Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

25.11.09

Mikið að gera

Nú strax fyrsta í aðventu byrjar fjörið og hættir ekki fyrr en á nýju ári barasta! Það er engin smá dagskrá framundan hjá fjölskyldunni.... varla tími til að skreyta í rólegheitum en við ætlum nú að setja okkur það markmið að reyna að anda rólega fram að jólum.

Næsta laugardag syngur Bjartur ásamt álfunum á Víðivöllum niðrá smábátahöfn þegar kveikt verður á jólatrénu.
Svo daginn eftir förum við Bjartur með Lilju og Svölu að sjá Söngvaseið. Ekki nóg með það... þá er Hallur afi er búinn að gefa okkur miða á 3 sýningar í leikhúsið! Við förum að sjá Sindra silfurfisk, Maríuhænuna og Leitin að jólunum. Geri aðrir betur hehehe.

Einhvers staðar á milli leiksýninga á að baka, skreyta, pakka inn gjöfum, fara í jólamat, á jólatónleika, fara í jólaþorpið, hitta góða vini, skrifa jólakort, pabbinn að spila og mamman að túttast með vinkonum, kaupa jólatré snemma því strax eftir jólin heldur fjörið áfram á Seyðis! Þar verða önnur jól því það á ekki að senda neina pakka á milli með pósti... bara afhenda þá í eigin persónu. Svo er brúðkaup og áramót!!!

Það verður forvitnilegt að vita hvort þetta standist allt saman ;0) Læt ykkur vita hvernig gengur hehehehe...

24.11.09

Lykt af snjókomu

"Pabbi, finnurðu lyktina af snjónum, það mun koma snjór í dag." sagði Bjartur í morgun á leiðinni í leikskólann. Hann var alveg klár á því að "lyktin" af kuldanum þýddi að það myndi snjóa í dag.

17.11.09

Langt prump?

Þeir sem þekkja Bjart vita að hann getur verið svoldið lengi að hlutunum.... Okkar maður var að fara að sofa og tók sinn tíma í að leggjast á koddann....
Mamma:,,Leggstu niður svo ég geti breitt yfir þig Herra Lengi."
Bjartur:,,Af hverju Herra Lengi?" (kom alveg af fjöllum sko).
M:,,Bara... af því þú ert svo lengi að öllu".
B:,,Nei! Ég er ekki lengi að prumpa!"
Hahahahaha....

12.11.09

Og veikindin halda áfram....

Já, við vissum það svo sem. Biðum bara eftir að næsti grís veiktist og sá grís er Sunna. Þetta er nú ekkert alvarlegt. Smá hiti og killer lykt útúr henni. Sem segir manni að hún sé með hálsbólgu. Dagný er alsæl með að hafa hana heima, loksins einhver annar en mamma til að leika við á daginn.
Verst er að Sunna er búin að vera í smá fitun. Fær sérmeðferð á leikskólanum: Smjörva í stað Létt og laggotts, nýmjólk í stað léttmjólkur...bara nákvæmlega sama og hér heima. Hún var orðin svo fín stelpan en nú fer eitthvað lítið fyrir matarlyst. En gott að hafa forða... þetta eru nú meiri áhyggjurnar! Það er gott að maður er bara með áhyggjur af smámunum- ég segi ekki annað. Hún er bara svo mikil písl.
Maður gerir ekki annað en að bjóða henni hitt og þetta. En hún vill sem minnst borða og biður svo um mömmuknús.

Annars vex spennan fyrir jólunum og aðallega Bjartur aðeins farinn að pæla í gjöfum og svona. Farinn að rukka um jólaljós og skraut. Það kemur víst að þessu öllu saman áður en maður veit af!

9.11.09

Áframhaldandi veikindi

Dagný tók við veikindunum af Bjarti... varð bara miklu veikari. Var með 40 stiga hita í þrjá daga. Svo alltíeinu jafnaði hún sig og er aftur orðin hún sjálf. Brosandi og skemmtileg.
Mamman á bænum tók svo við. En bara í 2 daga. Með eyrnabólgu eins og krakkaskítur og hálsbólgu dauðans! Sem betur fer er hún þó að skríða saman núna enda enginn tími fyrir svona vitleysu. Alltaf nóg að gera hér á bæ.
Sunna og pabbinn eru þó eftir í þessari veikindahrinu en vonandi sleppa þau. Mímir (jurtate úr jurtaapótekinu) er orðinn besti vinur okkar hérna og heldur í okkur lífinu.

Í gær var víst feðradagurinn. Hann fór nokkurnveginn framhjá okkur í þessum veikindum. Við náðum þó að elda góðan mat og hafa sjeik í eftirrétt. Krakkarnir þurftu bæði að hringja svo í afa og bjóða honum í morgunmat á leikskólann í tilefni af feðradeginum. Og samt var búið að nefna það nokkrum sinnum við hann áður sko... Ef hann hefði svo endað á að klikka á að mæta hefðum við haldið að það væri bara eitthvað að hausnum hans! hehehehe Nei, nei hann mætti sko hress hingað í morgun og labbaði með liðinu útá leikskóla (pabba var auðvitað líka boðið í morgunmatinn). Dagný og mamman vinkuðu af svölunum eins og vanalega. Það kemur að okkur seinna þegar mæðradagurinn er. Þá er okkur boðið í morgunmat ásamt ömmu.