Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

7.9.08

Í berjamó á Seyðis

Við systkinin fórum til Seyðisfjarðar með pabba að hitta Helguömmu og alla sem eru fyrir austan. Mamma keyrði okkur út á flugvöll á fimmtudaginn og var svo ein heima að hvíla sig með litlu stelpuna í maganum. Bjartur var nú ekki alveg á því að vera mömmulaus yfir helgina en hugsaði líka að það væri gaman að hitta hana aftur á sunnudaginn. Flugferðin gekk bara nokkuð vel og Bragi & Helgamma sóttu okkur uppá Egilsstaði. Við kíktum í heimsókn til Dags og hittum Sól og lékum góða stund á trampólíninu áður en við héldum niðrá Seyðisfjörð. Sunna svaf sínu værasta á leiðinni enda ekki búin að sofa neitt allan daginn fyrir utan smá lúr rétt áður en við lentum. Alltaf gaman að komast á Múlaveginn og leika í öllu dótinu =)

Á föstudeginum fórum við í heimsókn á leikskólann á Seyðisfirði og Bjartur fór beint að leika við Ara Björn út um allan skólann. Síðan var farið heim og Sunna lagði sig yfir skrípó. Helgamma tók fram Radio Flyer kerruna og í honum fórum við saman í apótekið þar sem hún vinnur. Þar fengum við endurskynsmerki á töskurnar sem hún var búin að gefa okkur. Sunna fékk líka spennur og teygjur, en þurfti nú að halda aðeins aftur af sér því hana langaði í allt dótið sem til var í hárið =) Við héldum svo förinni áfram og fórum í búð og komum svo við á nýja stóra leikvellinum á bakvið sundlaugina og vorum þar drykklanga stund og heldum svo heim á Múlaveginn.

Laugardaginn voru allir komnir snemma á fætur að vanda og allir komnir í föt og tilbúin í verk dagsins snemma morguns. Við heimsóttum Ara Björn og fjölskyldu um morguninn og fengum hádegismat hjá þeim. Bjartur og Ari Björn duttu alveg í leik gírinn eins og á leikskólanum daginn áður. Síðan var farið út og leikið í garðinum að baka drullumall í vatni í hjólbörunum og rólað. Síðan fékk litla prinsessan loksins að fara heim og leggja sig aðeins. Á meðan fór Bjartur, pabbi, Helgamma, Dagur og Sól uppí Sesselíulund og tóku nokkrar myndir. Þegar við komum heim vaknaði Sunna um leið og þá var haldið í berjamó undir Hátúni. Borgarstelpan hún Sunna var nú ekkert alveg á því að sitja í grasinu og tína uppí sig. Pabbi reyndi að gefa henni bláber en þau fengu að fljúga út aftur um leið og fengu auk þess heitið drasl. En krækiberin datt hún í og var hin sáttasta. Svo þegar allt fór að verða tómt í kringum hana var hún færð til um nokkra sentimetra þar sem allt var krökkt af berjum og þá sat hún sínu fastasta og hámaði. Bjartur hoppaði og skoppaði út um allt, alveg þangað til hann datt með fæturna tvisvar ofan í læk, þá var gamanið búið hjá honum. Eftir berjamó var dýrindis læri á boðstólum og gengu allir sáttir frá þeirri máltíð.

Sunnudagurinn var tekinn í ró á Múlaveginum fram eftir morgni. Fórum aftur á leikvöllinn og hittum Ara Björn og Huga Rafn sem voru að viðra pabba sinn. Vorum þar heillengi þ.s. Sunna fékk endalaust magn af súkkulaði frá Helgömmu og kom það í stað hádegisverðar hjá prinsessunni. Síðan keyrði Helgamma okkur uppá Egilsstaði þ.s. við fórum í lummur til Dags & Ingu. Þar æddum við fram og aftur um garðinn í dýrindis veðri og borðuðum öll ber og grænmeti sem við komumst yfir og var af nógu af taka hjá þeim. Pabbi var afskaplega hrifin af sólberjunum sem við fengum hjá þeim á Sólvöllunum og haft var orð á því að svona góð sólber hefði enginn fengið hér á landi áður. Þegar vel hafði verið hoppað á trampólíninu kvöddum Sól og foreldra og keyrðum á flugvöllinn. Þegar kom að því að kveðja Helgömmu var Bjartur alveg miður sín og litla hjartað brast, en hann herti sig upp og reyndi að gleyma sorginni og kvöddum við Helgu og þökkuðum fyrir yndislega helgi.

Þegar heim var komið vorum við afskaplega glöð að sjá mömmuna okkar aftur og hún líka að sjá okkur og knúsa =)

Engin ummæli: