Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

20.2.07

Mikið að gera um helgina

Fór maður ekki í fyrsta skipti í leikhús um helgina! Það var æðislega gaman. Mömmu og pabba fannst mest gaman að horfa á mig horfa á Karíus og Baktus- skemmtilegra en að horfa á leikritið sjálft... skil það ekki. Það var nú flott hjá Berglindi að hafa samband við okkur og bjóða okkur með því þetta var æðislega gaman. Ég hef ekki talað um annað en Karíus og Baktus síðan á sunnudaginn og tók eftir alveg ótrúlegustu smáatriðum í leikritinu. Mamma var líka búin að undirbúa mig og leyfa mér að hlusta á kappana nokkrum sinnum áður en við fórum á sjálft leikritið þannig að ég gat alveg fylgst vel með því ég þekki lögin og textann. Núna finnst mér sniðugt að sitja með pabba eins og Karíus og Baktus gera- svona bak í bak. Svo finnst mér líka sniðugt að gera eins og Karíus- vera reiður og hoppa af reiði- og segi þá líka alltaf frá því að mér brá þegar hann gerði það ;o) Já, þetta var sko upplifun!
Sunna fékk ekki að koma með- Balli var að passa hana á meðan. Hún hefði líka bara orðið hrædd við lætin. Svo þegar leikritið var búið sóttum við Sunnu og fórum í bolluafmælisveislu til Erlu minnar. Þar var gaman að leika við Óðinn Braga. Ég á sko eftir að sakna hans þegar hann flytur til útlanda.

Á föstudagskvöldið komu Ásdís og Birkir að borða hjá okkur og ég var nú duglegri að leyfa þeim að leika með dótið mitt- var ekki eins stressaður í þetta skipti ;o) Svo fór ég eins og venjulega með afa í Haukahúsið á laugardaginn og prílaði og lék mér þar. Mamma, pabbi og Sunna komu svo að sækja mig til afa og ömmu. Þegar við komum heim fóru mamma og pabbi með mig í hjólatúr- ég hjólaði og þau löbbuðu og Sunna svaf í vagninum. Við fórum niður á læk að gefa öndunum brauð. Þær voru ekkert mjög svangar... en ég svekkti mig ekkert á því heldur hjólaði heim aftur með viðkomu í ísbúð og fékk trúðaís! Mmmmm.....

Núna er ég á leikskólanum allan daginn- pabbi fer með mig kl. 8 og klæðir mig í rauðu inniskóna og ég flýg inn á ungadeild. Mér finnst ég sko flottastur í þessum rauðu skóm. Svo koma mamma og Sunna að sækja mig kl.4 og þá keyri ég Sunnu mína heim í vagninum. Stundum kemur amma líka að sækja mig og þá verð ég svo glaður! Ömmu finnst líka svo gaman að sækja mig því henni finnst svo gaman að sjá hvað ég verð glaður;o)

Engin ummæli: