Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

25.5.05

Afmæli og sumarfrí

Þá er ég búinn að bjóða fólki í fyrsta afmælið mitt! Svo líður bara vika og þá á ég annað afmæli, hehe. Heppinn ég! Ætli ég verði nokkuð búinn að læra að ganga fyrir afmælið- hugsa ekki. Ég þarf alltaf að vera að flýta mér svo mikið að bumban fer alltaf á undan öllu hinu og þá missi ég jafnvægið og dett. Það finnst mér voða fyndið og skemmtilegt að ég held bara áfram að gera þetta svona... Svo bólar nú ekkert á öðrum tönnum... Reyndar sést móta fyrir einni efri tönn en ég er að spara þær og tími ekki að poppa þeim út strax.
Bráðum fer pabbi í sumarfrí í vinnunni og þá brunum við til Seyðis því ég á svo flottan pabba sem er í hljómsveit sem heitir Kóngulóarbandið og hann er að fara að spila á tónleikum með vinum sínum á Eskifirði. Vonandi fæ ég að sjá hann spila aðeins að deginum til- en svo fer ég í pössun til Helgömmu því mamma vill líka horfa á pabba spila um kvöldið. Þegar við erum búin að vera á Seyðis í nokkra daga (vonandi sem lengst fyrir mig og Helgömmu) förum við aftur heim og fögnum 17. júní og brunum svo í bústað með afa og ömmu, Balla og Valgeiri. Svo eigum við von á fullt af gestum í bústaðinn: Frænkur mínar Matthildur og Anna eru búnar að lofa að koma;o) og vonandi kíkja líka Gústaf Bjarni og Emil Gauti á mig og Baldvin Hrafn og Þorbergur Níels- það er nú ekki langt að keyra þetta;o) segir mamma.
Jæja, það eru komnar nýjar Hvítasunnumyndir í albúmið mitt- það er aldeilis að fólkið tók við sér með myndavélina!

18.5.05

Héddna

Hringdi í pabba í vinnuna í gær( reyndar gerði mamma það fyrir mig ) og var að segja hérna við hann. Mömmu fannst þetta þvílíkt sniðugt að hún lét mig hringja. Pabba fannst þetta líka rosa gaman að heyra hvernig ég sagði "hé'na" aftur og aftur. Gerði þeim meira að segja til geðs að segja það mismunandi skýrt og þeim fannst þetta endlaust gaman. Stórmerkilegt fólk, finnst ekkert smá merkilegt að ég segi eitt orð aftur og aftur( sem þau tönglast á sjálf ), þetta er nú bara heilaþvottur =) Læknisskoðun í dag, ma&pa voru reyndar búin að gleyma því þannig að kanski förum við mamma bara ein í þessa skoðun því pabbi er í vinnunni og skoðunin er klukkan tvö. Nú er eins gott að ég sé búinn að bæta aðeins á mig eftir veikindin um daginn =)

11.5.05

Nýjar fréttir...

Jæja, halló!
Ætli maður verði ekki að standa sig í þessum skrifum hérna... Það er svo margt í fréttum að ég veit bara varla hvar á að byrja.... Helgamma kom að heimsækja mig í nokkra daga um daginn- nema ég var ekki skemmtilegri en svo að ég varð veikur um leið og hún kom. Mamma og pabbi héldu að þriðja tönnin væri að fara að koma en ég var bara að plata þau:o) Það fylgdi engin tönn þessum hita og enginn skilur neitt í mér....
Mamma mín átti afmæli um daginn. Ég fékk ekki að vera með í partýinu- var bara settur í pössun til ömmu og afa. Það fannst mér ekki leiðinlegt. Ég er svo spenntur þegar ég er í pössun hjá þeim að ég vakna fyrir allar aldir (6:15, ehemm). Pabbi sótti mig svo snemma á sunnudagsmorgun og við fórum í bakarí því Óðinn Bragi vinur minn var að fara að koma í heimsókn. Það var rosalega gaman að hitta hann og ég sýndi honum allt sem hægt er að fikta í heima hjá mér. Pabbi tók myndir af okkur prakkarast og það fannst okkur gaman (myndirnar koma fljótlega fyrir myndaóða).
Á mánudaginn átti mamma alvöruafmæli og þá var haldin grillveisla sem ég fékk að vera með í. Amma, afi, Balli, Valgeir, Lilja og Svala komu. Það er líka gaman þegar Svala kemur í heimsókn- hún nennir að leika svoldið við mig og passa mig. Annars þarf voða lítið að passa mig núna- finnst mér allavega. Ég er ofursjálfstæður þessa dagana og vil helst bara vera í friði að skoða mig um og leika og svoleiðis. Svo er ég byrjaður að æfa mig að ganga og er voða montinn þegar mamma eða pabbi leiða mig bara með annarri hendi! Svo kann ég að standa sjálfur í nokkrar sekúndur- ég er alveg hissa á því! Held að ég sé bara alveg að fara framúr mér í þroska núna- ég er svo hissa þegar ég get eitthvað svona fullorðinslegt! Ég tók meira að segja tvö skref til mömmu áðan án þess að ætla það! Allir urðu voða hissa á mér og ekki síst ég sjálfur. Þetta átti ég auðvitað að gera svo strax aftur en ég held ég bíði með það í nokkra daga.... þetta er svo stórt stökk...

2.5.05

Eftirherma

Pabbi var að horfa á box í sjónvarpinu um daginn og þá rétti sigurvegarinn upp höndina...það gerði ég þá um leið líka =)