Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

17.9.06

Skírnin hennar Ásthildar Elvu

Helgamma er búin að vera í heimsókn hjá mér síðan í seinustu viku. Það er rosalega gaman að hafa hana sofandi hérna heima hjá mér. Þegar ég vakna á morgnanna og mamma og pabbi nenna ekki á fætur þá get ég alltaf dregið hana á lappir og fengið hana til að gera allt sem mig langar. Í morgun fékk ég til dæmis ÍS í MORGUNMAT og það er sko bara Helgamma sem hefur leyfi til að stjana svoleiðis við mig ;) enda er ég alveg hættur að reyna eitthvað svoleiðis við foreldra mína, það er ekki jafn einfalt að stjórna þeim.

Í dag fór ég í skírn til Ásthildar Elvu heima hjá Möllu. Þar var Gutti auðvitað þegar ég kom og ég þurfti að klappa honum svolítið, "hann er svo mjúkur" :) Húsið var fullt af fólki, presturinn kom og skýrði Ásthildi Elfu og við fengum rooosalega gott að borða. Ég fór að leika mér með mótorhjólið og kallinn inní herbergi hjá Hörpu. Á einhverjum tímapunkti gleymdi ég mér og "kúkaði í bleyjuna". Pabbi byrjaði að taka bleyjuna og þá kom í ljós að það þurfti nú að skella mér í sturtu. Pabbi var að reyna að skamma rassinn minn fyrir að hafa kúkað í bleyjuna og segja honum að kúka í koppinn, en ég var nú ekki sammála: "Kúka í bleyjuna, VEIIIiiii". Ég og pabbi týndum okkur nokkur rifsber í nesti í bílinn og þar sat ég og hámaði í mig berin, buxnalaus í sokkum, skóm og úlpu :)

2.9.06

Stafurinn hans Bjarts

Fjölskyldan fór á rúntinn einn sunnudaginn. Bjartur var í svaka góðu skapi og samkjaftaði ekki. Alltaf þegar hann sá stafinn sinn hrópaði hann: Þarna er stafurinn hans Bjarts! Hann heitir bé! Svona gekk þetta framhjá Bónus, BYKO og fleiri fyrirtækjum.... alla leið inní Reykjavík.
Hjá einhverri bílabúðinni segir Bjartur: Þarna er stafurinn hans Bjarts! BÉ!
Þá segir mamma: Þú ert alveg í essinu þínu bara!
Bjartur: Nei, ég á BÉ!!
Það er ekki að spyrja að gáfunum;o)

Bjartur er með ýmislegt í maganum...

Bjartur er svo spenntur fyrir litla barninu og tileinkar sér allt sem því tilheyrir. Á morgnana segir hann alltaf:,,Góðan daginn litla barn. Eigum við að koma fram og fá okkur cheerios?" Voða sætur með rödd sem maður notar til að tala við lítil börn.
Um daginn vorum við svo komin fram og byrjuð að borða og þá segir minn:,,Mamma! Finnurðu??" Tekur í hendurnar á mömmu og setur þær á magann sinn- alveg eins og gert er við hann þegar hann á að finna spörk.... ,,Finnurðu?!"
Mamma: ,,Já, vá..." (skilur ekki alveg hvað á að finna).
Bjartur: ,, Mamma finnurðu cheeriosið?"

Bjartur: ,,Þegar Bjartur var litla barn var hann með engar tennur."
Mamma:,,Nei."
Bjartur: ,,Nei, þær voru í maganum á honum. En núna er Bjartur með maaaaargar tennur!"