búinn að ákveða sig með búning og vildi helst blanda öllu saman. Fyrir valinu varð svo Incredible búningur sem hann fékk að láni hjá Emil Gauta. Sunna fór sem Minna mús. Flottust.
Strákurinn okkar er orðinn svo stór og mikill munur frá því á öskudeginum í fyrra. Þá vildi hann (og fékk) að vera Gríslingur. Núna var það: Batman, Súperman, úlfur eða Íþróttaálfurinn. Ekki eins krúttulegt og í fyrra ;o) En Sunna sá um krúttulegheitin fyrir allan bæinn held ég! Hún er þvílík dúlla sem Minna mús! Næstum æt hún er svo sæt.

19.2.09

Allt sem er rautt, rautt finnst mér vera fallegt...

Pabbinn sótti stóru krakkana snemma í leikskólann í gær því Hallur afi var búinn að bjóða þeim að koma og skoða leikmyndina af Kardemommubænum í Þjóðleikhúsinu. Þetta var skemmtileg upplifun. Að fá að standa á sviðinu og labba um og skoða allt saman! Og Hallur afi setti sviðið af stað og þá fannst Sunnu hún vera að detta og riðaði til, þó hún stæði ekki einu sinni á snúningssviðinu hehe. Á morgun förum við svo öll að sjá Kardemommubæinn...nema Dagný. Amma og afi ætla að passa hana á meðan.

Splæst var í nýja úlpu á Bjart um daginn. Mamman fór í bæinn og keypti bláa úlpu á drenginn sinn. Þegar hún kom heim vildi hann ekkert bláa úlpu, heldur rauða! Uppáhaldsliturinn er sko rauður ef það hefur farið framhjá einhverjum... Þannig að úlpunni var skipt og litli maðurinn frekar sáttur! Svo seinna getur Sunna tekið við úlpunni og jafnvel Dagný líka (bjartsýn?). Fyndnast var þó hversu hissa afgreiðsludömurnar voru:,,Vildi hann frekar rauða??" Eins og það væri alveg bannað...Maður er sko ekki Haukamaður fyrir ekki neitt ;o)

Um helgina er Bjarti boðið að fara á rúntinn með Valgeiri og Þyrí. Þau ætla að gefa kannski öndunum brauð ef veðrið verður gott. Litli ástarpungurinn tók andköf af gleði þegar honum var sagt að hann myndi hitta Þyrí. Þvílíkt krútt.
Svo ætlum við að fara í afmæli til Emils Gauta, vinar okkar, í Bjarkarhúsið. Það verður sko stuð. Alltaf nóg að bralla á Hjallabrautinni...

Sjáumst!
Bjartur púlli - Sunna sæta - Dagný dúlla.

15.2.09

Dagný hló í gær

og það var stórkostlegt! Allt í einu varð lífið 100 sinnum betra. Mamman var að syngja fyrir hana og dansa og hún hló! Hún er allt í einu svo stór, farin að hlæja svona upphátt. Svo mikil manneskja eitthvað. Henni finnst eitthvað vera fyndið! Magnað alveg. Þetta er með því sætasta sem maður hefur heyrt.

11.2.09

Love is in the air...

Bjartur er ástfanginn. Hann elskar þrjár. Tvær leikskóladömur sem eru með honum á deild og svo Þyrí, kærustuna hans Valgeirs. Þau turtildúfurnar pössuðu Bjart og Sunnu í gærkvöldi meðan mamman og Dagný fóru í kellingaheimsókn og pabbi fór að hnykkla vöðvana.
Um leið og þau komu bað Bjartur um hjálp við að skrifa: "Ég er skotinn í þér" á blað til þess að gefa Þyrí. Svo héldu ástarjátningarnar áfram fram eftir kvöldi. Hann bað hana meira að segja að skrifa á blað að hún ætli að koma í heimsókn eftir nokkra daga! Einn að tryggja sig hehe.... eins gott að hafa þetta skriflegt sko! Já hann er sko með stjörnur í augunum yfir henni- enda yndisleg stelpa. Hún er líka heilluð af honum og ekki amalegt að fá svona flottar barnapíur...Valgeir var samt feginn að enginn kúkaði hahahahaha...Ekki alveg hans deild.

Dagný er 4 mánaða í dag. Hún fékk graut í fyrsta skipti í gærkvöldi. Stúlkan var alveg æst bara í grautinn! Það fengu allir að halda í skeiðina og troða uppí hana ;O) Þvílík spenna. Pabbinn stóð sig líka eins og hetja með myndavélina þannig að von bráðar fá allir að sjá það þegar Dagný fékk graut. Hún var líka sú ánægðasta- með alla þessa athygli og gleypti við grautnum. Leikurinn verður endurtekinn í kvöld og gaman að sjá hversu lengi þetta verður svona spennandi í augum systkinanna....

5.2.09

Sunna þarf ekki brillur!

Og það þarf ekki að fylgjast neitt sérstaklega með henni. Stúlkan stóð sig eins og sönn dama og læknirinn svona glimrandi ánægður með hana. Hún gerði allt sem hún átti að gera og alveg yndislegt að fylgjast með henni. Litla ráðskonan. Það var alveg eins og hún hefði mætt þarna áður og gert þetta allt saman mörgum sinnum. Þannig er hún alltaf: Hún sko Á pleisið! Læknirinn sagðist yfirleitt þurfa að slást við krakka á þessum aldri hehehe. En hann tæklaði þetta alveg frábærlega enda þaulvanur.
Meðan við biðum eftir að fá seinni dropana í augun skoðuðum við aðeins gleraugu á svona litla krakka. Henni finnst þetta náttúrulega svakalegt sport því Bjartur notar gleraugu. O my god! Hún er nú þvílíkt krútt með svona lítil og sæt krakkagleraugu... en þau héldust samt varla á trýninu á henni þrátt fyrir krækjur bak við eyru og aukanefpúða.

Dagný er enn að berjast við kvefið og smá hitavella í henni. Ætli við förum ekki með hana til læknis á morgun ef hún lagast ekki... Maður er samt orðinn svo sjóaður í þessu- þykjumst alveg vita hvaða svör við fáum: Hitinn er ekki hár....Hún er að drekka vel.... Tvö leikskólabörn á heimilinu....Við erum ekkert að stressa okkur enda skítakuldi úti. Svo leiðinlegur þessi árstími!! En hún er alltaf jafn yndisleg- aldrei lætin í þessu barni þó hún sé slöpp.

Þannig voru fréttir dagsins!
Yfir og út

2.2.09

Litli Glámur

Þá er einkasonurinn kominn með ný gler. Hann fékk þau núna seinnipartinn og er búinn að vera með nefið í öllu síðan. Byrjaði strax í gleraugnabúðinni að grandskoða og útskýra mynstur og svona fyrir mömmunni og afgreiðslukonunni. Mamman hló að honum en afgreiðsludaman hálfvorkenndi honum. Greyið- loksins sá hann almennilega. Ekki nóg með að gömlu glerin voru orðin svo rispuð þá voru þau heilum einum of dauf fyrir hann. Núna er hann sko flottastur, annað augað aðeins stærra bakvið glerið en hitt.
Sunna er ekki enn farin til augnlæknisins. Við förum í það ævintýri á fimmtudaginn. Smá stress í gangi varðandi það... Við vorum svo viss um að Bjartur þyrfti ekki gleraugu. Fórum eiginlega bara með hann til augnlæknis uppá grínið. Af því að hann skáskaut augunum í 3oghálfs árs skoðun. Þannig að í þetta skiptið búum við okkur undir að litla trýnið þurfi kannski bara gleraugu... vonandi ekki samt. Kannski hégómalegt að segja svona og margt verra en að þurfta gleraugu, en þetta er samt smá mál fyrir svona litla krakka.

Loginn setti inn nýjar myndir. Í nýtt albúm merkt 2009 hér til hliðar. Endilega tékkið á þeim. Makalaust hvað þau stækka hratt!