Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

19.4.11

af-SKAÐI

Dagný leikur mannasiðalöggu hér alla daga. Ef einhver ropar eða prumpar segir hún strax:"segðu AFSKAÐI!"
Ansi gott orð... og restin af fjölskyldunni farin að nota það í staðinn fyrir það gamla ;o)

Mælikvarði Dagnýjar

Dagný getur verið smá ákveðin. Hún gerir það sem hún ætlar sér að gera, hvað sem hver segir! Og uppáhalds setningin hennar þegar einhver reynir að skipta sér að: "þetta er allt í lagi. Það er enginn að grenja."
Þetta er svo lógískt... það er enginn að grenja... óþarfi að vera með eitthvað vesen..

6.2.11

Nýjar myndir

Pabbi er búinn að setja inn nýja myndir í nýtt albúm, þannig að allir viti nú af því ;)

19.1.11

Að drepa tímann...

Bjartur, Sunna og mamma að spjalla í eldhúsinu:
M:,,Nú er ég alltaf heima með Sindra."
S:,,Af hverju?"
M:,,Af því að Sindri er svo lítill. Hann má ekki fara á leikskóla strax".
S:,,Hvenær má hann byrja á leikskóla?"
M:,,Þegar hann verður eins árs þá förum við saman á leikskólann."
S:,,Hvenær verður hann eins árs?"
M:,,Þegar það kemur desember. Hann á afmæli 19. desember."
Sunna situr smástund hugsi...
Svo segir hún:,,Má ég sópa gólfið?"
Þá segir Bjartur:,,Sópa svo tíminn líði hraðar? Hahahahaha..."
Algjör brandarakall :o)

29.12.10

lítill harðstjóri

Dagný las yfir mömmu sinni:,,Þú mátt ekki segja nei. Það má ekki segja nei við mömmu sína! Það má ekki segja nei..." Þetta endurtók hún í sífellu. Mamman þagði bara og barðist við að halda niðrí sér hlátrinum. Þegar sú stutta var búin með reiðilesturinn sagði mamman við Helgömmu:,,Það er bara verið að taka mann á teppið."
Þá segir Dagný:,,Nei! ÉG tek teppið!" og tók teppi sem var í sófanum og henti því í gólfið...
Maður er ákveðin ung dama ;O)
(des 2010)

19.12.10

Fæðingarsaga Sindra

Ég var búin að vera með smá seyðing í bumbunni síðan um morguninn þennan fagra sunnudag. Orðin þreytt og spennt að ljúka þessu bara af, einn dagur í settan dag… jólin á næsta leiti og svona…

Mamma og pabbi kíktu í heimsókn rétt um 3 og við Logi ákváðum að nýta tækifærið og skjótast inná Hreiður til að láta að tékka á mér… Ég var alveg viss um að vera komin með einhverja útvíkkun. Bíðandi eftir einhverjum verkjum þó, því fæðing Dagnýjar var mér svo fersk í minni… þá var sóttin svo hörð.

Í bílnum flaug allt í einu í huga minn fæðingin hennar Sunnu. Hún var svona: Bara smá seyðingur og fyrr en varði var hún fædd!

Það voru vaktaskipti þegar við komum svo við biðum á ganginum sallaróleg. Hver kemur þá arkandi á vakt nema Annaljósa okkar! Það voru fagnaðarfundir. Hún sagðist auðvitað sjá um þetta allt saman og við færum ekki aftur heim nema með barnið í fanginu.

Hún tékkaði á útvíkkun og það var eins og okkur var farið að gruna. 7-8 cm og biðin okkar eftir fjórða molanum styttist. Enn voru þó engir verkir komnir og vildi Anna bíða eftir hríð til að hreyfa þá um leið við belgnum... eða hvað það var sem hún ætlaði, hún kann allavega sitt fag ;o). Ég fékk nefsprey… eitthvað sem átti að koma öllu betur í gang… en ekkert gerðist.

Þá fórum við inná fæðingarstofu, vatnið látið renna í baðið og nálastungur prófaðar. Þá fyrst fór mín að finna fyrir einhverju! Leit á klukkuna. 16:20. Vonandi verður barnið fætt um kvöldmatarleytið. Vildi komast sem fyrst ofan í vatnið en stoppaði stutt þar. Belgurinn var sprengdur og við það kom óvenju mikið blóð þannig að uppúr þurfti ég og um leið og ég stóð upp fann ég fyrir að barnið var að koma. Núna.

Náði þó að staulast í rúmið og hviss, bamm, búmm. Fæddur drengur kl. 16:51. 3475gr og 52 cm. Og enn langt í mat ;o)

Þetta gekk mjög hratt og hljóðlega fyrir sig. Í þetta sinn náði ég ekki einu sinni að fá glaðloft! Við segjum alltaf að Sindri hafi læðst í heiminn, þetta var svo átakalaust. Enda miklir reynsluboltar hér á ferð með frábæra ljósu!

9.12.10

Gömlu kellurnar

Heyrðist út úr herbergi þar sem stelpurnar voru með teboð handa dúkkum & böngsum:
Sunna: Þetta er alveg dásamlegt hjá okkur
Dagný: Já, svo sannarlega