Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

3.4.07

Ýmislegt að gerast...

Þá er bara kominn apríl og þá fær mamman illt í hjartað! Í lok mánaðar, nánar tiltekið, 23. apríl er fæðingarorlofið búið. Það er að segja hjá mömmunni- pabbi á smá orlof eftir og hlakkar mikið til að vera heima hjá Sunnulingnum sínum. Vonandi verður tíminn fljótur að líða fram í sumarfrí hjá mömmu.... :o/

Sunna hefur tekið sprett síðustu daga! Hún stækkar og stækkar, enda farin að borða graut með alls kyns gúmmelaði útí tvisvar á dag. Svo er bara komin nótt hjá stelpunni klukkan 9 á kvöldin og hún sefur á sínu græna til morguns. Mömmu og pabba finnst skrítið að vera alltíeinu bara alveg í fríi á kvöldin.... enginn að hugsa um nema sjálfan sig. Sunna hefur nefnilega alltaf (í 5 mánuði hehe) verið í mesta stuðinu á kvöldin, aldrei sofnað fyrr en milli 11 og 12. En hún má eiga það, stelpan, að hún hefur bara næstum aldrei vaknað á nóttunni- ekki kölluð draumabarnið fyrir ekki neitt hehe. Bjartur bróðir svaf reyndar alltaf líka- drakk reyndar einu sinni svona undir morgun... Já við eigum svefnengla! Engar vökunætur á þessum bæ... nokkuð góð uppskrift á börnum sem við eigum hehehe.

Bjartur er ansi kátur þessa dagana. Alltaf að bæta í gullkornabankann.... verst að ef mamma og pabbi gleyma að skrifa þau strax niður þá gleymast mörg...
Amma og afi komu heim frá útlöndum um daginn með playmoþyrlu fyrir afastrákinn og spidermanbol og derhúfu. Okkar maður vissi ekki alveg hvernig hann átti að hemja sig í gleðinni! Hann er nefnilega búinn að hafa augun á þessari playmoþyrlu í góðan tíma og loksins eignaðist hann hana! Og svo er spiderman eitthvað það flottasta sem til er.
Amma var svo aðeins lengur í vetrarfríi og sótti strákinn sinn í leikskólann og fór með hann í blómabúðina að kaupa páskaskraut. Svo vildi Bjartur ekkert fara heim til mömmu og pabba... sagði:,,Mamma og pabbi og Sunna eru ekki heima". Amma sagði að þau væru nú alveg örugglega heima. Þá sagði kappinn:,,Já, en þau eru öll lasin". Og þá bráðnaði amma og leyfði honum að koma heim með sér. Afi skutlaði honum svo seinna heim og þá varð Sunna glöð. Já, hún er sko alveg farin að taka eftir því ef Bjartur stóri bróðir er ekki heima!

Helgamma kom í stutta heimsókn til okkar og þá var nú ýmislegt brallað- farið í sund og út að hjóla og mikið leikið. Svo var mikil sorg að horfa á eftir henni í flugvélina! En nú eru bara nokkrir dagar í að Bjartur fari á Seyðis til Helgömmu og hann er búinn að ákveða hvað verður það fyrsta sem hann gerir þegar hann kemur í afahús: leika með pottana! Fastir liðir....

Síðustu helgi fórum við öll í Húsdýragarðinn með Óðni Braga og fjölskyldu. Þetta var svona kveðjuatburður því nú er Óðinn Bragi fluttur til Svíþjóðar :o( Það var æðislega gaman í garðinum og Bjartur er spenntur að fara þegar það verður komið sumar- og þá verður kannski Sunna vakandi. Frekar mikil sóun að sofa allan tímann í Húsdýragarðinum! Hún missti af því þegar kýrin pissaði og kúkaði á gólfið! og sá ekki allar duddurnar sem krakkar eru búnir að gefa dýrunum.... Já vinirnir skemmtu sér konunglega saman! Vonandi komast myndir af þessu öllu saman fljótlega á myndasíðuna... Svo er pabbi búinn að bóka flug til Gautaborgar í byrjun júlí. Þá verða sko skemmtilegir endurfundir!

jæja, látum þetta duga í bili... vonandi koma fleiri myndir fljótlega ;o)

Engin ummæli: