Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

12.1.04

Reykjasvæla...

Var ekki farið með mig á kaffihús í gær...það sem kellingarnar hafa gaman að því að hittast og kjafta og kjafta og kjafta og...og ekki er hægt að hittast í heimahúsi...nei það væri allt of saumaklúbbslegt...og ekki vilja þær viðurkenna það. En það er nú eitt að lifa við stanslaust kjaftið í þeim, en að bæta tóbaksreyk kaffihússins ofan á það er ekkert sérlega skemmtilegt. Á meðan sat pabbi heima í tölvunni að skoða kvikmyndatökuvélar, en það er verið að undirbúa komu mína í heiminn og stórstjarnu eins og mig verður að mynda í bak og fyrir, enda er spurning hvort að ævisagan verði ekki gefin út fyrir 1 árs afmælið. Hún gæti borðið titilinn "Barn B&L" eða "Bloggari í maga mömmu" og undirtitillinn væri "Barnið sem gat ekki beðið eftir að komast út" eða "Hvort kynið er ég?". Aldrei að vita hvað maður tekur uppá í ellinni, þ.e. eftir um ár, þá gæti nú ævisagan litið dagsins ljós...en ætli það verði ekki lengra í skáldsöguna.
Ótengt þessu þá var rosalega gaman hjá mér í gær að skoða magann á mömmu, ég fór í heljarinn leiðangur í hægri hluta magans og tókst að koma mér fyrir þar, og þá var vinstri hlutinn alveg tómur, þannig að ég vildi nú ekki hafa hann útundan og fór fljótlega aftur til baka, en skemmtilegt ferðalag þrátt fyrir það...um að gera að nýta tímann á meðann plássið er nóg.

7.1.04

Læti í gær

Það voru nú meiri lætin fyrir utan hjá okkur í gær. Einhverjir nágrannar að skjóta upp flugeldum á þrettándanum í sundinu á milli blokkanna og það réð allt á reiðiskjálfi á meðan þessu stóð. Meira að segja ég fann fyrir titringnum í maganum á mömmu. Mamma var eitthvað lengi að sofna í gærkvöldi, fór og fékk sér heitt kakó um nóttina og ég þrufti nú ekkert á því að halda...mér var alveg nóg heitt í maganum undir sænginni...en ég fæ nú litu að ráða...enn!
Pabbi var ekkert betri, hann var að lesa einhverja ruglubók, Herra Alheim, það ætti nú ferkar að vera Herra Ég, en hann fór víst ekki að sofa fyrr en 3 í nótt og var svoldið eftir sig í morgun. Ég hafði það samt náðugt, enda er maður alveg búinn á því eftir öll spörkin þessa dagana.

30.12.03

Stór ég

Jæja, nú er ég nú farinn að stækka, um 12 sentimetrar ef mér reiknast rétt til, það er nú ekki amarlegt. Fórum saman á flugeldasýningu í gær, við fjölskyldan. Ég hafði nú takmarkað gaman að henni, þar sem ég sá ekkert, heyrði bara hvellina og fann dynkina. Verra fannst mér hvað er farið að kólna í veðri, nú verður farið að safna hitafitu til að verja mig. Annars var víst leiðindaveður í gær, mamma náði að skulta pabba í vinnuna og síðan var bara bylur og ófærð fram á seinnipart dags. Mamma var eitthvað að vesenast í ófærðinni en ég hafði það bara gott í mallanum hennar :)

25.12.03

Ekki pota í mig...

Hvað á þetta að þýða...fór með mömmu í bað í gær, hún þóttist nú vera að fara með mig í bað, en ég vildi fara í bað þannig að ég dró hana í bað...en við fórum s.s. í bað og þá potaði hún allt í einu í mig þegar ég lá þarna í mestu makindum...og auðvitað sparkaði ég til baka, en ég hefði betur sleppt því...þetta er ekkert smá mál að ég hafi loksins látið vita kröftulega af mér. Mamma sá þegar að ég sparkaði til baka og það er búið að vera aðal málið í gær og dag...þrátt fyrir að það sé aðfangadagur þá virðist ég vera mun áhugaverðara heldur en alltaf gjafirnar og maturinn...en foreldrar mínir hafa nú verið duglegir þar líka...pabba kann sér ekkert hóf þegar kemur að mat og étur alltaf á sig gat...þyrfti nú aðeins að taka hann í gegn, en hann hefur nú afsökun, hann er orðinn gamall :)

23.12.03

Meiri lætin í þessu fólki

Maður vaknar bara með hjartað í buxunum...eða ef ég ætti buxur meina ég, þú skilur. Ég var kominn í fastasvefn þegar að mamma byrjar að hlægja eins og herforingi í nótt, ég vissi ekki hvað þetta átti að taka langan tíma...síðan róaðist hún nú loksins...en þegar ég var að festa aftur dúr byrjuðu bara enn meiri læti í þeim...þessir foreldrar.

18.12.03

Eins gott að ég svaf mikið

Mamma er að fá vinkonurnar í heimsókn í kvöld sem þýðir að ég fæ ekki frið til að sofa fyrr en seint í kvöld. En mamma þurfti ekki að mæta fyrr en seint í dag þannig að ég fékk lengri nætursvefn en vanalega á virkum degi. Enda veitir ekki af því nú stendur mikið til á næsta ári, þá fara mamma og pabbi með mig í myndatöku þannig að þessa dagana er ég að vinna í því að snurfusa mig. Alltaf að æfa hendurnar svona að ég komi nú vel fram á mynd. Þannig að kvöldið verður tekið í æfingar á ýmsum atriðum, jafnvel ég æfi mig að borða og þarf að passa mig á þessum nöglum sem eru komnar á puttana.

15.12.03

Erfið nótt

Þessi nótt tók eitthvað mikið á, mamma er líka búin að vera á fullu alla helgina. Á föstudaginn var hún morðingi í moðingjapartý og það róaði hana nú ekki mikið. Ekki bætti úr skák að hún var ekki sátt við málefnalega umræðu pabba og fleiri síðar um kvöldið. Á laugardaginn var svo búðarráp og um kvöldið fórum við í Steinahlíðina þar sem það var strákapartý hjá pabba...hann þurfti eitthvað að ganga í barndóm með félögunum. Sunnudagurinn var letidagur að vanda, en nóttin var eitthvað óþægileg, það fór illa um okkur mömmu og ég var ekki alveg til í að fara á fætur í morgun, en lét til leiðast þegar mamma dröslaðist á lappir.