Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

11.5.05

Nýjar fréttir...

Jæja, halló!
Ætli maður verði ekki að standa sig í þessum skrifum hérna... Það er svo margt í fréttum að ég veit bara varla hvar á að byrja.... Helgamma kom að heimsækja mig í nokkra daga um daginn- nema ég var ekki skemmtilegri en svo að ég varð veikur um leið og hún kom. Mamma og pabbi héldu að þriðja tönnin væri að fara að koma en ég var bara að plata þau:o) Það fylgdi engin tönn þessum hita og enginn skilur neitt í mér....
Mamma mín átti afmæli um daginn. Ég fékk ekki að vera með í partýinu- var bara settur í pössun til ömmu og afa. Það fannst mér ekki leiðinlegt. Ég er svo spenntur þegar ég er í pössun hjá þeim að ég vakna fyrir allar aldir (6:15, ehemm). Pabbi sótti mig svo snemma á sunnudagsmorgun og við fórum í bakarí því Óðinn Bragi vinur minn var að fara að koma í heimsókn. Það var rosalega gaman að hitta hann og ég sýndi honum allt sem hægt er að fikta í heima hjá mér. Pabbi tók myndir af okkur prakkarast og það fannst okkur gaman (myndirnar koma fljótlega fyrir myndaóða).
Á mánudaginn átti mamma alvöruafmæli og þá var haldin grillveisla sem ég fékk að vera með í. Amma, afi, Balli, Valgeir, Lilja og Svala komu. Það er líka gaman þegar Svala kemur í heimsókn- hún nennir að leika svoldið við mig og passa mig. Annars þarf voða lítið að passa mig núna- finnst mér allavega. Ég er ofursjálfstæður þessa dagana og vil helst bara vera í friði að skoða mig um og leika og svoleiðis. Svo er ég byrjaður að æfa mig að ganga og er voða montinn þegar mamma eða pabbi leiða mig bara með annarri hendi! Svo kann ég að standa sjálfur í nokkrar sekúndur- ég er alveg hissa á því! Held að ég sé bara alveg að fara framúr mér í þroska núna- ég er svo hissa þegar ég get eitthvað svona fullorðinslegt! Ég tók meira að segja tvö skref til mömmu áðan án þess að ætla það! Allir urðu voða hissa á mér og ekki síst ég sjálfur. Þetta átti ég auðvitað að gera svo strax aftur en ég held ég bíði með það í nokkra daga.... þetta er svo stórt stökk...

Engin ummæli: