Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

28.8.06

Litli trommarinn

Jæja þá er helgarfríið búið. Þetta var ágætishelgi, eins og pabbi segir alltaf. Mamma og pabbi komu bæði að sækja mig á föstudaginn. Mér finnst æðislega gaman þegar þau koma bæði að sækja mig. Þau voru með góðar fréttir af litla barninu í bumbunni okkar - reyndar var ég voða lítið stressaður: Lítið barn=lítil bumba, ekki satt?

Á laugardaginn fórum við í sund og ég eeeeelska að fara í sund. Svo áttum við góðan dag heima, lúlluðum saman og borðuðum góðan kvöldmat og lékum okkur. Pabbi er búinn að búa til trommukjuða fyrir mig og nú er ég alltaf að tromma, nágrönnum til mikillar ánægju ;o) Ég bið svo pabba reglulega um að koma inn í herbergið mitt með bassann, hann á að spila og ég tromma og mamma á að sitja á stól og hlusta með aðdáun og putta í öðru eyranu (því það eru svolítil læti í okkur en hún verður samt að heyra smá). Þegar ég er búinn að stilla öllum upp sest ég með kjuðana og finnst ég flottastur í heimi. Þegar mamma og pabbi nenna ekki að spila með mér vil ég hafa prumpulagið á og tromma í takt við það. Efnilegur!!

Í gær fengum við svo góða gesti: Palla, Erlu, Óðinn Braga og Skottu, litlu systur hans og svo komu Harpa og Guðjón líka. Það var heljarinnar pizzuveisla og eplakaka og ís í eftirrétt. Við Óðinn lékum okkur mikið og pabbi bjó til aðra trommukjuða svo við gætum báðir trommað. Svo var mest gaman að hlaupa hringinn- úr eldhúsi í stofu og syngja hástöfum: ,,rassgat í bala!" Mamma og pabbi voru nú mest hissa á hvar ég lærði svona lag (vonandi ekki á leikskólanum) og spurðu mig:,, hver kenndi þér?" ,,Emil Gauti." sagði ég þá og þá hló mamma mikið. Ég skil ekki alveg afhverju...

Jæja félagar. Sé ykkur seinna
Ykkar Bjaaaatttur (ekki lengur Dattur)

Engin ummæli: