Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

22.3.07

Sunna 5 mánaða

Litli Sunnulingurinn okkar er orðinn 5 mánaða og fór í skoðun í dag. Fékk sprautu og svona... og sett í fitun. Já, þó okkur finnist hún vera orðin stór þá er hún ekki nógu stór hehe. Hún samsvarar sér alveg en er lítil. Mamma hennar er heldur ekki stór, eins og hjúkkan benti pent á ;o) Þannig að nú fær hún graut tvisvar á dag með olíu takk fyrir! og hún er bara hæstánægð með það. Þetta er nú alveg sama sagan og með Bjart bróðir hennar...Við bara eignumst ekki stór börn- eða einhverja hlunka. Bjartur var reyndar alltaf langur en Sunna verður ábyggilega alltaf eins og lítil dúkka sem maður getur eeeeendalaust knúsað. Hún er fullkomin eins og hún er.

Nú eru amma og afi í útlandinu og ætla að kaupa eitthvað fyrir Bjart. Þegar hann var spurður hvað það ætti að vera sagði hann:,,ís". Einfalt.
Þannig að afi fer ekki með afastrákinn sinn í Haukahúsið á laugardaginn en það er í fínu lagi því Helgamma er að koma í heimsókn. Bjartur er sko spenntur fyrir því og hann ætlar að sýna henni Sunnu sína. Hann man ekki eftir því að hún kom þegar Sunna var skírð og mömmu fannst frekar sætt þegar hann varð spenntur fyrir komu hennar því hann vildi sýna henni Sunnu.

10.3.07

Misskilningur

Bjartur hefur verið að hlusta á geisladisk sem hann á og heitir Villikettirnir. Þar eru mörg skemmtileg lög, þar á meðal vinsælasta lagið:Við erum villikettirnir....
Í afmælinu hans Óðins Braga voru allir krakkarnir að leika villiketti og skríða á gólfinu og mjálma. Rosa fjör.
Eftir afmælið sagði Bjartur okkur frá því að villikettir mjálma ekki. Þeir syngja (því þannig er það á geisladisknum).

2.3.07

Mamma og Bjartur að spjalla

Á öskudaginn:
Mamma:,,Sástu Þorberg á leikskólanum?"
Bjartur:,,Já. Hann var langt í burtu."
Mamma:,,Hvað var hann?"
Bjartur (með svona hneykslunar-heyrðirðu ekki í mér-tón):,,Langt í burtu!"
Mamma orðar spurninguna aftur:,,hvernig BÚNING var hann í?"
Bjartur:,,Hann var latibær." (Meinar Íþróttaálfurinn).

Mamma:,,Af hverju ertu með nebba?"
Bjartur:,,Af því ég vil það".
Mamma:,,Af hverju?"
Bjartur:,,Af því þar geymi ég horið mitt... og sýg það upp."
(Jummí)

Mamma:,,Manstu hvar þú átt heima?"
Bjartur:,,Já. Hjallabraut 23. Það er langt í burtu".
Mamma:,,Nei. það er hér".
Bjartur:,,Já.. þegar ég er hjá afa og ætla að labba heim.... þáááá er það langt í burtu. Þá er betra að fara á bíl".
(klókur)

Heppin mamma!

,Þú ert mamma mín-Bína- og þú ert vinur minn..... og afa".

Bjartur að hugsa upphátt...

,,Ef það er laugardagur....þá má ekki slá köttinn úr tunnunni- baaaara þegar það er öskudagur".

Bjartur á öskudaginn

,,Við fengum að slá köttinn úr tunnunni- en það var enginn köttur! Það var popp!"

Bjartur er snöggur!

Svana Rós var að passa Bjart og Sunnu og Bjartur fékk þá popp og súkkulaði. Hann sofnaði svo yfir sjónvarpinu og gleymdi að bursta tennurnar. Þar sem hann er svona akkúrat týpa hafði hann svolitlar áhyggjur af þessu. Til að sannfæra sig og mömmu og pabba um að þetta væri allt í lagi sagði hann:,,Karíus og Baktus náðu ekkert að koma í tennurnar mínar því ég var svo rosa rosa snöggur að borða súkkulaðið!"

Kúkabað

Bjartur var í baði og þurfti að kúka. Hann var settur á klósettið og þegar hann var búinn fannst honum algjör óþarfi að skeina- því kúkurinn myndi bara bráðna í baðinu!

Stelpustrákur

Bjartur í baði: Mamma bibbinn kemst ofan í flöskuna! (okkar maður er mikið að pæla í typpinu á sér þessa dagana... og síðast þegar hann fór í bað setti hann lítinn leikfangakall í sömu plast flöskuna).
Mamma:,,Já þú verður að passa að bibbinn festist ekki eins og kallinn! Þá verðum við bara að klippa bibbann af!"
Bjartur:,,Já, þá verð ég stellllpa!"

Bjartur elskar systu

Sunna var búin að kúka uppá bak og mamma segist þurfa að taka kúkinn af þessum kúkalabba. Þá segir Bjartur að við ættum bara að henda henni í klósettið. Mamma tekur þátt í djókinu, tekur upp setuna og segir:,,Bless Sunna". Aumingja stór bróðir höndlaði þá ekki grínið og felldi krókódílatár og sagði að hann vildi alltaf eiga Sunnu.

1.3.07

Hvernig skildi Bjartur það sem mamma sagði?

Mamma var að segja Bjarti frá því að bráðum færum við öll saman í flugvélina á Seyðisfjörð á meðan hún var að klæða hann í útifötin.
Mamma:,,Bráðum æltum við að fara til Helgömmu á Seyðisfjörð. Það er langt síðan við höfum farið í heimsókn til ömmu!
Bjartur:,,Já...."
Mamma:,,Sunna ætlar að koma með. Hún hefur aldrei komið á Seyðisfjörð nema í bumbunni á mömmu."
Bjartur er eitthvað að melta þetta og er tilbúinn að fara á leikskólann. Pabbi kemur og þeir leggja af stað.
Þá segir Bjartur við pabba:,,Pabbi? Hún Sunna hefur aaaaaldrei séð Helgömmu á Seyðisfirði því augun í henni voru í bumbunni á mömmu!"