Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

25.1.05

Bjartur í sumarhúsi í afmæli

Um síðustu helgi skelltum við mamma okkur í bústað - pabbi kom svo til okkar á laugardeginum og var eina nótt. Ég var nú farinn að sakna hans voða mikið og var alveg rosalega glaður að sjá hann þegar hann kom. Lilja, Tóti og Svala eiga bústaðinn sem við fórum í og það var sko æðislegt að leika við Svölu alla helgina! Mér finnst svo gaman að fylgjast með henni því hún kann að syngja svo mörg lög og hoppar og skoppar út um allt. Lilja ömmusyss varð 32 ára á laugardaginn og þá var heldur betur gaman. Malla, hin ömmusystir mín, og Þröstur, maðurinn hennar, komu á snjósleða í afmæliskaffið. Þegar allir voru búnir að borða passaði Malla ömmusyss mig á meðan liðið fór út að prófa sleðann og láta draga sig á slöngu og prófa fjarstýrðan bensínbíl. Ég var voða stilltur og rólegur hjá henni Möllu minni- enda svo prúður drengur. Hún setti mig í vagninn minn og ég bara fór að sofa eins og til var ætlast ;o)
Um kvöldið kom svo alveg nýtt fólk sem ég hef aldrei séð.... enda var ég með varann á. En það leið nú ekki á löngu þar til ég var sko búinn að heilla þau öll upp úr skónum og þeim fannst ég svoooo sætur drengur og bara algjört æði! Mömmu og pabba fannst nú ekki leiðinlegt að heyra það og voru að springa úr monti af gullmolanum sínum.
Á sunnudaginn fannst ís-afa ekki nógu gott hvað það var langt síðan við höfðum hist svo hann hringdi í mömmu mína og pantaði mig í heimsókn. Svo við brunuðum í bæinn og beint á Vellina til hans afa. Ég var alveg í essinu mínu þar og sýndi hvað ég er skemmtilegur. Reyndar leist mér ekkert á lætin í liðinu yfir einhverjum handboltaleik!! Það sem fullorðnir geta öskrað hátt!! Maður fer alveg í kleinu þegar manni bregður svona! Loksins komum við svo heim til okkar rétt fyrir kvöldmat og þá gat ég leikið með dótið mitt sem ég var ekki búinn að leika með alla helgina. Auðvitað voru svo teknar fullt af myndum af mér í bústaðnum- þær ættu að koma á næstu dögum...

17.1.05

Nýtt dót

Í gær vöknuðum við pabbi og leyfðum mömmu að sofa því hún er svo mikil svefnpurka... Við fórum í göngutúr í bakarí og keyptum bakkelsi. Svo þegar við feðgarnir komum heim var ég orðinn svo þreyttur og vildi bara fara út að lúlla í vagninum mínum. Ég fékk það auðvitað og um leið og ég var kominn út vakti pabbi mömmu. Hún var voða glöð að fá svona fínan morgunmat. Þegar ég vaknaði aftur fórum við fjölskyldan í Smáralindina til að kaupa dót handa mér! Það var gaman að fá glænýtt dót! Ég er orðinn svoldið leiður á gamla draslinu sem er alltaf í dótakassanum mínum. En ég fékk ekki að leika með það þegar við komum heim- ég var aftur orðinn svo þreyttur og fór út í vagn. Það er nú meira hvað maður getur sofið! Rosalega var gaman þegar ég vaknaði. Þá lék ég mér heillengi með nýja dótið. Svo fékk ég líka að prófa göngugrindina sem Emil Gauti og Gústaf Bjarni lánuðu mér. Ég er voða fyndinn í henni því ég verð svo montinn að geta flakkað svona um.... fer líka svakalega hratt, þó ég segi sjálfur frá! Þegar ég er í göngugrindinni opnast líka ótal nýir tætumöguleikar og sjóndeildarhringurinn stækkar! Allt það sem ég næ ekki í þegar ég er á maganum er sko nó problem í grindinni! Verst hvað mamma og pabbi eru fljót að átta sig á þessu og eru svo snögg að fjarlægja allt sem mér finnst svo spennandi. En eitt geta þau ekki fjarlægt svo auðveldlega! Það er videoið, dvd spilarinn og sjónvarpið! Ég hlæ bara að þeim þegar þau segja ó-ó þegar ég nálgast það!
Jæja, kæru félagar. Verð víst að ljúka þessu núna...en áður en ég fer: Pabbi var að setja glænýjar myndir í myndaalbúmið mitt. Sjáumst!!

10.1.05

Í pössun

Í gær fóru mamma og pabbi út úr húsi án mín! Amma og afi komu að passa mig og það var alveg rosalega gaman hjá okkur. Ég fékk að stripplast og réði mér ekki fyrir kæti. Svo heillaði ég þau auðvitað eins og venjulega með því að sýna allar mínar listir. Ég kann hvað ég er stór (eins og allir vita núna), svo kann ég "týndur" svona þegar ég nenni því, ég kann að veifa halló og bless, svo er nýjasta nýtt að smella saman vörunum þannig að ég verð eins og fiskur á þurru landi. Þetta geri ég í tíma og ótíma núna og þetta er alltaf jafn vinsælt. Ég lét gömlu hjónin líka dekra aðeins við mig og skreið til þeirra og hékk í buxnaskálmunum til að þau tækju mig upp. Þá kúrði ég mig í hálsakot og þóttist vera feiminn- bara til að vera dúllulegur. Amma gaf mér líka að borða og ég er alltaf svo duglegur að borða að hún hefur bara aldrei þekkt barn sem borðar svona mikið eins og ég! Já, maður er sko duglegur að stækka. Svo var ég líka duglegur að leika mér (eins og engill) þegar ég var orðinn vanur því að hafa þau hérna hjá mér- maður verður aðeins að tryggja það að þau fari ekki strax. Ég bara tók eiginlega ekkert eftir því að ma&pa væru ekki heima! Ég svaf svo bara á mínu væra þegar þau komu heim.....ég er svo súper

5.1.05

Bjartur prakkari

Halló, halló!
Mikið svakalega varð ég glaður í gær! Mamma og pabbi fóru loksins með mig í sund aftur. Ég er búinn að bíða og bíða eftir næsta sundtíma og í gær var biðin á enda. Það var sko alveg æðislega gaman. Ég sýndi allar mínar listir og var sko engu búinn að gleyma. Kafaði eins og sannur sundmaður!
Núna eru dagarnir annars voða rólegir. Mamma er að taka niður allt fína skrautið sem mér finnst hún nýbúin að vera að setja upp.... Og svo var svoldið skrítið í morgun að hafa pabba ekki heima. Hann er víst farinn að vinna aftur:o( Ég sakna hans mikið.... en ég hef alveg nóg að gera í því að láta mömmu hlaupa á eftir mér. Mér finnst voða fyndið að þegar ég fikta í einhverju spennandi þá verður mamma reið á svipinn og segir ó-ó. Þetta er mín helsta skemmtun nú til dags. Kellingin hefur líka gott af því að hreyfa sig aðeins eftir allt átið um jólin ;o)

1.1.05

Herbergið mitt =)

Það er búið að vera rosa stuð á mér yfir jólin. Á aðfangadag fórum við til Bekku&Bödda uppá Burknavelli, og auðvitað fékk ég ís hjá ís-afa. Ég fékk fullt af pökkum...meira að segja frá vinum mínum sem ég gaf ekki pakka( ég skammast mín svoldið fyrir að gefa þeim ekki neitt...en það verður bara að bæta það upp seinna ). Ég fékk fullt af flottum gjöfum og held að ég hafi ekki pláss til að telja þær allar hér, enda voru mamma og pabbi orðin svoldið þreytt á að opna pakkana mína, en var upptekinn af því að leika mér að nýja dótinu um leið og það barst í mínar hendur.

Á gamlárskvöld vorum við líka á Burknavöllunum. Pabba tókst að vekja mig fyrir miðnætti og ég fékk að horfa á flugelda með afa og öllum hinum líka. Ég kunni nú bara ágætlega við lætin og ljósin, enda voru mamma og pabbi búin að fara með mig á flugeldasýningu og venja mig við. Ég var í rokna stuði fram eftir nóttu og alveg búinn að því þegar ég kom heim. Þegar heim var komið fór ég að sofa í herberginu mínu sem mamma og pabbi gerðu tilbúið á gamlársdag. Það er risastórt og allt dótið mitt kemst fyrir þar á gólfinu þannig að ég get leikið mér þar eins og mér sýnist.

Annars er ég líka orðinn víðförull, farinn að skríða fram í eldhús og inní stofu svona þegar ég nenni ekki að leika mér inní herbergi =)