Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

28.4.09

Jæja... orðið svoldið langt síðan síðast.

Við fórum með Dagnýju til hjartalæknisins og auðvitað var þetta ekki neitt. Stúlkan er hraust og þarf ekkert að fylgjast með henni frekar. Það er léttir.
Annars er alltaf nóg að gera... Helst í fréttum þessa stundina er að pabbinn á bænum er að fara til Vestmannaeyja næstu helgi. Það verður stuð hjá mömmunni á meðan. Bjartur er spenntur fyrir þessu ferðalagi pabba því hann ætlar að verða fullorðinn þá og hjálpa til með litlu systurnar tvær og poppa á kvöldin og vaka. Þannig er greinilega að vera fullorðinn í hans augum hehe.

Svo styttist óðum í að Helgamma komi. Hún kemur af því að mamman er að fara til Toronto í nokkra daga. En við reynum að hugsa sem minnst um það. Smá aðskilnaðarkvíði í gangi....

15.4.09

Dagný orðin 6 mánaða

Fórum í skoðun í morgun. Það kom í ljós að hún þarf að fara í hjartaómskoðun eins og systkini sín. Það kom eiginlega ekki á óvart...og þó...Við fórum í sérstakan hjartasónar þegar hún var í bumbunni, því Bjartur er skráður með hjartagalla, en það kom ekkert í ljós þar. Þannig að við erum bara róleg...Sunna fór líka og ekkert fannst að henni, bara frekjuhljóð ;o)

Við komum heim í gær úr æðislegu páskafríi. Þannig var að Berglind og Nonni fóru norður á Mývatn með krakkana sína. Okkur langaði að gera eitthvað um páskana, enda vön að ferðast í páskafríinu, og ætluðum að skjótast kannski til þeirra á Gautlönd. Loginn kom heim úr vinnunni snemma á miðvikudeginum og fór með þessa hugmynd enn lengra: Gista á Gautlöndum eina nótt og halda svo áfram austur á Seyðis. Klukkutíma seinna vorum við rokin. Komum á Gautlönd um kvöldið, héldum áfram til Seyðis daginn eftir, vorum þar í fjórar nætur, brunuðum svo aftur á Gautlönd og gistum þar eina nótt áður en haldið var áfram í bæinn.

Það var mikið brallað í þessu fríi: Farið var með stóru krakkana á sleða og skíði á Kröflu. Á meðan voru reyndar ungamömmurnar heima á Gautlöndum með yngstu molana. Svo héldum við áfram austur og komum Helgömmu heldur betur á óvart! Hún vissi ekkert af því að við værum á leiðinni og var frekar hissa að sjá okkur fimm live á tröppunum hjá henni!

Við fórum í fjöruferð með Símoni, Ástu og co, þar sem Sunna borgarbarn vildi frekar sitja ein í bílnum á meðan allir voru að leika í sandinum í fjörunni. Það var látið eftir henni eftir að hún hafði staðið og safnað nokkrum skeljum og rignt niður í smá tíma. Eftir fjöruferðina var haldið heim til Símonar og Ástu í kræsingar og leik með Ara Birni og Huga Rafni.

Svo hittum við góða vini sem komu alla leið frá Köben í páskafrí. Það voru þau Harpa, Guðjón og litli Úlfur Stefán og voru þetta góðir endurfundir enda rúmt ár síðan við sáumst síðast! Sunna var ekki alveg að meika það að þessi litli strákur héti Úlfur... Var hálfsmeik við hann bara. Svo kraup Bjartur niðri og var að leika sér á gólfinu akkúrat í gangveginum í eldhúsinu og Úlfur stóð fyrir aftan hann:,,Passaðu þig, Bjartur. Úlfur er fyrir aftan þig." Meint þannig að Bjartur myndi ekki hrinda honum um koll en Bjartur leit frekar hissa við til að sjá þennan úlf sem var svo bara lítill strákur. hehehehe.

Á páskadag fórum við í dýrindis páskamat til Dags og Ingu á Egilsstöðum. Átum á okkur gat og fengum bollaspá hjá Snorra. Bjartur var hálft kvöldið úti í garði hjá þeim að leika við Kubb kanínu. Sunna var inni með teboð á meðan hehe. Hún fékkst reyndar til að kíkja smá í kanínukofann...

Á annan í páskum keyrðum við svo aftur á Gautlönd og fóru stóru strákarnir beint á snjósleðarúnt. Siðan bjuggu þeir til nokkurra fermetra snjóhús drengirnir og buðu Sunnu að koma út að leika. Hún gerði það, daman. Fegin að komast út því það var fluga inní húsinu... Svo borðuðum við góðan mat með góðu fólki, drukkum bjór og fórum snemma að sofa ;o)

Þar hafiði það! Og það var mjöööög gott að koma heim.

2.4.09

TVÍBURARNIR

21. maí - 21. júní

Óþolinmótt eftir að hefja leikinn er líklegt að tvíburabarnið hafi sparkað duglega í móðurkviði. Tvíburabörn eru líkleg til að byrja snemma að tala og þau segja sína skoðun frá byrjun. Þau eru mjög forvitin í eðli sínu og þurfa því alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Þau eiga mjög erfitt með að sitja kyrr og eiga mjög erfitt með að þegja. Athyglin beinist stöðugt að nýjum viðfangsefnum en áhuginn hverfur oft mjög fljótt.
Því fyrr sem tvíburabarnið kemst í hóp annarra barna því betra því tvíburarnir elska félagslíf enda hafa þeir mikla samskiptahæfileika. Það sem þessu barni leiðist er að hafa ekkert að gera, svo vertu viss um að stundatafla þess sé alveg þétt skipuð (íþróttir, klúbbar, útivist o.s.frv.) Vegna þess hve barnið er upptekið og hefur margt fyrir stafni þá eignast það marga vini. Tvíburanum líkar að vera trúðurinn í bekknum og gerir í því að gretta sig og segja brandara. Tvíburinn er fyndinn og býr yfir góðum húmor.. Líf og fjör er tvíburum að skapi.

Tvíburarnir þurfa mikla örvun og hyggilegt er að leikföng þeirra séu margvísleg og vitsmunalega þroskandi, svo sem púsluspil og þrautir af ýmsu tagi.Hugur hans ferðast á ógnarhraða og auðvelt að örva. Vertu viss um að hann hafi alltaf nóg að lesa. Fyrir utan lestur þá hefur barn í tvíburamerkinu einnig mikla unun af því að tala, segja brandara og taka þátt í íþróttum, og það vill gera þetta allt núna strax. Yfirleitt er tvíburinn bráðþroska vitsmunalega og því nauðsynlegt að sinna þessum þætti í uppeldinu með því að reyna að svara t.d. spurningum hans (þær eru reyndar oft ansi margar) og ræða við hann.
Litlir tvíburar eru oft stríðnir og hrekkjóttir en það ber ekki að taka of alvarlega því yfirleitt er meiningin ekki slæm. Hann grípur oft til prakkarastrika til að hrista upp í umhverfinu því hann hefur ríka þörf fyrir tilbreytingu.
Þetta barn fer létt með að gera 3 hluti í einu og er líklegt til að gera þá alla vel. Hægt er að segja um barn í tvíburamerkinu að það sé mjög klókt og komi sífellt á óvart. Það er einnig ósvífið og gæti komið heim með kettling með slaufu um hálsinn (sem það fann) og fært mömmu sinni að gjöf. Sætt, ekki satt?
Þegar þú reynir að sjá fyrir þér barn í tvíburamerkinu þá skaltu hugsa um Línu Langsokk. Hallaðu þér aftur, dragðu andann djúpt og taktu þátt í fjörinu.


Need I say more? Þetta er ótrúlegt! .... spurningarnar, stríðnin, líf og fjör....þrautir, snemma að tala, forvitinn. Passar allt saman