Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

28.8.06

Litli trommarinn

Jæja þá er helgarfríið búið. Þetta var ágætishelgi, eins og pabbi segir alltaf. Mamma og pabbi komu bæði að sækja mig á föstudaginn. Mér finnst æðislega gaman þegar þau koma bæði að sækja mig. Þau voru með góðar fréttir af litla barninu í bumbunni okkar - reyndar var ég voða lítið stressaður: Lítið barn=lítil bumba, ekki satt?

Á laugardaginn fórum við í sund og ég eeeeelska að fara í sund. Svo áttum við góðan dag heima, lúlluðum saman og borðuðum góðan kvöldmat og lékum okkur. Pabbi er búinn að búa til trommukjuða fyrir mig og nú er ég alltaf að tromma, nágrönnum til mikillar ánægju ;o) Ég bið svo pabba reglulega um að koma inn í herbergið mitt með bassann, hann á að spila og ég tromma og mamma á að sitja á stól og hlusta með aðdáun og putta í öðru eyranu (því það eru svolítil læti í okkur en hún verður samt að heyra smá). Þegar ég er búinn að stilla öllum upp sest ég með kjuðana og finnst ég flottastur í heimi. Þegar mamma og pabbi nenna ekki að spila með mér vil ég hafa prumpulagið á og tromma í takt við það. Efnilegur!!

Í gær fengum við svo góða gesti: Palla, Erlu, Óðinn Braga og Skottu, litlu systur hans og svo komu Harpa og Guðjón líka. Það var heljarinnar pizzuveisla og eplakaka og ís í eftirrétt. Við Óðinn lékum okkur mikið og pabbi bjó til aðra trommukjuða svo við gætum báðir trommað. Svo var mest gaman að hlaupa hringinn- úr eldhúsi í stofu og syngja hástöfum: ,,rassgat í bala!" Mamma og pabbi voru nú mest hissa á hvar ég lærði svona lag (vonandi ekki á leikskólanum) og spurðu mig:,, hver kenndi þér?" ,,Emil Gauti." sagði ég þá og þá hló mamma mikið. Ég skil ekki alveg afhverju...

Jæja félagar. Sé ykkur seinna
Ykkar Bjaaaatttur (ekki lengur Dattur)

11.8.06

Leikskólastrumpur

Já það gengur svona glimrandi vel á leikskólanum!
Ég er alveg að fíla þetta- leika úti með krökkunum og með allt nýja og spennandi dótið inni. Svo er Sigga svo góð við mig að þetta er bara ekkert mál! Mamma fær samt svoldinn sting í hjartað yfir þessu öllu saman- segir að ég sé orðinn fullorðinn...
Í dag sótti mamma mig eftir hádegismat og spurði mig hvað ég hafði gert á leikskólanum í dag:

Ég:,,Ég mokaði í þandkaþþanum. Ég gerrri köku. Það var sykur."
Mamma: ,,Vá varstu svona duglegur? Hvað gerðirðu meira?"
Ég: ,,Ramba með Þobbeggi. Við þyngja Kalli litli kóngulÓ og Nói kann ekki keyra bíl."

Þið sjáið að maður er orðinn ansi mannalegur..

Amma mín á afmæli í dag. Til hamingju með afmælið eeeelsku amma mín. Ég er búinn að kaupa flotta gjöf í Samkaup hehehe. Fékk að ráða sjálfur. Það er samt ekki grafa eða eitthvað svoleiðis (þó að mér finnist það vera það flottasta sem hægt er að fá). Ég fatta það alveg að ömmur leika sér voða sjaldan að gröfum- þær drekka bara voða mikið kaffi ;o)
Ég er sko boðinn í afmælismat í kvöld og mér finnst ég svo merkilegur að það kemur ekkert annað til greina en að ég eigi þetta afmæli með ömmu...
Á morgun á svo Malla ömmusyss líka afmæli! Til hamingju með það fyrirfram ;o) Mér finnst hún flott- hún á hund! Hún og Harpa frænka heimsóttu mig í gær og þegar þær fóru tók ég fram skóna mína og ætlaði sko með. ,,Ég langa ssssoh goða Gutta". En ég fékk ekki að fara að skoða Gutta- ég verð að skoða hann seinna. Hins vegar fór ég og fékk nýja leikskólaskó með blikki! OG ný leikskólastígvél (núna heitir allt leikskóla-...)

Svo er hann Óðinn Bragi vinur minn orðinn stóribróðir! Hann fékk litla systur 9. ágúst! Knús til þín Óðinn Bragi minn ;o*

Jæja, nú held ég að ég sé búinn að tjá mig nóg í bili :O)
Síjú!

7.8.06

Bjartur leikskólastrákur

Á morgun fer ég í heimsókn á leikskólann minn. Við erum öll svo spennt: Pabbi ætlar að koma úr vinnunni og skoða pleisið með mér og mömmu. Við mamma erum aðeins búin að fara og skoða leikskólann að utan og horfa á krakkana leika í garðinum. Ég er orðinn svaka spenntur og finnst ég vera svo stór strákur.

Við fjölskyldan fórum nú ekki í útilegu um helgina... Á föstudaginn fórum við til Lilju og Tóta og grilluðum með þeim. Pabbi og Tóti og fleiri karlar fóru svo að spila hátt í bílskúrnum hans Tóta. Ég var svoldið smeykur við öll lætin en mér finnst pabbi minn alveg flottastur á bassanum.
Á laugardaginn fórum við í Húsasmiðjuna að kaupa málningu fyrir baðið okkar, það var kominn tími á að mála það (segir mamma). En við nenntum nú ekki að hanga yfir því allan daginn og fórum í sund.
Sunnudagurinn fór í að leika, leika og leika. Ég er alveg ótrúlega góður í að leika mér- gleymi mér með sjóræningjana mína, gröfuna og vörubílinn og alla kubbakallana (sem eru allir afar og heita allir Böddi).

Í dag fórum við pabbi svo í fjöruferð að kasta steinum í sjóinn og skoða krabba (mömmukrabba, pabbakrabba, ömmukrabba, afakrabba og meira að segja litlabarnakrabba!) á meðan mamma var heima með bumbuna að hvíla sig. Ég er voða upptekinn að mamma hugsi vel um litla barnið. Hún má til dæmis ekki láta neitt rekast í bumbuna (eins og haldfangið á vagninum þegar hún er að rugga mér) þá segi ég: ,,Mamma, passaðu litla barnið!" Svo lána ég því reglulega dudduna mína og koddann með því að setja dudduna í naflann og koddann vel yfir. Er ég ekki góður? Svo þegar litla barnið kemur út úr bumbunni ætla ég að kaupa alveg nýja og litla duddu handa því.

Jæja, ég læt ykkur vita hvernig leikskólaheimsóknin fer...
-Bjartur

2.8.06

Bjartviðri

Þegar Bjartur horfir á veðurfréttirnar finnst honum svakalega merkilegt að kallinn segi nafnið hans...
Bjartviðri austanlands.... Bjartur:-Hann segir Bjartur!!
Þoka og súld fyrir norðan en bjartara yfir suðurlandi.... Bjartur:-Hann segir Bjartur!!