Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

28.2.05

Fullt af afmælum

Nú er aaaalveg að koma mars og þá verða vinir mínir, Óðinn Bragi og Ari Björn, eins árs! Við mamma og pabbi förum kannski á eftir að kaupa handa þeim afmælisgjöf og þá ætla ég sko að fá að velja! Það verður að vera eitthvað flott dót handa svona stórum strákum.
Valgeir, frændi minn, varð 16 ára um helgina. Mér var boðið í afmæli til hans á laugardaginn. Það var alveg rosalega gaman- ég svaf eiginlega allan tímann af því að það var kvöld þegar afmælið var. Ég var svolítið þreyttur líka því mamma og pabbi drösluðust með mig allan daginn niður og upp Laugaveginn og inn og úr úr búðum. Reyndar var ég bara í mestu makindum í vagninum mínum og gat fylgst svona aðeins með mannlífinu.... Svo á sunnudaginn fór gamla settið með mig í Háskóla Íslands. Það var sko verið að þvæla manni um allt þessa helgi. Pabba finnst hann eitthvað eiga eftir að læra...og mömmu reyndar líka þannig að þau voru að kynna sér aðeins málið. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af háskóla á næstunni- kemst vonandi einhverstaðar að hjá dagmömmu næsta haust! Mamma fær að hafa áhyggjur af því fyrir mig- ég brosi bara áhyggjulaus allan daginn, alla daga!;o) Þannig á það að vera þegar maður er að verða níu mánaða.
Jæjajá! Það eru annars nýjar myndir í myndaalbúminu mínu og mörg laus pláss í gestabókinni:O) Sjáumst!

22.2.05

Bjartur uppistandari

Jæja, það er nú meira hvað maður er lélegur að skrifa fréttir! Það er alltaf svo mikið að gera. Ég er orðinn rosalega duglegur að standa upp við hluti og labba með.... aðeins erfiðara að fara niður aftur. Ég er samt alltaf að æfa mig og titra alveg í hnjánum þegar ég er að vanda mig að fara niður- svo ég skelli ekki bara í gólfið. Hef nefnilega dottið ansi oft og safnað marblettum. En ég er búinn að læra að fara varlega núna.
Mamma er að fara með mig að heimsækja gamla fólkið á eftir- svo kíkjum við kannski í heimsókn til Emils Gauta vinar míns. Mér finnst hann svo skemmtilegur. Hann getur nefnilega labbað um allt og leikið sér svo flott. Hann kom í heimsókn um daginn og ég elti hann út um allt í göngugrindinni minni nema þegar hann fór inní herbergið mitt- yfir þröskuld- þá gat ég ekki elt hann lengur og fór þá alltaf að gráta. Þá kom mamma hans Emils Gauta og hélt að hann væri kannski að meiða mig!! Þessar mömmur fatta aldrei neitt...kveiktu reyndar loksins á perunni en þá var það orðið of seint og Emil Gauti fór að lúlla í vagninum mínum.
Það fylgja engar myndir með núna...koma vonandi um næstu helgi þegar pabbi er búinn að skrifa við þær... kannski mamma geri það frekar... held að hún sé fljótari;o)

8.2.05

Enn einn strákurinn!

Ég var að eignast nýjan vin. Þessi vinur kemur til með að verða rosalegur prakkari. Hann var eitthvað að flýta sér í heiminn og kom öllum að óvörum ca mánuði fyrir tímann. Svo plataði hann alla alveg upp úr skónum því hann átti að verða stelpa, fyrsta stelpan í vinahópnum hans pabba, en svo var hann bara strákur!! Það verður sko stuð að leika sér við þennan þegar við verðum eldri!
Amma og afi ætla að passa mig á sunnudaginn því mamma og pabbi ætla að fara út að borða og í leikhús. Ég er sko strax farinn að hlakka til! Það er alltaf svo gaman þegar amma og afi passa mig. Svo var ég að passa Svölu Birnu frænku mína um síðustu helgi. Mikið svakalega var það gaman! Ég varð svo glaður þegar ég vaknaði og sá hana að ég hló upphátt! Hún er líka ofsa góð við mig og passar uppá mig. Ég er nefnilega orðinn svo stór að ég er farinn að standa allstaðar upp og er ekkert smeykur við að sleppa- þ.e.a.s. ef einhver er nálægt og getur gripið mig EF ég dett.

1.2.05

Grallarastrákur

Sælt veri fólkið.
Það er alveg brjálað að gera hjá mér að stækka og læra nýja og nýja hluti. Ég fatta eitthvað nýtt trix á hverjum degi núna- mömmu og pabba til mikillar gleði. Ég tek svo vel eftir að ég kem þeim hvað eftir annað á óvart með hvað ég kann. Balli frændi er duglegur að kenna mér eitthvað sniðugt og ég apa allt eftir honum. Hann segist vera uppiskroppa með atriði núna...
Ég átti alveg voða góða helgi. Var settur í næturpössun til ís-afa og fékk sko ís! Ég var ofsa góður og stilltur og mamma og pabbi sóttu mig svo klukkan 10 morguninn eftir en þá var ég bara steinsofandi. Við höfðum planað að fara í sund á sunnudagsmorguninn en mamma og pabbi voru eitthvað voða mikið þreytt... Það er orðið svolítið langt síðan ég fékk að kafa síðast að ég verð að plata gamla settið næstu helgi. Svo hefur ekkert bólað á myndum á myndasíðunni minni... það á nú að lagast í kvöld (segir pabbi).