Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

23.2.06

Bjartur stóri frændi

Já, nú er ég sko stóóóór frændi! Ég er búinn að eignast pínu, pínulitla frænku. Hún er systir hennar Svölu Birnu stóru frænku minnar og hún er ekki stærri en Binni dúkkan mín! Henni lá svo á að koma í heiminn til að leika við okkur Svölu. Hún þarf samt að sofa í glærum kassa í nokkrar vikur í viðbót áður en við getum knúsað hana. En þegar hún er alveg tilbúin þá verður sko gaman hjá okkur.
Annars er ekkert að frétta af mér... ég er búinn að vera lasinn og pirraður. Vil bara horfa á skrípó og drekka djús. Reyndar kom Ari Björn í heimsókn til mín um daginn og við lékum okkur smá. Mér tókst nú að smita hann... það var ekki gaman :o/ Jæja... það er nú ekki meira að frétta af mér í bili... en elsku munið nú eftir gestabókinni minni! Það er svindl að kvitta ekki ;o)

6.2.06

Jæja.... komið að fréttum

Er það ekki??
Veit bara ekki hvar ég á að byrja- það er alltaf nóg að gera hjá mér....
Það sem mér finnst skemmtilegast þessa dagana er að ryksuga og bora. Já, maður er fjölhæfur!
Berglind, vinkona mömmu, lánaði mér svo fína ryksugu og ég er bara alltaf að. Við mamma erum bara í því að ryksuga í takt, hehe. Þegar ég er ekki að ryksuga þarf ég að bora og laga alla veggi hérna á heimilinu. Afi er voða glaður með það;o)
Síðustu helgi gisti Svala frænka hjá mér. Við erum ansi góð saman. Mér fannst þetta svo merkilegt: Svala svaf í mínu herbergi og við fórum í bað saman og allt! Hún kom meira að segja með mér í matarboð til Óðins Braga vinar míns. Það var sko ekki leiðinlegt kvöld! Við þrjú vorum alveg að missa okkur- við vorum svo skemmtileg... að okkar mati;o) Svoldið mikill hasar í okkur.
Ég er orðinn rosa duglegur að tala, maður er alltaf að æfa sig sko... pabbi heldur að ég hafi gáfurnar frá honum en mamma segir að ég sé svona duglegur því ég er aaaalgjör bókaormur. Helst vildi ég lesa bækur allan daginn! Verð aldrei þreyttur á því- mamma og pabbi eru með eitthvað minna úthald.
Það er eitthvað lítið um myndatökur þessa dagana því myndavélin hans pabba er orðin eitthvað leiðinleg. Mér finnst það frekar slæmt því þá getur Helgamma ekki séð hvað ég er duglegur að stækka... Það er nú samt eitthvað til og vonandi nennir pabbi að setja þær hingað inn bráðlega...
-Bjartur

2.2.06

Á leið í búðina

Mamma kom fram og sá þá Bjart að klæða sig í skóna. Mamma spurði "hvert ertu að fara?" "Útí búð að kaupa meira tommakex" svaraði Bjartur.