Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

27.1.09

Langur vinnudagur

Mamma:,,Bjartur? Geturðu farið undir borðið og náð í þennan lit þarna?"
Bjartur:,,Nei."
Mamma:,,Ha? Afhverju ekki?"
Bjartur:,,Maður getur ekkert verið að beygja sig svona mikið -nýkominn heim úr leikskólanum!"

Veikindi

Nú stöndum við í veikindabasli. Foreldrarnir nýstignir uppúr viðbjóðs magapest og krakkarnir allir með hósta og hor. Enginn hefur enn fengið hita nema Dagný litla, en hann er ekki hár.
Bjartur hefur hingað til ekki verið til í að snýta sér þegar hann hefur fengið kvef. Sýgur og sýgur upp í nefið tyggjóþykkt eiturgrænt hor (nú fær amman velgju hehe). Hann eignaðist svo nýlega horbókina sem er sko bók að hans skapi. Nógu mikið af fræðslu og útskýringum og flipum til að lyfta og toga í og svoleiðis. Eftir að hafa lesið þessa bók vill hann snýta. En hann er eins og amma hans- getur ekki gert það sjálfur og berst við æluna meðan á snýtingunni stendur (amma getur nú samt snýtt sér sjálf).
Sunna ofursjálfstæða snýtir sér hins vegar sjálf og má helst enginn koma nálægt hennar litla nefi. Dagný fær suguna.

Já, ekki hefur mikið merkilegt gerst þessa veikindadaga...en samt alltaf nóg að gera einhvern veginn. Alltaf stuð á þessum bæ ;o)

16.1.09

Mælingar

Dagný er víst orðin 3 mánaða. Í því tilefni fékk hún sprautu í litla lærið í gær. Svo var hún auðvitað vigtuð og mæld á alla kanta. Hún dafnar bara vel og mælist áfram nokkrum millimetrum minni en systir hennar var á sama tíma og líka nokkur hundruð grömmum þyngri. Litla daman var svo á flakki í allan gærdag. Bjartur fór til augnlæknis, Logi í blóðbankann og Sunna sótt og brunað í heimsók til ömmu og afa. Þetta var of mikið fyrir litla og væra manneskju. Hún grenjaði!! Foreldrarnir vita varla hvernig á að sinna henni þegar hún grenjar. Þegar við komum heim um 6 leitið sofnaði hún fljótlega og hefur sofið síðan. Vaknar auðvitað til að drekka en hún er nú að jafna sig á þessu óvænta aukaálagi.

Bjartur fór semsagt til augnlæknis. Það er nú heljarinnar prógramm. Fyrst þarf hann að fá skoðun með gleraugunum, svo fær hann dropa í bæði augun, bíða smástund, aftur dropa, bíða smá stund og loks skoðar augnlæknirinn augun með því að lýsa í gegnum allskonar gler. Litli spekingurinn er furðu þolinmóður við þetta allt saman enda nóg að spyrja að og svona. Alltaf að spá og spekúlera.
En þetta er ekki búið. Við þurftum að mæta svo aftur tveimur dögum seinna. Þá fékk hann svaka gleraugnapakka á nefið með nýja styrkleikanum og átti að leika sér aðeins. Svo var aftur sjónpróf og allskonar test. Niðurstaðan er: Verri sjón en í fyrra. Okkur skilst að það sé ekkert óalgengt á þessum aldri og eigum að gleðjast yfir því að munurinn á milli augnanna er að minnka. Vinstra augað er sem sagt að fá séns miðað við þessar mælingar.

Augnlæknirinn bendir svo á Dagnýju og segist vilja fá að skoða hana með tímanum. Já ok.... En hvað með Sunnu? Hann gerði nú ekki ráð fyrir einu barni þarna á milli en jú, hann vill fá að skoða hana. Við eigum tíma í byrjun feb. Það verður sko gaman að sjá hann díla við Sunnu sætu sól!! Hún verður ekki gáfuleg með gleraugu: Hún er með svo lítið nef að hún skýtur alltaf hökunni fram þegar hún er með sólgleraugu. Þannig að ef hún þarf gleraugu þróar hún með sér skúffu....

Lífið

Ef maður er stelpa og teiknar stráka þá breytist maður í strák. Af hverju? Þannig er lífið. (Bjartur)

3.1.09

Gleðilegt ár allir..

og takk fyrir allt gamalt og gott.

Við erum búin að hafa það svo gott. Öll saman í fríi. Bjartur og Sunna kunna reyndar ekkert að vera saman allan daginn...Það er strítt og öskrað. Þið vitið hver það er sem stríðir og hver öskrar (þannig að það hristast glerin). Við erum alltaf að segja þeim að TALA saman og það er að ná í gegn núna þegar jólafríið er að verða búið... Dagný tekur þessu öllu með einstakri ró.

Jólin voru ekki hefðbundin hjá okkur. Við vorum heima hjá okkur í fyrsta skipti! Það var bara æðislega huggulegt. Fórum eins og venjulega til ömmu og afa í jólakakó á aðfangadagsmorgun. Vorum með möndlugrautinn í hádeginu. Skiptumst svo á pökkum við allt pakkið. Fórum svo heim um 3 til að gera allt og alla reddí áður en klukkan sló sex. Á MÍNÚTUNNI sex var allt tilbúið. Ég er ekki að grínast. Maturinn kominn á borðið, einn, tveir, þrír krakkar komnir í jólafötin og mamman og pabbinn líka. Hlustuðum á jólin hringja inn, smelltum af fjölskyldumynd og settumst til að raða í okkur kræsingum, búin að kveikja á kertum og allt!

Síðan var náttúrulega ráðist á pakkafjallið. Gamla settið og bræðurnir komu svo í eftirrétt. Krakkarnir háttaðir og svifið inní jólanóttina.
Á jóladag var varla farið úr náttfötunum.
Á annan var árlegt jólaboð hjá ömmu og afa. Stelpur og strákar háðu Trivial baráttu. Karlarnir unnu.... með svindli- þeir voru fleiri;o)
Hallur afi og Sæunn amma komu í hamborgarhrygg á laugardeginum, amma og afi í afgangana af því á sunnudeginum (hehe). Á mánudag fórum við Bjartur á geðveika flugeldasýningu. Þriðjudagur leið einhvernveginn.... svo var alltíeinu kominn gamlársdagur!

Við vorum hjá Möllu og Þresti og familí á gamlárskvöld. Líka amma, afi, Balli, Valgeir, langafi, Lilja og dætur. Þvílíkt góður matur og skemmtilegt fólk auðvitað. Það voru mjög þreyttir krakkar sem komu heim þá nótt, nema Dagný.

Á nýárskvöld spiluðum við við Berglindi og Nonna og strákarnir þeirra æfðu stórubræðrataktana. Styttist í litlu skottuna þeirra!

Í kvöld var gerð tilraun til að snúa sólarhringnum við hjá krökkunum. Það gekk vonum framar! Þetta eru svo stillt börn:o)
Á morgun förum við krakkarnir á síðasta jólaballið. Pabbinn ætlar þá að stelast til að taka jólatréð niður... Til að hlífa ofurtilfinninganæma syninum. Það má aldrei henda neinu, setja í geymslu eða gefa. Þá byrja tárin að streyma.

Að lokum: Það eru komin 3 ný albúm.

Hilsen