Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

22.10.11

Sunna sæta sól 5 ára skvísa

Við náðum ekki að vekja Sunnulinginn okkar á afmælisdaginn en náðum henni þó í rúminu. Þær systur höfðu sofið saman um nóttina í Sunnurúmi og vöknuðu saman og lágu bara og spjölluðu í rólegheitum þegar pabbi og Bjartur komu með pakkana og sungu afmælissönginn. Sindri og mamma slógust svo í hópinn þegar pakkarnir voru opnaðir. Skvísuföt frá mömmu og pabba og Strympubangsi frá Bjarti stórabróður. 

Svo var tekið til við að klæða þær systur og greiða. Sunna valdi sér afmælisföt fyrir leikskólann og skrípóstelpan vildi auðvitað líka fara fín í tilefni dagsins. Afmælisskvísan valdi að baka köku fyrir krakkana á deildinni og, gæðablóðið sem hún er, leyfði hún litlu systur sinni að taka þátt í öllu þessu með sér, sleikja sleikjuna og allt saman. Svo fékk hún glæsilega kórónu og afmælissöng, að sjálfsögðu. 
Þegar heim var komið opnaði hún pakka frá Dagný syss og svo var undirbúið pizzapartý fyrir ömmu&afa, Balla frænda og Valgeir&Þyrí. Í eftirrétt vildi hún bjóða uppá banana með bráðnuðu súkkulaði. En það gleymdist eiginlega að græja eftirréttinn því það var svo mikið að gera að föndra með föndurdótið og  gaman að hoppa og skoppa í náttfötunum sem amma&afi gáfu. Hann var þó afgreiddur með hraði eftir beiðni (og nokkur tár) afmælisbarnsins og fór okkar kona afar sátt í rúmið eftir æðislegan 5 ára afmælisdag.

Engin ummæli: