Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

16.7.05

Frekar rólegt...

Halló.
Það eru búnir að vera frekar rólegir dagar hjá mér núna. Pabbi er aftur byrjaður í vinnunni -ég er búinn að venjast því að hafa hann ekki heima á daginn núna en fyrst var ég alltaf að leita að honum og kalla á hann. Svo áttaði ég mig á því að hann var ekkert á svæðinu og þá var ekki til neins að vera alltaf að kalla...
Mamma er búin að vera dugleg að fara með mig í heimsókn til ömmu og afa því þar finnst mér svo gaman að vera. Þau eiga svo fínt dót handa mér og það er alveg meiriháttar að fá aðeins að breyta til. Nýjasta dótið er algjör töfrakassi! Maður setur peninga í raufar og ýtir á takka og þá hverfa þeir! Svo ýtir maður á annan takka og þá koma þeir rúllandi út- ekki á sama stað og þeir hurfu, heldur allt annars staðar! Þetta finnst mér sko merkilegt.
Við mamma fórum um daginn í Nauthólsvíkina og hittum Lilju ömmusyss og Svölu. Það var svo gott veður að ég fékk að leika mér í sandinum á táslunum og með sólgleraugu. Svo fékk ég meira að segja að vaða líka! Þetta var skemmtileg upplifun. Mér finnst svo gaman líka að leika við Svölu. Núna er hún í sumarfríi og við getum leikið og leikið allan daginn.
Svo er ég búinn að vera alveg óþekkjanlegur í röddinni. Læknirinn segir að ég sé með barkabólgu en ég er nú að lagast. Mér finnst ég frekar flottur með röddina svona því þá er ég eins og alvöru ljón þegar ég segi eins og ljónið og mamma verður svaka hrædd við mig hehe.
Jæja- vonandi fara nú að koma inn myndir af aðalstrumpinum- ég veit að einhverjir hafa verið að rukka;o)

Engin ummæli: