Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

23.12.08

Jæja, það er komin Þorláksmessa!

Allt tilbúið fyrir jólin á þessum bæ. Bara eftir að skúra yfir gólfin, það tekur því ekki að gera það fyrr en á síðustu stundu. Annars fær mamman á bænum geðvonskukast ef einhver slysast til að hella niður. Jú, svo á eftir að klára að skreyta jólatréð. Það liggur við að það þurfi að pína þessi börn til að taka þátt í skreytingunni....það er mjög takmarkaður áhugi..
Núna er Logi með Bjart OG Sunnu í Bónus. Hehehehe væri til í að sjá hvernig honum gengur. Skil ekkert í því að hann hafi nennt að taka þau bæði með. Á meðan erum við Dagný bara heima að dúllast eins og vanalega- við erum svo miklar dúllur. Við settum hreint á rúmin. Alltaf vaknað í hreinu á aðfangadag. Það er æði. Svo erum við búnar að brjóta saman fjall af þvotti og ganga frá. Og ryksuga gólfin.

Við fórum í bústað um helgina. Enduðum á því að fara eftir að hafa hætt við nokkrum sinnum vegna veðurs. Svo komu amma, afi og Balli á laugardaginn. Það var æðislega kósý hjá okkur í miklum snjó og roki. Það var grillað, spilað, farið í pottinn, étið nammi og snakk og drukkinn smá bjór og rauðvín- ekki mikið:o) Á sunnudeginum komumst við ekki heim... það þurfti að moka okkur út. Þetta var bara skemmtilegt ævintýri. Þetta var önnur bústaðarferðin á stuttum tíma þar sem okkur fannst Dagný varla vera með. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta er stillt barn. Maður veit varla af henni.

Best að fara að ganga frá úr pokunum...liðið er komið heim.

Gleðileg jól!

16.12.08

Svo dimmt á morgnana...

Sit hérna við eldhúsborðið með te og kex. Hjúkkan er að koma að vigta Dagnýju. Trust me- ef hún væri ekki á leiðinni væri ég sko sofandi með dúllunni minni. Við skríðum alltaf aftur uppí þegar stóru krakkarnir eru farnir í leikskólann.

Hópstjórinn hennar Sunnu boðaði foreldraviðtal í gær. Þær eru ánægðar með stúlkuna. Hún er dugleg, farin að pissa í klósettið, tekur vel þátt í öllu, er vinsæl hjá krökkunum og ekki séns að setja hendur eða fætur í málingu til að stimpla fótafar eða handarfar. Maður er svoldið pjattaður...Hehehe svo sagði hún:,,Málþroskinn er góður." Einmitt, hún er sítalandi. Alveg farið að suða í eyrunum stundum....
Það er nóg að gera hjá krökkunum á leikskólanum þessa dagana. Jólaföndur, heimsóknir í kirkjur, jólaþorpið, Árbæjarsafnið og ég veit ekki hvað. Jólaballið er á fimmtudaginn og þá kemur jólasveinn. Þá verður Sunna mín hræddur, eins og hún segir sjálf. Bjartur stóri bróðir passar hana án efa. Hann getur nefnilega verið alveg óskaplega ljúfur við hana svona þegar hann er ekki að stríða henni.

Jæja, dinglar hjúkkan. Á ég að hleypa henni inn?

Komin og farin. Dagný dafnar vel. Aaaaaaðeins farið að sléttast úr þyngdarkúrfunni. En bara eðlilega. Við þekkjum það hér á bæ, engar bollur þessi börn. Næst á dagskrá er 3 mán. skoðun og sprauta :os

Nú styttist í Balla bró og bústaðarferð. Hér er talið niður. Það er svo gaman að fá Balla frænda heim. Svo er allt að verða tilbúið fyrir jólin. Bara eftir að kaupa jólatré og skreyta það. Pakka inn einhverjum gjöfum. Kaupa 1-2 gjafir.... æ, það er alltaf plentí eftir.

Ætlað skríðundir sæng í dimmunni.

7.12.08

Jóla jóla...

Farið var í búðarferð með alla fjölskylduna um helgina. Það gekk alveg ágætlega en var ekkert svakalega gaman. Krakkarnir skemmtu sér svosem og Dagný svaf bara í vagninum. Foreldrunum fannst eitthvað erfitt að reyna að velja jólagjafir og hafa augun á krökkunum um leið. Endaði á því að Bjarti langaði í ALLT sem til var í búðinni. Notaði öll sín ráð til að fá hitt og þetta en þau virkuðu ekki vel. Alveg skrítið líka hvernig svona flott krókódílatár gátu klikkað! En það tilheyrir að fara í eina leiðinlega verslunarferð fyrir jólin. Er einhvern veginn bara hluti af öllu stússinu;o)

Bóndinn á bænum heldur áfram að pakka inn jólagjöfum. Kerlingin fór svo eitthvað að rausa um að hann notaði alltaf sama pappírinn! Barnapappír! Þið hljótið að þola það;o)
Svo tókum við okkur til og skrifuðum öll jólakortin í gærkvöldi. Rauðvín, ostar....hljómar vel. Nema það endaði auðvitað á því að Logi drakk mest allt rauðvínið (hann er ekki þessi með brjóstin jú sí) og var farinn að rausa í jólakortin. Okkur fannst allt fyndið en reyndum að hemja okkur. Við grenjuðum úr hlátri þegar Logi söng:,,Skreytum TRÉ með grænum greinum..." og:,,Hoppa kátur út um gluggann." Það eru ábyggilega einhverjir sem fá skrítin jólakort í ár. Kerlingin, sem fór á undan að sofa, fékk ekki að ritskoða sum kortin. Þau voru komin í lokuð umslög í morgun....

Við tókum því svo ósköp rólega í dag. Bjartur svaf hjá ömmu og afa og kom heim í hádeginu. Svo kíktum við í jólaþorpið og sáum jólasveina syngja. Gerðum tilraun til að heimsækja Emil Gauta og Gústaf Bjarna en þeir voru ekki heima... Nú eru allir komnir í ró og við alveg að detta í slikkerí. Það verður tekið á því eftir jólin.... kannski

2.12.08

Lífið á Hjallabrautinni...

Drengurinn situr á klósettinu. Leiðinlegur ávani að þurfa að kúka alltaf þegar hann er kominn uppí rúm. Gerist ansi oft. Þá heyrist alltaf í litla dýrinu:,,Ég þarf líka að kúka og pissa. Í koppinn." Svo fær maður nánar lýsingar á hvernig kúkurinn er. Núna til dæmis datt kúkurinn einn og einn og einn niður. Svona eins og lítil snjókorn sem falla til jarðar. Hann kann að lýsa hlutunum hehehe.

Við fórum öll fjölskyldan á sýningu Bangsadeildar í dag. Horfðum á skemmtiatriði og fengum svo smákökur sem krakkarnir höfðu bakað og heitt súkkulaði með. Það var æðislega gaman. Svo duglegir og skemmtilegir krakkar. Sunna var sótt á Ungadeildina til að horfa á stóra bróður. Henni finnst allt svo sniðugt sem hann gerir og hermir eftir honum. Dagný svaf yfir skemmtiatriðunum en það kemur ekkert á óvart. Á fimmtudaginn förum við aftur á sýningu. Þá er það Sunna söngdrottning sem fær að sýna atriði með deildinni sinni. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það fer..

Dagný fór í 6 vikna skoðun um daginn. Hún er styttri en Sunna var á þessum aldri og þá er mikið sagt! Svo er hún líka töluvert þyngri.... Logi sagði að það var eins gott að hún héti ekki Sunna... þá væri hún kölluð Sunna tunna ;o)

Nú er nóg að stússast fyrir jólin.. Logi situr sveittur að pakka inn gjöfum sem Máni greyið fær að flytja austur. Einn pakki til úglanda fór á pósthúsið í dag. Svo þarf að afgreiða fleiri jólagjafir og afmælisgjöf. Jólakortin eru svo gott sem tilbúin! Haldiði að það hafi ekki alveg óvart náðst þvílíkt flott móment af systkininum um daginn! Við vorum búin að mikla þetta svo fyrir okkur og eiginlega bara búin að ákveða að stilla þeim upp í svefni hehehe. Nei, nei. Myndin er komin og þá er meira en helmingur búinn...

Úff, er búin að vera í allt kvöld að skrifa þessa færslu... best að fara að baða yngsta molann og koma honum í rúmið..
over and out.

p.s. Þúsund þakkir til Helgömmu fyrir gleðisendinguna um daginn. Þvílíkur munur! Fólk flykkist í heimsókn til að fá almennilegan sopa.
Og líka þúsund þakkir til Erlu og Palla og krakkana fyrir kjólinn. Hann er alveg bjútífúl! Jólakjóllinn kominn sko!

Vá. Svo gleymi ég næstum aðalmálinu. Það eru komnar myndir. Úr skírninni og eitthvað fleira...

24.11.08

Kominn enn einn mánudagurinn! Manni finnst alltaf alveg merkilegt hvað tíminn flýgur þó maður sé bara heima. Það sýnir þó að maður hefur nóg að gera og leiðist ekki á meðan.

Við fjölskyldan áttum alveg yndislega helgi. Fengum lánaðan bústaðinn hennar Möllu og Þrastar. Þau hafa stundum boðið okkur hann en við aldrei getað nýtt okkur þessi góðu boð. Svo langaði mömmunni svo að breyta um umhverfi og auðvitað var ekki málið að fá að skjótast í Karrakot. Brunuðum útúr bænum rétt fyrir 4 á föstudaginn. AAaahhhhhhh það var æði að keyra útúr bænum og eftir svona 1 og hálfs tíma keyrslu (eða svona 100 klukkutíma í huga Bjarts) vorum við komin. Það var ýmislegt brallað: Leikið úti í snjónum, farið í pottinn, hamast uppá leiklofti og litað og teiknað og margt fleira. Meira að segja búið til trölladeig en við náðum ekki að leira neitt... Það bíður bara betri tíma....

Krakkarnir eru bara sprækir... Það er að myndast smá spenna gagnvart jólunum. Aðallega Bjartur sem er að pæla eins og honum einum er lagið. Hann er strax byrjaður að hugsa hvernig jólasveinarnir geta búið í fjalli. Hvar komast þeir inn? Hvers vegna hefur enginn fundið hellinn þeirra?... Við megum búast við spurningaflóði allan desember. Sérstaklega þegar sveinarnir koma til byggða. Eins gott að vera með einhver svör. Góð og gild. ;o)
Sunnulingur er að breytast smátt og smátt í litla mömmu. Það er alveg æðislegt að fylgjast með henni dúllast í Dagnýju. Strjúka hárið, breiða yfir hana teppi og tala fallega til hennar. Svo er hún alltaf syngjandi barnið! og dansandi. Meira að segja þegar hún á að fara að sofa syngur hún hástöfum. Þá segir mamman:,,Uss Sunna. Nú áttu að fara að sofa". Þá segir Sunna:,,Ég.Er.Að. SYNGJA"! Og hana nú!
Dagný dafnar vel. Það er alveg fyndið að fylgjast með henni. Hún er alltaf svo værðarleg að það er engu lagi líkt! Henni líður greinilega svo ofur vel. Alltaf sami sældarsvipurinn á henni. Við erum að fara í 6 vikna skoðun á fimmtudaginn og það verður spennandi að sjá þyngdartöluna. Við erum í því að bera saman krakkana ;o)

Vonandi fara svo að koma inn einhverjar myndir... myndavélin er alltaf á lofti það er ekki það... Það þarf bara að finna tíma til að setja myndirnar í tölvuna...Læt ykkur vita.

9.11.08

Dagný Logadóttir biður að heilsa ;)



Smá myndskeið frá skírninni ;)

6.11.08

Skírn

Nú er Helgamma komin til að vera við skírnina á litlu systur. Það er æði að fá hana í heimsókn! Bjartur ætlar að gista með henni hjá Gauta og co eina nótt og allt!

Það er allt að smella saman fyrir skírnina... þökk sé æðislegum vinum og vandamönnum. Það eru allir svo hjálplegir og duglegir að bjóðast til að baka og svona þannig að mamman getur hugsað um brjóstagjöfina og þarf lítið sem ekkert að gera fyrir veisluna. Amma bakar, Lilja líka og Malla og Henný gera sín frægu horn (namm namm), Berglind ætlar að gera eitthvað gúmmulaði líka og ætli mamman reyni nú ekki að hrista eitthvað fram úr ermunum svona til að sýnast eitthvað;o)

Bjartur stóri bróðir ætlar að segja nafnið á litlu dömunni þegar presturinn spyr hvað barnið eigi að heita.... Við vonum bara að hann segi rétta nafnið... ekki Sóley eins og hann er búinn að ákveða. Spennan vex.....

26.10.08

Lífið á Hjallabrautinni...

er ljúft. Það gengur allt eins og í sögu.... eða lygasögu...Við trúum því ekki sjálf hvað við erum heppin! Ansi margir að spyrja hvernig gangi nú hjá okkur með börnin. Hvernig eru stóru krakkarnir að taka litlu dúllunni og hvernig er Sunna?? Hehehe litla skessan er bara nokkuð góð. Hún er spennt yfir litla barninu og Bjartur er æðislegur. Hann var reyndar í smá krísu um daginn, vildi bara eiga heima einn með mömmu og pabba en það stóð yfir í svona 10 mínútur. Getur verið erfitt að vera eini prinsinn með tvær sætar prinsessur fyrir systur....

Litla dúllan sefur og drekkur til skiptis og er bara alveg eins og hugur manns. Það er ekki hægt að segja að það sé mikil fyrirferð í þessu barni... ennþá ;o) Hún er afskaplega róleg og ljúf og mikil værð yfir henni. Það lítur allavega út fyrir að Sunna haldi sínum heiðursessi sem aðalstjórnandi í þessari fjölskyldu um ókomin ár ;o)

Pabbinn á bænum hendir reglulega inn nokkrum myndum af undrinu... en hefur sig ekki í að gera gestabók á síðuna. Þið verðið bara að halda áfram að nota kommentakerfið ef þið viljið skilja eftir kveðju. Nema að kallinn fari að taka sig til í andlitinu....

21.10.08

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ SUNNA SÆTA SÓL

Þá er litla stóra stelpan okkar orðin 2 ára! Og hún er stolt af því að vera "tegga ára stóra systir". Hún er sem sagt hætt að segja "Víðivellir" þegar hún er spurð hvað hún er gömul.
Það verður eflaust bökuð kaka í leikskólanum og sett upp prinsessukóróna og svo bíður kaka líka þegar afmælisstelpan kemur heim. Svo koma amma og afi og Valgeir í mat í kvöld og þá verður sko veisla!
Myndir úr afmælisveislunni sem var haldin 1. okt.

17.10.08

5 daga skoðun

Dúlla litla fór í fimm daga skoðun í dag. Skoðunin gekk vel og var litla búin að þyngjast og orðin 3045 gr. þrátt fyrir að hafa kúkað yfir allt skiptiborðið andartökum fyrir vigtun...dæmigerð stelpa að kúka áður en hún stígur á vigtina ;)

P.s. það bætist reglulega við nýjar myndir.

11.10.08

Fæðingarsaga Dagnýjar

Ég vaknaði við smá verk klukkan 5 um nóttina. Það leið langt á milli, um 15-20 mínútur, og ekki slæmir verkir. Ýtti nú samt við Loga... sagði að það gæti eitthvað verið að gerast. Mig langaði allavega að fara inná Hreiður því mig grunaði að þessi fæðing yrði hröð eins og Sunnu fæðing. Klukkan 5 mín. í 6 hrindi Logi í mömmu og pabba og sagði að þau yrðu að koma og passa krakkana. Klukkan korter yfir 6 var ég orðin verulega stressuð því allt í einu var orðið svo stutt á milli hríða og sóttin að snarversna og mamma og pabbi ekki komin. Þau komu þó stuttu seinna og þá var brunað af stað. Við fórum yfir á 2-3 rauðum ljósum og ég farin að halda í mér- vildi ekki eiga barnið í bílnum.

Við komum inná Hreiður 6:40. Þar tók Nína ljósmóðir á móti okkur, við fórum inná sömu fæðingarstofu og þegar Sunna fæddist, ég var skoðuð, útvíkkun var lokið þannig að ég hoppaði ofan í baðið og Dagný fæddist 7:25. Kom syndandi upp í mömmufang alveg eins og stóra systir hafði gert. Fullkomin og falleg með svart hár.

2935gr. og 49.5 cm.

Þannig var sú stutta saga... þetta tók ennþá styttri tíma í þetta sinn. Komum á Hreiðrið kl. 6:40 og daman fæddist kl. 7:25.

29.9.08

Góðar fréttir...

Sunna var í hjartasónar í dag og er með fullkomlega eðlilegt hjarta. Hvað þetta aukahljóð er, vissi læknirinn ekki- gat helst skrifað það á að stundum heyrist aukahljóð þegar hjartað slær svona kröftuglega ;o) Já það er kraftur í litlu stelpunni okkar! Sunna var eins og engill meðan á skoðuninni stóð og lá bara hjá mömmu og bærði ekki á sér.

Svo eru fréttir af hinni litlu skvísunni: Við fórum í vaxtarsónar og auðvitað leit allt vel út þar líka. Daman orðin 10 merkur og dafnar bara vel. Gott blóðflæði um strenginn, eðlilegt magn af legvatni og óeðlilegt ef hún væri stærri... svona miðað við stærð mömmunnar. Nú eru 2-3 vikur eftir og miðum við bara við að hún verði svipuð og Sunna þegar hún fæddist, hún var rétt rúmar 11 merkur. Samt eigum við að mæta aftur í tékk eftir rúma viku því hún er undir meðallagi... og við bara hlýðum :o)

Þannig að það er barasta allt gott að frétta af Hjallabrautinni. Næst á dagskrá er afmælið hennar Sunnu. Ákváðum að halda uppá það áður en fjölskyldan verður einum fleiri. Sunna er ekki að ná þessu afmælisdæmi... Þegar maður spyr hana hvað hún sé gömul segir hún:,,Víðivellir". Svo þýðir ekkert að fá Bjart til að hjálpa við að kenna henni því honum finnst að hún eigi bara að vera eins árs! Og hana nú! Þessi ákveðni í liðinu er öll frá pabbanum....

Sjáumst flest á miðvikudaginn ;o)

25.9.08

Máni-fáni

Máni frændi var í mat á Hjallabrautinni. Krakkarnir báðir nokkuð spenntir að fá Mána í heimsókn... Sunna var sett í bað fyrir matinn og tók það sinn tíma að þvo hárið og svona... Þegar þær mæðgur opnuðu svo baðherbergisdyrnar var Máni það fyrsta sem Sunna sá. Hún varð mikið glöð og sagði:,,Íslenda fáninn er ennþá í heimsókn!"
Máni... Fáni... þetta hljómar alveg eins;o)

Krakkabragð

Bjartur og mamma voru í búðinni að versla íþróttanammi. Þegar þau komu á kassa var samt svoldið freystandi að kaupa alvöru nammi.... Endaði málið á því að Bjartur fékk Extra krakkatyggjó. Hann hefur aldrei smakkað svoleiðis áður og skildi ekki alveg hvernig þetta "krakkatyggjó" var.
Mamma:,,Þetta er svona fyrir krakka..."
Bjartur:,,Er þá nammi inní því?"
Mamma:,,Nei, þetta er tyggjó fyrir krakka"
Bjartur:,,Þá er það nammi."
Mamma:,,Nei þetta er svona tyggjó með krakkabragði"
Bjartur virtist nokkuð sáttur... þar til komið var heim. Þá sagði hann:,,Mamma. Ef ég borða þetta tyggjóóó... veit ég þá hvernig bragð er af mér?"

22.9.08

Litlu krílin

Sunna hefur nú aldrei þótt stór þótt hún sé með stórt skap... Þessvegna fer hún reglulega í aukavigtun og mælingar á Heilsugæsluna og vorum við í einni slíkri heimsókn nýlega. Stelpan heldur bara sínu striki og stækkar alveg á sínum hraða, spyr hvorki kóng né prest að því hvernig á að gera þetta;o) Hún er hinsvegar langt á undan jafnöldrum í málþroska (og vitsmunaþroska, vilja foreldrarnir meina).
Þegar barnalæknirinn skoðaði og hlustaði hana heyrði hann eitthvað aukahljóð í hjartanu.Sunna sat hljóð og stillt en læknirinn hefur hingað til ekki fengið að snerta hana án þess að skerandi öskur komi frá þessum litla kroppi þannig að það er ekki furða að þetta hefur ekki heyrst fyrr en nú. Svo nú erum við á leiðinni í hjartaómskoðun með litlu dömuna og glöggir lesendur muna kannski eftir því að einkasonurinn hefur verið í samskonar eftirliti og mun verða það eitthvað áfram. Vonandi að Sunnu hljóð sé jafn "saklaust" og hjá Bjarti.

Hin litla daman, sem er nú ekki enn komin í heiminn, á að fara í aukavaxtarmælingu líka. Ljósmæðrum finnst mamman með litla kúlu svona miðað við meðgöngulengd. Svo sagan endurtekur sig- þegar Sunna var í bumbunni var líka farið í vaxtarsónar.... Það eru ekki stórar konur í þessari fjölskyldu... hæðarlega séð;o)

7.9.08

Í berjamó á Seyðis

Við systkinin fórum til Seyðisfjarðar með pabba að hitta Helguömmu og alla sem eru fyrir austan. Mamma keyrði okkur út á flugvöll á fimmtudaginn og var svo ein heima að hvíla sig með litlu stelpuna í maganum. Bjartur var nú ekki alveg á því að vera mömmulaus yfir helgina en hugsaði líka að það væri gaman að hitta hana aftur á sunnudaginn. Flugferðin gekk bara nokkuð vel og Bragi & Helgamma sóttu okkur uppá Egilsstaði. Við kíktum í heimsókn til Dags og hittum Sól og lékum góða stund á trampólíninu áður en við héldum niðrá Seyðisfjörð. Sunna svaf sínu værasta á leiðinni enda ekki búin að sofa neitt allan daginn fyrir utan smá lúr rétt áður en við lentum. Alltaf gaman að komast á Múlaveginn og leika í öllu dótinu =)

Á föstudeginum fórum við í heimsókn á leikskólann á Seyðisfirði og Bjartur fór beint að leika við Ara Björn út um allan skólann. Síðan var farið heim og Sunna lagði sig yfir skrípó. Helgamma tók fram Radio Flyer kerruna og í honum fórum við saman í apótekið þar sem hún vinnur. Þar fengum við endurskynsmerki á töskurnar sem hún var búin að gefa okkur. Sunna fékk líka spennur og teygjur, en þurfti nú að halda aðeins aftur af sér því hana langaði í allt dótið sem til var í hárið =) Við héldum svo förinni áfram og fórum í búð og komum svo við á nýja stóra leikvellinum á bakvið sundlaugina og vorum þar drykklanga stund og heldum svo heim á Múlaveginn.

Laugardaginn voru allir komnir snemma á fætur að vanda og allir komnir í föt og tilbúin í verk dagsins snemma morguns. Við heimsóttum Ara Björn og fjölskyldu um morguninn og fengum hádegismat hjá þeim. Bjartur og Ari Björn duttu alveg í leik gírinn eins og á leikskólanum daginn áður. Síðan var farið út og leikið í garðinum að baka drullumall í vatni í hjólbörunum og rólað. Síðan fékk litla prinsessan loksins að fara heim og leggja sig aðeins. Á meðan fór Bjartur, pabbi, Helgamma, Dagur og Sól uppí Sesselíulund og tóku nokkrar myndir. Þegar við komum heim vaknaði Sunna um leið og þá var haldið í berjamó undir Hátúni. Borgarstelpan hún Sunna var nú ekkert alveg á því að sitja í grasinu og tína uppí sig. Pabbi reyndi að gefa henni bláber en þau fengu að fljúga út aftur um leið og fengu auk þess heitið drasl. En krækiberin datt hún í og var hin sáttasta. Svo þegar allt fór að verða tómt í kringum hana var hún færð til um nokkra sentimetra þar sem allt var krökkt af berjum og þá sat hún sínu fastasta og hámaði. Bjartur hoppaði og skoppaði út um allt, alveg þangað til hann datt með fæturna tvisvar ofan í læk, þá var gamanið búið hjá honum. Eftir berjamó var dýrindis læri á boðstólum og gengu allir sáttir frá þeirri máltíð.

Sunnudagurinn var tekinn í ró á Múlaveginum fram eftir morgni. Fórum aftur á leikvöllinn og hittum Ara Björn og Huga Rafn sem voru að viðra pabba sinn. Vorum þar heillengi þ.s. Sunna fékk endalaust magn af súkkulaði frá Helgömmu og kom það í stað hádegisverðar hjá prinsessunni. Síðan keyrði Helgamma okkur uppá Egilsstaði þ.s. við fórum í lummur til Dags & Ingu. Þar æddum við fram og aftur um garðinn í dýrindis veðri og borðuðum öll ber og grænmeti sem við komumst yfir og var af nógu af taka hjá þeim. Pabbi var afskaplega hrifin af sólberjunum sem við fengum hjá þeim á Sólvöllunum og haft var orð á því að svona góð sólber hefði enginn fengið hér á landi áður. Þegar vel hafði verið hoppað á trampólíninu kvöddum Sól og foreldra og keyrðum á flugvöllinn. Þegar kom að því að kveðja Helgömmu var Bjartur alveg miður sín og litla hjartað brast, en hann herti sig upp og reyndi að gleyma sorginni og kvöddum við Helgu og þökkuðum fyrir yndislega helgi.

Þegar heim var komið vorum við afskaplega glöð að sjá mömmuna okkar aftur og hún líka að sjá okkur og knúsa =)

24.8.08

"Ákveðin" ung dama

Sunna missti sig í IKEA í dag. Þegar búið var að labba gegnum alla búðina og ákveðið að kaupa ís, vildi mín fá að halda á honum sjálf. Fékk það og skellti honum strax í úlpuna þ.s. hún átti í smá vanda að halda honum upp. Tók ég ísinn þá af henni og benti henni á að úlpan væri orðin skítug. Henni fannst illa brotið á sér( enda alveg nákvæmlega sama hvort úlpan sín væri skítug eða ekki enda kemur hún ekkert nálægt þvotti á henni ). Skutlaði hún sér þá á magnann á gólfið og byrjaði að öskra. Ég er orðinn þaulvanur þessari taktík hennar við að fá sínu framgengt og var ekki að nenna að sinna henni. Ég gekk og fann Bínu sem var á leiðinni út og lét hana fá ísinn hennar og fór svo til baka að sækja litla sækuliðann sem ómaði langar leiðir. Var þá nokkuð af fólki búið að safnast í kringum hana og heyrði ég, "Þarna kemur einhver að hugga hana". Fólki finnst hún alltaf vera svo sæt þ.s. hún er svo lítil en mér finnst nú bara nokkkuð fyndið þear hún tekur svona flotta stungu og rennir sér á magann og byrjar að orga. Lítil stelpa stóð agndofa og horfði á aðfarirnar. Hún hefur líklega komist að því að þetta skilaði litlum árangri þ.s. Sunna fékk ekki sínu framgengt heldur var hún bara brottnumin af pabba sínum þannig að áhorfendur og litla dolfallna stúlkan gátu haldið áfram með líf sitt :)

5.8.08

Sumarfríið búið...

og allir mættir aftur í leikskólann/vinnu. Mikið svakalega höfum við haft það gott í fríinu!! Búið að flakka MIKIÐ og nánast allar helgar í sumar bókaðar. Það er alltof mikið mál að fara að telja upp allt sem við höfum gert og bendum við bara á myndaalbúmið... myndirnar tala sínu máli;o)

Mamma stækkar og stækkar og mikil læti í bumbunni oft. Bjartur er spenntur og glaður að fá aðra litla systur því það er svo gaman að leika við stelpur:o) Sunna er ekki mikið með á nótunum hvað þetta varðar. Skilur ekkert hvernig lítið barn getur verið í mömmu maga.... Þannig að það bíða allir spenntir eftir viðbrögðunum hjá "Ráðhildi" þegar að kemur. Sú á eftir að stjórna þá! Hún er svo góð í að stjórna og aga krakkana á leikskólanum að hún ætti eiginlega að vera á launum þarna hehehe... Svo er alveg spurning hvort hún sjálf fari eftir öllum reglunum sem hún setur....Já já hún er sko alveg stikkfrí.

Jæja, biðjum að heilsa í bili ;o)

18.6.08

Hlýðin ung dama

Sunna er nú farin að sofa í opnu rúmi þannig að hún getur farið ferða sinna eins og henni þóknast. Fyrsta kvöldið var byrjað að misnota frelsið, hún kom fram til að: hitta mömmu, hitta Bjart, horfa á Mikka Mús, fá að súpa, koma með sparkbílinn, kveikja ljósið...
Þrátt fyrir útskýringar föðurins var hún ekki að skilja að hún ætti á hættu að fá rimlana afturá rimarúmið og eftir um tíu ferðir voru rimlarnir settir aftur upp. Litla varð miður sín þegar hún hafði misst ferðafrelsið og grét heilli fötu af krókódílatárum í mótmælaskyni við þessar aðgerðir.
Næsta kvöld lagðist hún þæg og stillt og bærði ekki á sér. Bjartur þurfti að fara á klósettið og þá lagði hún af stað fram líka. Kom mamma þá og spurði hvað hún væri að gera og sagðist hana á vanta súp( vatn ) að drekka. Mamma sagði henni að leggjast aftur og hún myndi færa henni og gegndi hún án þess að sýna minnsta mótþróa.
Í morgun vaknaði sú stutta og sat í rúminu og kallaði á foreldra sína þar til pabbi kom og benti henni að koma. Þá hoppaði hún niður og kom hlaupandi, alsæl yfir að hafa fengið leyfi til að fara úr rúminu ;)

9.6.08

Vandlát ung dama

Í leikskólanum um daginn kom Ragnar Logi færandi hendi með blóm til Sunnu. Eitthvað leist henni ekki nóg á vel á fífilinn og hunsaði boðið og blómið líkt og þetta væri ekki nógu merkilegt fyrir hana. Þrátt fyrir neitunina hélt boðið áfram til næstu stúlku sem þáði falleg boð. Þegar biðlinum hafði tekist svona vel til ákvað hann að reyna aftur með Sunnu. Ragnar Logi náði því blóminu aftur og bauð Sunnu í annað sinn. Nú þáði hún boðið enda hafði hún orðið vitni af því þegar hin stelpan þáði blómið og þá var hún mun móttækilegri og bara hæstánægð með blómið þótt það hefði ekki verið nógu fínt fyrir hana fyrst um sinn.

7.6.08

Bjartur 4 ára


Á fimmtudaginn varð Bjartur 4 ára, veislan var reyndar haldin aðeins fyrr og var rosalega gaman að fá alla í heimsókn og Bjartur var mjög ánægður með alla pakkana. Afmælissöngurinn var nú heldur ekki leiðinlegur og var Bjartur alveg að springa úr stolti. Ekki skemmdi fyrir að 100 ára afmæli var hjá Hafnarfjarðarbæ og var haldið niðrá Víðistaðatún að veislu lokinni þar sem leikið var og dansað fram á nótt. Afmælisdagurinn var svo líka haldinn hátíðlegur, smá pakkar í byrjun dags og á leikskólanum fékk Bjartur að baka köku með GULL kremi( valdi litinn sjálfur ). Súkkulaði fondue var eftir kvöldmat, enda orðin hefð síðan á 3ja ára afmælinu í fyrra ;)

P.s. Hér má sjá afmælisboðskortið í ár

29.5.08

Hvað er í bumbunni á mömmu?

Smelltu á það sem þú heldur ;)





Ef þetta virkar ekki, þá skaltu skoða skilaboðin ;)

27.5.08

Myndir frá helgarfrí á Seyðis

Pabbi setti inn örfár myndir frá því við skuppum til Seyðisfjarðar um daginn. Það eru nú mánuður síðan og þá var allt á kafi í snjó. Nú er víst bara steikjandi hiti þar og snjóhúsið sem pabbi byggði löngu horfið. Ætli við förum nokkuð fyrr en í lok sumars næst á Seyðisfjörð en pabba langar mikið að komast í berjamó á Seyðis. Það er búið að taka mikið af myndum í maí sem koma innan skamms og svo er afmælið mitt á næsta leiti ;)

-Bjartur alveg að verða 4 ára strákur

25.5.08

Bjartur ljósmyndari

Bjartur hefur nú hleypt myndunum sínum á netið. Á myndasíðunni hans er að finna myndir sem ná aftur til sumarsins 2007 eða um það leiti sem Bjartur fékk gömlu myndavélina og hóf að taka myndir...aðallega af litlum og sætum hlutum sem hann vildi mynnast ;)
Smelltu hér til að skoða myndasafn Bjarts

17.5.08

Keppnis-bíll

Í bílnum í dag var pabbi að útskýra fyrir Bjarti að bílar gengu fyrir mismunandi orku.

Pabbi: "Sumir ganga fyrir bensíni og eru bensínbílar, aðrir fyrir rafmagni og eru rafmagnsbílar og enn aðrir sem ganga fyrir vetni og eru vetnisbílar".
Bjartur: "Sumir ganga fyrir keppni",
Pabbi: "Ha, ganga fyrir keppni?" og rekur upp stór augu.
Bjartur: "Já, keppnisbílar, þarna gabbaði ég þig".

Maxímús Músíkús



Við feðgar fórum á Maxímús Músíkús í dag. Ekki á hverjum degi sem farið á tónleikana hjá Sinfóníunni og var þetta mjög skemmtilegt. Þegar við komum inn voru barnasinfónínuhljómsveit að spila og Maxímús og Barbara að dansa fyrir gesti. Bjartur var mikið að spá af hverju Maxímús væri með putta alveg eins og hann ;)

Tónleikarnir byrjuðu og við fengum söguna af Maxamús alveg beint í æð með öllum hljóðfærum höfðum gaman að. Mátulega löng sýning f. Bjart og nóg að horfa og hlusta eftir allan tíman þannig að þetta var ánægjuleg sýning og erum við hæstánægðir með að bætt var við annari sýningu ;)

16.5.08

Vatnaveröld

Á seinustu tvemur vikum höfum við farið tvisvar í Vatnaveröld í Keflavík( Reykjanesbæ ) sem er afskaplega skemmtileg sundlaug fyrir svona lítið fólk eins og okkur ;)

Bjartur er óhræddur við vantið þegar hann er kominn með sundgleraugun á nefið sem Helgamma gaf honum í sumargjöf. Sunna er alltaf að færa sig uppá skaftið og var farin að renna sér, með hjálp pabba, í seinna skiptið og ekkert á því að fara þegar hún var búin að uppgötva hversu gaman það var.

Ásdís og Birkir hafa komið með okkur í bæði skiptin og þeim finnst alveg jafn gaman og okkur. Í seinna skiptið vorum við reyndar farin af stað þegar þau frétta að við vorum á leiðinni til Keflavíkur. Þau voru nú ekki lengi að ákveða að fara með foreldra sína í sund og fljót að ná okkur, enda vorum við bara hin rólegustu í búðarferð á meðan því Bjartur var kominn með gat á sokkabuxurnar og mamma ekki alveg til að láta það fréttast ;)

P.s. eitthvað af nýjum myndum á myndasíðunni ;)

14.5.08

Bjartur STÓRI bróðir--veit allt

Bjartur fékk að vita af litla barninu í maganum á mömmu síðustu helgi. Mikið varð hann nú glaður og knúsaði bumbuna. Svo hljóp hann fram og náði í albúmið hennar Sunnu, fann þar mynd af Sunnu nýfæddri og benti á naflastúfinn:,,Mamma. Þarna var naflastrengur. Þannig fær barnið að borða og ALLT sem þú borðar fer þarna í gegn...... það fer reyndar smá í magann þinn."
Það er nú gott að stóri strákurinn passi uppá þetta allt saman. Verst ef mamman þarf að fara að laumast til að borða súkkulaðið því lítil börn mega nú ekki fá svona mikið súkkulaði!

Annars er þetta stelpa og hún á að heita Sunna. Eeeeeef þetta er strákur á hann að heita Bjartur. Það er ekki mikið um fjölbreytnina á þessum bæ ;o)

5.5.08

Vitlaus í hausnum

Bjartur var að horfa á Bansímon og Tumi tígur var að vanda að rugla eitthvað. Þá heyrist í spekingnum "Tumi er vitlaus í hausinum" og svo var hlegið mikið og nú er fólk ekki lengur kjánar heldur "Vitlaust í hausinum" :D

2.4.08

Aprílgabbið hennar Sunnu

Í gær fór Bjartur í bað og fékk að hafa með sér dollu með rúsínum sem hann var að kjammsa á. Bjartur fór svo uppúr og Sunna fór í bað. Eftir góða stund var hún orðin nokkuð róleg í baðinu og Bína horfir á hana í smá stund fram úr holi sér hvað hún kíkir fram á móður sína og virðist vera eitthvað skömmustuleg við að tyggja eitthvað. Sunna gefur lítið fyrir spurningar móður sinnar hvort hún sé að borða eitthvað svo að Bína fer og kíkir á hana í baðinu. Bínu til mikillar skelfingar sér hún Sunnu vera að smjatta á litlum krumpuðum klessum sem líkjast einna helst skít. "Ertu að borða skít?" heyrist í móðurinni...sem furðar sig einnig á hvernig barnið getur borðað hann með mestu list. En fljótlega uppgötvast að þetta voru rúsínurnar sem Bjartur hafði skilið eftir og hafði Sunnu tekist að plata móður sína og skemmta karlpeningi heimilsins í leiðinni =)

P.s. þar eru komnar nýjar myndir.

13.3.08

Nokkur skýringarorð frá Sunnu

róró = cheerios
dús = snúð(ur)
Baggi = Valgeir
oggu = komdu
gogku = froskur
appiss = appelsína
bangs = bangsi

27.2.08

Hættur með duddu

Bjartur og Bína fóru í afmælisveislu til Ásthildar Elvu í gærkvöldi á meðan við feðginin vorum heima í veikindum. Bjartur lék á alls oddi...var í B-inu sínu...og sagði svo einhverntíman frekar stoltur "Ég er hættur með duddu". Bína þurfti nú að útskýra að það hefði ekki verið að hans ósk. Duddan týndist fyrir þónokkrum dögum og gekk ágætlega þangað til hann rak augun í hana milli rúmsins og skápsins sem stendur uppvið rúmið. Miklir fagnaðarfundir sem entust þó ekki lengi þegar foreldrarnir tóku hana og sögðu að hann væri hættur...enda löngu orðinn 3ja ára, en þá á maður víst að hætta skv. tannbókinni sem við höfum verið að skoða nýlega en duddustrákurinn vill ekki eiga þá bók og aldrei lesa hana aftur. En honum tókst nú að yfirstíga þessa fíkn og gengur bara nokkuð vel( og farinn að monta sig á þessu ;)

P.s. það eru komnar myndir á myndasíðuna frá síðustu áramótunum sem við áttum í góðu yfirlæti á Múlaveginum á Seyðisfirði...þótt að Sunna hafi ekki verið alveg sátt við lætin á miðnætti ;)

14.2.08

Jólamyndir 2007

Pabbi duglegi er svoldið eftirá þessa dagana, en það eru komnar nýja myndir í myndaalbúmið. Þar má sjá myndir af Sunnu & Bjarti í jólaundirbúningnum. Sunna var að myndast við að elda í pottunum. Allir hjálpuðust að við að skreyta jólatréið...Sunna var nú reyndar ekki mikið að hjálpa en Bjartur sá um þetta að mestu leiti. Síðan komu Gauti og stelpurnar hans í jólagraut og fengu pakka og komu með pakka. Jólin gengu svo í garð á völlunum og voru sumir orðin þreyttir í öllu pakkaflóðinu. Síðan fóru Bjartur og Svala út að renna og allir hittust jólaboði annan í jólum.

8.2.08

Kraftur og Hreysti

Bjartu og Óðinn Bragi í Gautaborg seinasta sumar.


...í aðeins betri gæðum

6.2.08

Bjartur töffari

Bjartur fór út með mömmu sinni um daginn...þegar hann kom heim var hann nýklipptur og kominn með gleraugu. Hérna má sjá hann áður en hann fór og eftir að hann kom heim.

Fyrir Eftir

25.1.08

Við lentum aldeilis í lífsreynslu í dag

Bjartur var nærri kafnaður á leikskólanum í morgun. Guði sé lof fyrir skjót viðbrögð allra og drengurinn bara nokkuð brattur eftir þetta allt saman.
Þannig var að mamman sat inni í vinnuherbergi leikskólans (sem er við hliðina á deildinni hans Bjarts). Svo heyrist allt í einu:"Það stendur í Bjarti!" og svona smá hamagangur fyrir utan- þannig að mín spratt á fætur og fór að tékka á hvað væri í gangi. Ekki falleg sjón sem blasti við inná Bangsadeild. Bjartur dauðhræddur og fjólublár í framan, deildarstjórinn að taka heimlich á drenginn og ekkert gengur. Leikskólastjórinn búin að hringja á sjúkrabíl og mamman stjörf og titrandi, gat ekki hreyft legg né lið. Allt í einu-eftir óóóóra tíma, þið vitið ;O) -skellir Nína deildarstjóri Bjarti á hvolf og eftir enn meiri tíma og mikið bank og rykki losnaði vínberið og drengurinn gat andað eðlilega aftur.
Sjúkrabíllinn var auðvitað afturkallaður og allir guðslifandifegnir. Mæðginin þurftu auðvitað að fá smá tíma saman til að jafna sig á þessu og ná að anda eðlilega... Sátu saman inni á Bangsadeild að knúsast. Okkar maður var nú svoldið sjúskaður.... í alveg korter;O) Vildi þá bara fara að leika allur dílóttur og æðasprunginn í framan. Hann var kaldsveittur og hálflamaður eftir þetta (eins og mamman) en ekki að ræða það að hvíla sig eitthvað eða vera inni í útiverunni. Sýnir bara hversu mikil áhrif þetta hefur haft á hann... Mamman knúsaði bjargvættinn, Nínu, fyrir björgunina. Báðar með tárin í augunum (svaka drama sko).

Þegar við komum heim hringdum við í blómabúð og sendum túlípana til Nínu hetju.

23.1.08

Sunna göngugarpur

Fyrir þá sem vilja sjá Sunnu myndast við að labba ;)

17.1.08

Á ég að sprauta honum?

Göngugreining, háls-nef og eyrnalæknir, rör í eyrun og nefkirtlataka, augnlæknir, hjartalæknir.... við erum bissý í janúarmánuði. Er það furða að drengurinn sé orðinn þreyttur á læknisheimsóknum?? Ekki allt búið enn....

Og já, Sunna er farin að labba ;o)

3.1.08

Jæja.
Hvar á maður að byrja?
Byrjum bara á: Gleðilegt nýtt ár. Til allra sem hafa ekki nú þegar fengið áramótaknús frá okkur.
Það sem við erum búin að hafa það gott! Reyndar hafa verið veikindi... Sunnulingur fékk auðvitað hlaupabóluna á Þorláksmessu og pabbinn á bænum er búinn að vera á sýklalyfjum sem gerðu honum lífið leitt.
Við fórum í dekur til Helgömmu og Braga og allra þeirra fyrir austan. Þúsund kossar til ykkar! Það var svo kósí hjá okkur í vonda veðrinu og rafmagnsleysinu. Bjartur fékk útrás á gamlárs og Snorri er hér eftir kallaður SprengiSnorri;o)
Verst hvað við vorum stutt- hefðum viljað heimsækja fleiri og oftar en einu sinni- Ari Björn og Bjartur hittust bara einu sinni í smá tíma og mamman og pabbinn hefðu viljað hitta aftur vini sína í betra tómi. Alltaf gaman að spila og svona.

Einn lítill vinur okkar fékk nafn milli jóla og nýárs og var okkur öllum boðið. Bjartur var í "essinu sínu" alla veisluna. Var skammaður og bent á að hann yrði að haga sér í veislum. Þá kom í ljós að hann nennti ekkert að vera í þessari veislu! Unglingaveikin er strax byrjuð. Sunna (sem er nú alltaf eins og ljós) sýndi ekki heldur sínar bestu hliðar. Mamman og pabbinn vilja ekki beint viðurkenna að stelpan sé að verða frekja, hún var að jafna sig eftir hlaupabóluna ;o) En skírnin var æðisleg og heitir litli guttinn Úlfur Stefán. Hann vildi svo endilega vera áfram á Egilstöðum hjá ömmu sinni og afa. Ekki á Seyðis hjá hinni ömmunni og afanum þannig að við fengum ekki að kynnast honum frekar í þessari ferð.

Nú er lífið hins vegar að komast í rétt horf. Allir fóru á leikskólann í morgun og pabbinn í vinnuna. Krakkarnir orðnir eðlilegir aftur- fara að sofa á réttum tíma og hættir að vera spinnegal. Það er nú gott að það eru ekki alltaf jólin...