Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

10.12.09

Peningana undir koddann?

Bjartur á nokkra tíkalla og krónur í bauk. Hann er oft að telja þessa aura sína og átta sig á hvernig þetta er allt saman upp byggt... Baukurinn hefur átt sinn heiðursess efst á bókahillunni inní herbergi krakkanna, nema nú þegar við skreyttum fyrir jólin var hann færður í gluggakistuna svo að pláss væri fyrir Maríu mey með Jesúbarnið og Jósep á bókahillunni.
Okkar maður er oft leeeeeengi að sofna, hann pælir og pælir og hugsar og hugsar. En í kvöld var hann áhyggjufullur. Svo áhyggjufullur að hann var í vandræðum með að halda aftur af tárunum... "Mamma. Gardínan hreyfist alltaf til því glugginn er opinn. Þá held ég að steluþjófar séu að reyna að komast inn og stela peningunum mínum".
Já, það er erfitt að vera ríkur ... og ýmislegt reynt til að fá athygli fyrir svefninn ;0)

5.12.09

Þungur magi

Sunna hélt um magann á sér þegar var verið að tannbursta hana í kvöld og sagði
Ég er með þungan maga
Enda var hún búin að borða vel um kvöldið og fylla vel ofaná með ís =)

3.12.09

Bið sem styttist ei neitt... en nóg að gera samt

Jæja, okkur gengur nú vel í jólaösinni. Búin að fara að sjá Bjart og hina álfana syngja í helkulda. Bjartur kom í Fjarðarpóstinum og allt ;o)
Svo fórum við að sjá Söngvaseið sem var alveg æðislegt og gaman að fara með Herra spurulum :0)
Í dag fóru krakkarnir og skreyttu jólatré í Jólaþorpinu, á morgun er rauður dagur í leikskólanum og þau mega koma með jólasveinahúfur líka. Sunna fer í leikhús að sjá Maríuhænuna með hópnum sínum og á laugardaginn fær hún að sjá hana aftur með okkur fjölskyldunni! Þvílík tilviljun.

Allt er orðið jólaskreytt hérna hjá okkur, komin aðventuljós og stjörnur í glugga. Jólastelpan gamla komin á sinn stað með snjókarlinum syngjandi sem Sunna var sjúklega hrædd við í fyrra. Hún er nú ekki vitund hrædd við hann núna en það sem Bjartur gat strítt henni á þessu. Hann reyndi líka núna en stelpan er orðin svo stór og hugrökk... Dagný er ekki heldur hrædd.. en samt ekki alveg sama heldur... Alltaf þegar hann fer í gang rekur hún tunguna út úr sér og sveiflar henni til hliðanna. Það er ekkert smá fyndið!

Svo eru dagarnir taldir... Það er talið að jólum með jóladagatalinu sem krakkarnir fengu. Það er talið að því þegar jólasveinarnir koma til byggða með jólasveinabók sem Bjartur fékk. Það er talið að Seyðis og að lokum talið að afmælinu hans Binna sem er á gamlársdag.... Þetta er endalaus bið hehehehe

25.11.09

Mikið að gera

Nú strax fyrsta í aðventu byrjar fjörið og hættir ekki fyrr en á nýju ári barasta! Það er engin smá dagskrá framundan hjá fjölskyldunni.... varla tími til að skreyta í rólegheitum en við ætlum nú að setja okkur það markmið að reyna að anda rólega fram að jólum.

Næsta laugardag syngur Bjartur ásamt álfunum á Víðivöllum niðrá smábátahöfn þegar kveikt verður á jólatrénu.
Svo daginn eftir förum við Bjartur með Lilju og Svölu að sjá Söngvaseið. Ekki nóg með það... þá er Hallur afi er búinn að gefa okkur miða á 3 sýningar í leikhúsið! Við förum að sjá Sindra silfurfisk, Maríuhænuna og Leitin að jólunum. Geri aðrir betur hehehe.

Einhvers staðar á milli leiksýninga á að baka, skreyta, pakka inn gjöfum, fara í jólamat, á jólatónleika, fara í jólaþorpið, hitta góða vini, skrifa jólakort, pabbinn að spila og mamman að túttast með vinkonum, kaupa jólatré snemma því strax eftir jólin heldur fjörið áfram á Seyðis! Þar verða önnur jól því það á ekki að senda neina pakka á milli með pósti... bara afhenda þá í eigin persónu. Svo er brúðkaup og áramót!!!

Það verður forvitnilegt að vita hvort þetta standist allt saman ;0) Læt ykkur vita hvernig gengur hehehehe...

24.11.09

Lykt af snjókomu

"Pabbi, finnurðu lyktina af snjónum, það mun koma snjór í dag." sagði Bjartur í morgun á leiðinni í leikskólann. Hann var alveg klár á því að "lyktin" af kuldanum þýddi að það myndi snjóa í dag.

17.11.09

Langt prump?

Þeir sem þekkja Bjart vita að hann getur verið svoldið lengi að hlutunum.... Okkar maður var að fara að sofa og tók sinn tíma í að leggjast á koddann....
Mamma:,,Leggstu niður svo ég geti breitt yfir þig Herra Lengi."
Bjartur:,,Af hverju Herra Lengi?" (kom alveg af fjöllum sko).
M:,,Bara... af því þú ert svo lengi að öllu".
B:,,Nei! Ég er ekki lengi að prumpa!"
Hahahahaha....

12.11.09

Og veikindin halda áfram....

Já, við vissum það svo sem. Biðum bara eftir að næsti grís veiktist og sá grís er Sunna. Þetta er nú ekkert alvarlegt. Smá hiti og killer lykt útúr henni. Sem segir manni að hún sé með hálsbólgu. Dagný er alsæl með að hafa hana heima, loksins einhver annar en mamma til að leika við á daginn.
Verst er að Sunna er búin að vera í smá fitun. Fær sérmeðferð á leikskólanum: Smjörva í stað Létt og laggotts, nýmjólk í stað léttmjólkur...bara nákvæmlega sama og hér heima. Hún var orðin svo fín stelpan en nú fer eitthvað lítið fyrir matarlyst. En gott að hafa forða... þetta eru nú meiri áhyggjurnar! Það er gott að maður er bara með áhyggjur af smámunum- ég segi ekki annað. Hún er bara svo mikil písl.
Maður gerir ekki annað en að bjóða henni hitt og þetta. En hún vill sem minnst borða og biður svo um mömmuknús.

Annars vex spennan fyrir jólunum og aðallega Bjartur aðeins farinn að pæla í gjöfum og svona. Farinn að rukka um jólaljós og skraut. Það kemur víst að þessu öllu saman áður en maður veit af!

9.11.09

Áframhaldandi veikindi

Dagný tók við veikindunum af Bjarti... varð bara miklu veikari. Var með 40 stiga hita í þrjá daga. Svo alltíeinu jafnaði hún sig og er aftur orðin hún sjálf. Brosandi og skemmtileg.
Mamman á bænum tók svo við. En bara í 2 daga. Með eyrnabólgu eins og krakkaskítur og hálsbólgu dauðans! Sem betur fer er hún þó að skríða saman núna enda enginn tími fyrir svona vitleysu. Alltaf nóg að gera hér á bæ.
Sunna og pabbinn eru þó eftir í þessari veikindahrinu en vonandi sleppa þau. Mímir (jurtate úr jurtaapótekinu) er orðinn besti vinur okkar hérna og heldur í okkur lífinu.

Í gær var víst feðradagurinn. Hann fór nokkurnveginn framhjá okkur í þessum veikindum. Við náðum þó að elda góðan mat og hafa sjeik í eftirrétt. Krakkarnir þurftu bæði að hringja svo í afa og bjóða honum í morgunmat á leikskólann í tilefni af feðradeginum. Og samt var búið að nefna það nokkrum sinnum við hann áður sko... Ef hann hefði svo endað á að klikka á að mæta hefðum við haldið að það væri bara eitthvað að hausnum hans! hehehehe Nei, nei hann mætti sko hress hingað í morgun og labbaði með liðinu útá leikskóla (pabba var auðvitað líka boðið í morgunmatinn). Dagný og mamman vinkuðu af svölunum eins og vanalega. Það kemur að okkur seinna þegar mæðradagurinn er. Þá er okkur boðið í morgunmat ásamt ömmu.

29.10.09

The olden days

Bjartur er nú búinn að vera veikur í nokkra daga... eða nætur eiginlega. Hann er úber hress á daginn, slappast á kvöldin og heitastur á nóttunni. Þannig að mamman (og pabbinn eitthvað líka) er búin að vera sveitt að hafa ofanaf fyrir litla spekingnum... Kubba, teikna, leika alls kyns leiki eftir óskiljanlegum reglum Bjarts og síðast en ekki síst horfa á dvd myndir frá því hann sjálfur var nýfæddur og kjút. "Með lítinn bibba", eins og hann segir sjálfur.

Þegar amma og afi hittu litla manninn í fyrsta skipti var það auðvitað fest á "filmu" og haft með í dvd-myndinni. Þegar hann horfði á það atriði varð hann svaka hissa á því að amma og afi litu nú bara svipað út þá og þau gera í dag, heilum 5 árum síðar... svo kom gullkornið:"Vá! Það er styttra í gamla daga en ég hélt! Amma og afi voru til í gamla daga.....og samt eru þau ekkert svo gömul!

25.10.09

Góður sunnudagur

Þessi helgi var spileríhelgi hjá pabbanum á bænum. Best finnst okkur krökkunum að fara þá á morgnana eitthvað í heimsókn og vera aðeins framyfir hádegi svo hann fái frið til að sofa gamli kallinn.

Laugardagurinn hófst á dansæfingu hjá Sunnu. Svo var komið heim og klárað að klæða restina af krökkunum og allir drifnir í heimsókn til Emils Gauta og Gústafs Bjarna. Þar var leikið og leikið... nema Sunna sofnaði í sófanum og Dagný var sett útí vagn fyrir lúr nr.2 þann daginn. Þegar við komum svo heim kúrðu Bjartur og mamman yfir einni Mikka mús mynd og svo var strollan klædd aftur og í matarboð til ömmu og afa. Þar var á borðum dýrindis hreindýrabollur og allt tilheyrandi. Bjartur át manna mest enda kjötbollur uppáhaldsmaturinn hans. Auðvitað fékk svo prinsinn að vera eftir hjá ömmu og afa í dekri og bara tvær prinsessur sem fóru að sofa hér heima það kvöldið.

Í dag, sunnudag, biðum við eftir að Dagný kláraði morgunlúrinn svo við gætum farið að sækja Bjart. Hún svaf þá alla leið til hádegis, bara svona af því að maður var að bíða ;o)
En þegar hún vaknaði drifum við stelpurnar okkur til ömmu og afa að sækja drenginn. Eftir nokkrar skálar af CoCo puffs gátum við drifið okkur aftur heim að leika. Enduðum svo á því að baka tvöfalda uppskrift af amerískum pönnukökum og þær étnar jafnóðum með vel af sýrópi.... eða sí-rop (eins og að ropa) eins og Bjartur segir.
Svo er búið að mála, lita og teikna gommu af listaverkum og leika heilu ævintýrin með Músahúsið.

21.10.09

Sunna 3 ára

Það var svo gaman hérna eldsnemma í morgun! Okkur tókst nú ekki að vekja afmælisbarnið- hún vaknaði sjálf við umganginn í pabba og Bjarti þegar þeir voru að ná í afmælisgjöfina hennar. Gjöfin var auðvitað rifin upp og allir krakkarnir þvílíkt spenntir yfir henni. Það sem leyndist í pakkanum var Músahús Mikka og allar fígúrurnar (Mikki mús, Minna mús, Guffi, Andrésína, Andrés, Dúlli, Hjálparhöndin og Plútó).

Þið getið alveg ímyndað ykkur hvernig það var svo að klæða liðið og reyna að fá þau til að fara í leikskólann! En, jújú. Það hafðist að lokum. Sunna auðvitað spennt að mæta í kjól og fín og fá kórónu og baka köku. Bjartur fór með bindi í tilefni dagsins.

Í kvöld verður boðið uppá uppáhaldsmatinn hennar Sunnu, sem er pasta og hvítlauksbrauð. Svo verður auðvitað fondue í eftirrétt.

12.10.09

Afmæli, afmæli

Þá er Dagný okkar orðin 1 árs. Það er alveg ótrúlegt hvað þetta ár er búið að líða hratt! Þegar hún kom í heiminn vorum við búin að búa okkur undir að það yrði sko meira en nóg að gera og héldum að við gætum bara varla ráðið við þetta allt saman. En þessi stelpa er eitt það rólegasta barn sem við vitum um... Alltaf eins og ljós, enda kannski ekki annað hægt með tvö ung eldri systkini... Svo er hún alltaf með bros á vör og hvers manns hugljúfi.

Hún var sko flott á afmælisdaginn. Labbaði alveg úr eldhúsinu og inní hol (svaka vegalengd sko, hehe) Hún er nú búin að vera að dunda sér við það að labba svona síðustu daga og alltaf sleppt sér meira og meira, en þegar maður er orðin eins árs þá er ekki hægt að vera eitthvað að passa sig of mikið. Og núna röltir skvísan bara um glöð og ánægð með sig. Verður ábyggilega fljót að fara að hlaupa bara.... svona til að geta verið með krökkunum.

Eitthvað vorum við foreldrarnir í vandræðum með hvað ætti að gefa litlu dömunni í afmælisgjöf en það vandamál er nú leyst. Stelpan verður að eiga dúkkukerru eins og stóra systir fyrir dúkkuna sem Helgamma gaf henni. Þá verður sko hægt að fara í göngutúr!

Dúkkan fékk nafnið Ella um leið og Dagný sá hana. Hún var að heilsa henni og sagði "halló" á sínu barnamáli. Stóru krakkarnir tóku því strax sem að Dagný vissi hvað þessi dúkka héti, og hún héti Ella. Svo núna segir Dagný alltaf Ella, Ella við dúkkuna en enginn veit hvort hún er að heilsa eða hvað?? Hehehehe...

Svo styttist nú í að Sunnasól eigi alvöruafmæli þó svo að búið sé að halda veisluna... En hún fær að halda aftur afmæli hér heima með okkur, fær pakka frá fjölskyldunni og svona og svo auðvitað afmælisdag í leikskólanum. Það er nú meira sportið og svo æðislegt að sjá montnu afmæliskrakkana eiga sinn dag á leikskólanum sínum, með kórónu og allt... svona aðalnúmerið í einn dag ;o) Það á nú vel við hana Sunnu.

Það koma vonandi fljótlega inn myndir úr afmælinu.. Pabbinn sló persónulegt met í myndatökum því það þurfti að taka svo margar myndir til að við gætum almennilega fylgst með (svona eftirá) hver gaf hvaða systur hvað....

27.9.09

Heilabrot

Pabbi og Bjartur voru að spekingast inní eldhúsi eitt kvöldið.
Pabbi:,,Bjartur, hvað verður Sunna gömul þegar Dagný verður 5 ára?"
Bjartur hugsar sig um.....
Pabbi:,,Manstu, Sunna er tveimur árum eldri en Dagný."
Bjartur:,,já....7ára?"
Pabbi:,,Já. En hvað verður þú þá gamall?"
B:,,9 ára."
Hugsar sig svo um stutta stund....
,,Þá verð ég búin að eiga hamstur í eitt ár."
Hann ætlar ekki að sleppa þessu drengurinn!
(Bjartur 5 ára, sept 2009)

Að ferðast í sápukúlu??

Mamman ákvað að fara í göngutúr til Möllu með krakkana svo pabbinn gæti sofið eftir spilerí um nóttina. Allir voru að gera sig reddý, klæða sig og svona... og finna sápukúlur sem Sunna vildi endilega fara með.
Bjartur ætlaði að hjóla, Dagný í kerrunni en hvað með Sunnu?
Mamma:,,Sunna ætlar þú að hjóla?"
Sunna:,,Nei..."
M:,,Ætlarðu að labba?"
S:,,Nei..."
M:,,Nú, hvað þá?"
S:,,Ég ætla að sápukúlast..."
(Sunna alveg að verða 3 ára sept. 20009)

22.9.09

Ljósir lokkar og bleikir lokkar

Það hefur nokkuð lengi verið á dagskrá að setja göt í eyrun hennar Sunnu... Gerðum eina tilraun í skartgripabúð hérna í Hafnarfirði þar sem okkur var neitað um þjónustu.

Í dag fórum við svo inní Smáralind í Mebu og fengum þessa fínu, bleiku lokka! Sunna var sjálf harðákveðin í að vilja fá göt (reyndar segir hún að þetta séu ekki göt í eyrunum, heldur eyrnalokkar í eyrunum!) og var alveg sama hvað mamman sagði. Reyndi að útskýra að þetta væri svoldið vont en þegar mín var búin að velja þessa bleiku (mánaðarsteinn október) var ekki aftur snúið. Eyrnasneplarnir voru sótthreinsaðir vel, tússað á þá og svo var skotið! Bæði eyrun í einu. Það komu nokkur tár sem hurfu um leið og hún skoðaði sig í speglinum. Það sem henni finnst hún flott núna!

Um leið og við komum heim kom Bjartur hlaupandi fram á gang og spurði:,,Hvað kom mikið blóð?!" hehehehe þessir gaurar!

14.9.09

Æfingar

Þá er Sunnasól búin að fara í fyrsta ballerínutímann. Þvílíku dúllurnar sko! Hún var auðvitað langflottust og með þeim efnilegri í hópnum. Þarna á mín sko heima. Nú þurfum við bara að redda almennilegu æfingadressi á skvísuna.... Mamman er að vinna í þeim málum ásamt Helgömmu.

Bjartur er líka búinn að fara nokkur skipti í Boltaskóla Haukanna og gengur þessvegna ekki á jörðinni lengur. Honum finnst hann svo flottur að vera orðinn svona æfingagæi að fæturnir snerta ekki jörðina. Hann er líka ótrúlega flottur og gerir allt eins og þjálfarinn segir, mjög einbeittur á svip.

Dagný er að æfa sig í frekjunni ;o) En mamman er með hana í hlýðnibúðum. Hún er orðin uppátækjasöm stelpan... Fer í moldina í blómapottinum inní stofu, tæmir klósettrúlluna inná baði og fiktar í tækjunum inní holi. Hún er svo fyndin með gribbustælana sína... þykist ráða öllu og er mesta krútt fyrir vikið...

Þannig að eins og sést er nóg að gera hjá öllum. Pabbinn búinn að vera sveittur líka að setja inn myndir- komin nokkur ný albúm.
Njótið

30.8.09

Spilagaldur, Sápukúlur og Stökkull

Þá erum við aftur komin heim frá Seyðis. Þessi ferð var alveg æææðisleg og spilaði mikið inní að við fórum fljúgandi ;o) En á móti kom að við vorum ekki með bílinn okkar og þess vegna héngum við sem mest bara á Múlaveginum, sem var sko ekki slæmt, og svo þurfti tvo bíla til að sækja okkur. En það var nú lítið mál! Helgamma, Bragi og Rakel biðu eftir okkur þegar við lentum og svo var raðað í bíla og beint í heimsókn til Dags og Ingu að skoða kanínurnar. Svo eftir mjöööög góða Bónusferð var brunað yfir á Seyðis og hreyfðum við okkur varla þaðan.
Mamman og pabbinn fengu að fara í bíó meðan Helgamma passaði. Já, það er bíó á Seyðis, látið ekki svona. Þetta er ekki algjört krummaskuð ;o) Og svo var glæsilegt matarboð hjá Ástu og Símoni og strákunum, kíkt á róló, berjamó og í sund, farið í menningarferð í Skaftfell og í Geirahús .... Alltaf nóg að gera á Seyðisfirði.
Ein af ástæðunum fyrir þessari ferð var að Jóhann og co komu til landsins og þvílíkt stuð. Held að það hafi aldrei verið farið í jafn æsilegan eltingarleik eða borðað jafn mikið af amerískum pönnsum áður ;o) Tala nú ekki um sápukúlublástur!! Sunna setti persónulegt met og fór létt með að smita frá sér áhuganum. Bjartur lærði spilagaldur af Sól frænku og gerði okkur ekkert gráhærð með honum, nei, nei...hehehe. Dagný átti sér eitt markmið daglega. Það var að hrella köttinn. Aumingja Stökkull mátti þola ýmislegt frá henni, m.a. veiðháratog og eyrnaklíp en hann var orðinn ansi góður í að forðast hana í lokin ;o)
Veðrið var nú ekki sem best (eins og svo oft áður þegar við erum þarna) og haustið komið fyrir víst þarna fyrir austan.
En, eins og Helgamma segir, þá erum við ekki að heimsækja veðrið ;o)

17.8.09

Bjartur að horfa á So you think you can dance.

Pælir mikið í því af hverju dómararnir og keppendur eru ekki alltaf í sömu fötunum...
Bjartur: Af hverju eru þau alltaf í nýjum fötum?
Mamma: Af því þau skipta alltaf um föt. Þetta eru eins og búningar.
B: Já en dómararnir eru líka oft í nýjum fötum.
M: Já. Þetta er ekki allt sama kvöldið. Þau skipta um föt af því að það er kominn annar dagur.
B: En Dóra (landkönnuður) er ALLTAF í sömu fötunum. Samt kemur nýr dagur hjá henni....

Ekki alveg að kveikja á því að Dóra er teiknimynd. En sýnir tilbreytingarleysið í Dóru sem er sko ekki í uppáhaldi hjá foreldrunum!
(ágúst 2009)

15.8.09

* Nýtt look *

Loksins tóku mamman og pabbinn sig til og gerðu síðuna svoldið sæta og huggulega. Þetta er svaka munur! Finnst ykkur ekki? ;o)

8.8.09

Kaldur eplasvali

Bjartur fékk kalt epli um daginn og þá heyrðist í spekingum Mmmm, eplasvali...kaldur.

Hættur að hjóla

Bjartur tilkynnti okkur um daginn að hann ætlaði að hætta að hjóla þegar hann yrði 8 ára því þá yrði hann svo upptekinn af því að hugsa um hamsturinn sinn. Mamma hans lofaði honum út í lofið að hann fengi hamstur þegar hann yrði 8 ára án þess að gera sér grein fyrir að hann myndi ekki gleyma því loforði =)

Ruglaður bíll

Vorum að keyra á malarvegi (sem gerist nú ekki oft) og þá segir Sunna: Bíllinn er ruglaður því henni fannst svo skrítið hvað hann hristist mikið.

7.8.09

Nú er leikskólinn byrjaður aftur...

....og allir bara kátir með það hér á bæ. Nema kannski Dagný. Hún saknar stóru krakkanna. Skrítið að hanga allt í einu bara ein heima með mömmu. En við eigum svo sannarlega eftir að eiga skemmtilegt haust með fullt af litlum krúsídúllum á "réttum" aldri fyrir Dagnýju. Jana María er ansi spennandi að koma við og klípa. Svo er mættur litli Michael Fjólar Thorarensen og styttist í Litlu Önnu- og Róbertsdóttur. Svo er von á tveimur félögum í viðbót þegar nær dregur jólum!! Já það verður sko gaman hjá okkur! Ansi aktívir þessir Bónerforeldrar hehehe ;o)

Annars er bara allt gott að frétta af öllum.... Vetrarstarfið byrjar bráðum og það verður nóg að gera. Sunna ætlar að verða nemandi í Listdansskóla Hafnarfjarðar og Bjartur ætlar að fara í Boltaskóla Haukanna og æfa með afa. Pabbinn er byrjaður að vinna á fullu og í fullu starfi, en hann hefur ekki verið það síðan Dagný fæddist. Mamman heldur svo bara áfram að ryksuga með nýju ryksugunni ;o)
Svo má ekki gleyma að við eigum nú smá sumarfrí eftir. Förum aftur á Seyðis bráðum og verðum í viku að knúsa Helgömmu. Það er alltaf næs.

24.7.09

Ekkert bloggstuð

Nei, maður er í voða litlu bloggstuði þessa dagana. Vonandi stendur það þó ekki lengi yfir. Við erum nú hætt öllu flakki... í bili... Erum nýkomin heim frá Seyðis. Þar voru allir í dekri eins og venjulega hjá Helgömmu og Braga (afa). Tókum reyndar lítið sætt hús á leigu til að létta aðeins á Múlaveginum því þar var ansi fjölmennt á tímabili vegna LungA. Það var bara voða kósý en alltaf best að vera í Helgömmuhúsi.
Sunna blés allt loft úr sér í sápukúlur þarna fyrir austan og sér ekki enn fyrir endann á því æði. Svo fór hún í prinsessuleik á hverjum degi og skipti reglulega um kjóla sem Rakel frænka átti. Sneri sér svo í hringi fyrir framan spegla og dansaði um og pósaði eins og fyrirsæta þegar teknar voru myndir af henni. Ef þessi stelpa verður ekki söng og leikkona veit ég eiginlega ekki hvað annað!
Bjartur gerðist smiður og negldi nagla í spýtur eins og ég veit ekki hvað. Bjó til kofa í garðinum og klifraði eins og köttur í trjánum. Svo hljóp hann um bæinn eins og hann ætti heima þarna, enda orðinn heimavanur. En hann þorir varla einn út í garð hér heima en svo fannst honum æðislegt sport að hlaupa á undan alltaf í sundlaugina, leikvöllinn eða heim á Múlaveg.
Dagný kom heim allt annað barn heldur en það sem fór í ferðalagið! Hún er svo breytt krakkinn! Komin með aðra tönn og farin að skríða á fjórum, segir mamma, bless, kisa og farin að borða eins og almennilegur krakki.. ekkert mauk alltaf hreint.
Ýmislegt annað var brallað, þó svo að það sé alltaf best bara að hanga í Helgömmuhúsi. Við skelltum okkur á Stöðvarfjörð í Steinasafn Petru. Það var algjör ævintýraferð. Svo heimsóttum við auðvitað Dag og co og fengum að hoppa á trampolíninu og knúsa Kubb nokkrum sinnum og margt fleira. En svo fórum við skyndilega heim vegna veðurs ;o) Það togaði svoldið í okkur að komast heim í sólina...Veðrið var nefnilega ekkert svakalega spennó síðustu dagana. En við förum aftur fljótlega austur... spurning hvort við nennum að keyra aftur. Það er ekki það skemmtilegasta í heimi.

29.6.09

Jæja, ætli maður reyni ekki að skrifa hér nokkrar línur...

Það er greinilega annatími núna. Við erum alltaf á einhverju flakki þessa dagana svo maður hefur engan tíma til að blogga, hvað þá að henda inn myndum. Allnokkrir búnir að rukka um þessi atriði og við skulum sjá til hvað við getum gert í þessu;o)

Sunna hefur stækkað ansi mikið undanfarnar vikur. Hún fór loksins í rör og nefkirtlatöku. Þvílíkur munur á einu barni! Hún er allt önnur: Hætt að vera með þetta endalausa, eiturgræna hor, farin að sofa án þess að hrjóta, með betri matarlyst og aftur farin að tala skýrt því hún heyrir núna miklu betur. Svo er hún líka orðin Bangsastelpa. Byrjuð á Bangsadeild eins og stóri bróðir og auðvitað fullorðnast maður heilmikið við það að skipta yfir á stórukrakkadeild...

Dagný er loksins komin með tönn. Hún er reyndar frekar snemma í því miðað við eldri systkini sín. Versta er að hún vill endilega vera að prófa þessa einu tönn svoldið þegar hún er að drekka hjá mömmu sinni...

Bjartur er allaf við það sama: Eeeeendalaust að spekingast og spyr og spyr illsvaranlegra spurninga... Hann heldur manni við efnið drengurinn....

Annars erum við búin að gera ansi mikið af því að keyra austur fyrir fjall. Höfum farið í bústaði og haft það gott í góðra vina hópi. Það eru til myndir af því einhvers staðar. Ætli þær komi ekki inn á myndasíðuna með haustinu bara ;o) Svona miðað við að við erum hvergi nærri hætt að flakka....

20.5.09

Helgamma Hulk

Bjartur sagði við Helgömmu að hún væri "sterk eins og Hulk" þ.s. það sást svo vel í æðina á höndinni á henni( alveg eins og á Hulk ).

12.5.09

Áfram Ísland

Hér var gleði í kvöld. Júróvisjónpartý. Bjartur gerði langborð hérna í holinu og lagði á borð, þjónastyle. Allir í fjölskyldunni gæddu sér á tacos og burritos yfir byrjunarlögunum... nema Dagný. Hún sat í ömmustólnum sínum með svuntu og matarkex ;o)
Svo þegar allir voru búnir að borða var borðunum rutt til og hið fínasta dansgólf kom þá í ljós. Þegar "Jóhanna of iceland" söng voru allir dáleiddir og stoltir af sinni manneskju. Svo var hasarinn og stuðið orðið svo mikið að náttfötin voru tekin fram og tennur burstaðar og pabbinn búinn að lesa fyrir liðið áður en ljóst var hvaða lönd komust áfram, Logastyle!
Þegar kynnarnir tilkynntu hvaða land færi síðast í undanúrslitin heyrðist í Bjarti:,,Hvað gerðist?" Mamman sagði að Ísland hefði komist áfram í aðalkeppnina. "YESSSSS!" heyrðist þá í okkar manni, mömmustyle ;o)
Það verður sko aftur partý á laugardaginn!

28.4.09

Jæja... orðið svoldið langt síðan síðast.

Við fórum með Dagnýju til hjartalæknisins og auðvitað var þetta ekki neitt. Stúlkan er hraust og þarf ekkert að fylgjast með henni frekar. Það er léttir.
Annars er alltaf nóg að gera... Helst í fréttum þessa stundina er að pabbinn á bænum er að fara til Vestmannaeyja næstu helgi. Það verður stuð hjá mömmunni á meðan. Bjartur er spenntur fyrir þessu ferðalagi pabba því hann ætlar að verða fullorðinn þá og hjálpa til með litlu systurnar tvær og poppa á kvöldin og vaka. Þannig er greinilega að vera fullorðinn í hans augum hehe.

Svo styttist óðum í að Helgamma komi. Hún kemur af því að mamman er að fara til Toronto í nokkra daga. En við reynum að hugsa sem minnst um það. Smá aðskilnaðarkvíði í gangi....

15.4.09

Dagný orðin 6 mánaða

Fórum í skoðun í morgun. Það kom í ljós að hún þarf að fara í hjartaómskoðun eins og systkini sín. Það kom eiginlega ekki á óvart...og þó...Við fórum í sérstakan hjartasónar þegar hún var í bumbunni, því Bjartur er skráður með hjartagalla, en það kom ekkert í ljós þar. Þannig að við erum bara róleg...Sunna fór líka og ekkert fannst að henni, bara frekjuhljóð ;o)

Við komum heim í gær úr æðislegu páskafríi. Þannig var að Berglind og Nonni fóru norður á Mývatn með krakkana sína. Okkur langaði að gera eitthvað um páskana, enda vön að ferðast í páskafríinu, og ætluðum að skjótast kannski til þeirra á Gautlönd. Loginn kom heim úr vinnunni snemma á miðvikudeginum og fór með þessa hugmynd enn lengra: Gista á Gautlöndum eina nótt og halda svo áfram austur á Seyðis. Klukkutíma seinna vorum við rokin. Komum á Gautlönd um kvöldið, héldum áfram til Seyðis daginn eftir, vorum þar í fjórar nætur, brunuðum svo aftur á Gautlönd og gistum þar eina nótt áður en haldið var áfram í bæinn.

Það var mikið brallað í þessu fríi: Farið var með stóru krakkana á sleða og skíði á Kröflu. Á meðan voru reyndar ungamömmurnar heima á Gautlöndum með yngstu molana. Svo héldum við áfram austur og komum Helgömmu heldur betur á óvart! Hún vissi ekkert af því að við værum á leiðinni og var frekar hissa að sjá okkur fimm live á tröppunum hjá henni!

Við fórum í fjöruferð með Símoni, Ástu og co, þar sem Sunna borgarbarn vildi frekar sitja ein í bílnum á meðan allir voru að leika í sandinum í fjörunni. Það var látið eftir henni eftir að hún hafði staðið og safnað nokkrum skeljum og rignt niður í smá tíma. Eftir fjöruferðina var haldið heim til Símonar og Ástu í kræsingar og leik með Ara Birni og Huga Rafni.

Svo hittum við góða vini sem komu alla leið frá Köben í páskafrí. Það voru þau Harpa, Guðjón og litli Úlfur Stefán og voru þetta góðir endurfundir enda rúmt ár síðan við sáumst síðast! Sunna var ekki alveg að meika það að þessi litli strákur héti Úlfur... Var hálfsmeik við hann bara. Svo kraup Bjartur niðri og var að leika sér á gólfinu akkúrat í gangveginum í eldhúsinu og Úlfur stóð fyrir aftan hann:,,Passaðu þig, Bjartur. Úlfur er fyrir aftan þig." Meint þannig að Bjartur myndi ekki hrinda honum um koll en Bjartur leit frekar hissa við til að sjá þennan úlf sem var svo bara lítill strákur. hehehehe.

Á páskadag fórum við í dýrindis páskamat til Dags og Ingu á Egilsstöðum. Átum á okkur gat og fengum bollaspá hjá Snorra. Bjartur var hálft kvöldið úti í garði hjá þeim að leika við Kubb kanínu. Sunna var inni með teboð á meðan hehe. Hún fékkst reyndar til að kíkja smá í kanínukofann...

Á annan í páskum keyrðum við svo aftur á Gautlönd og fóru stóru strákarnir beint á snjósleðarúnt. Siðan bjuggu þeir til nokkurra fermetra snjóhús drengirnir og buðu Sunnu að koma út að leika. Hún gerði það, daman. Fegin að komast út því það var fluga inní húsinu... Svo borðuðum við góðan mat með góðu fólki, drukkum bjór og fórum snemma að sofa ;o)

Þar hafiði það! Og það var mjöööög gott að koma heim.

2.4.09

TVÍBURARNIR

21. maí - 21. júní

Óþolinmótt eftir að hefja leikinn er líklegt að tvíburabarnið hafi sparkað duglega í móðurkviði. Tvíburabörn eru líkleg til að byrja snemma að tala og þau segja sína skoðun frá byrjun. Þau eru mjög forvitin í eðli sínu og þurfa því alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Þau eiga mjög erfitt með að sitja kyrr og eiga mjög erfitt með að þegja. Athyglin beinist stöðugt að nýjum viðfangsefnum en áhuginn hverfur oft mjög fljótt.
Því fyrr sem tvíburabarnið kemst í hóp annarra barna því betra því tvíburarnir elska félagslíf enda hafa þeir mikla samskiptahæfileika. Það sem þessu barni leiðist er að hafa ekkert að gera, svo vertu viss um að stundatafla þess sé alveg þétt skipuð (íþróttir, klúbbar, útivist o.s.frv.) Vegna þess hve barnið er upptekið og hefur margt fyrir stafni þá eignast það marga vini. Tvíburanum líkar að vera trúðurinn í bekknum og gerir í því að gretta sig og segja brandara. Tvíburinn er fyndinn og býr yfir góðum húmor.. Líf og fjör er tvíburum að skapi.

Tvíburarnir þurfa mikla örvun og hyggilegt er að leikföng þeirra séu margvísleg og vitsmunalega þroskandi, svo sem púsluspil og þrautir af ýmsu tagi.Hugur hans ferðast á ógnarhraða og auðvelt að örva. Vertu viss um að hann hafi alltaf nóg að lesa. Fyrir utan lestur þá hefur barn í tvíburamerkinu einnig mikla unun af því að tala, segja brandara og taka þátt í íþróttum, og það vill gera þetta allt núna strax. Yfirleitt er tvíburinn bráðþroska vitsmunalega og því nauðsynlegt að sinna þessum þætti í uppeldinu með því að reyna að svara t.d. spurningum hans (þær eru reyndar oft ansi margar) og ræða við hann.
Litlir tvíburar eru oft stríðnir og hrekkjóttir en það ber ekki að taka of alvarlega því yfirleitt er meiningin ekki slæm. Hann grípur oft til prakkarastrika til að hrista upp í umhverfinu því hann hefur ríka þörf fyrir tilbreytingu.
Þetta barn fer létt með að gera 3 hluti í einu og er líklegt til að gera þá alla vel. Hægt er að segja um barn í tvíburamerkinu að það sé mjög klókt og komi sífellt á óvart. Það er einnig ósvífið og gæti komið heim með kettling með slaufu um hálsinn (sem það fann) og fært mömmu sinni að gjöf. Sætt, ekki satt?
Þegar þú reynir að sjá fyrir þér barn í tvíburamerkinu þá skaltu hugsa um Línu Langsokk. Hallaðu þér aftur, dragðu andann djúpt og taktu þátt í fjörinu.


Need I say more? Þetta er ótrúlegt! .... spurningarnar, stríðnin, líf og fjör....þrautir, snemma að tala, forvitinn. Passar allt saman

30.3.09

Vogin

23. september - 23. október

Börn í vogarmerkinu eru oft glaðleg og broshýr og eru oftar en ekki börnin sem fá bros frá hinum sem bíða á biðstofu læknisins. Þau eru sjarmerandi og heilla aðra upp úr skónum. Félagslyndi einkennir vogina frá fyrstu tíð og litla vogin elskar að hafa margt fólk í kringum sig. Vogarbarn sem þarf að búa við einangrun getur orðið geðstirt, innhverft og óöruggt en þegar allt leikur í lyndi er það opið og hresst. Vogin á mjög erfitt með að gera upp hug sinn og virðist oft hafa lítinn viljastyrk. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar hjálpi voginni að rækta með sér sjálfstæði og ákveðni meðal annars með því að fela henni ákveðin verkefni sem reyna á ákvarðanatöku. Líklegt er að Vogin spyrji álits og því er hægt að svara með því að spyrja: "Hvað finnst þér?" Síðan þarf að gefa henni næði til að vega og meta hlutina áður en hún tekur ákvörðun. Vogin er listræn í eðli sínu og mikilvægt að hlúa að þeim eiginleikum og skapa henni aðstöðu til að þroska listræna hæfileika sína.

Þetta á svo vel við að það er eiginlega ekki fyndið!! Og við eigum tvær svona! Gaman gaman.
Þetta með einangrunina þurfum við ekki að hafa áhyggjur af... alltaf stuð á Hjallabrautinni... og viljastyrkurinn og ákveðnin er svo sem alveg nógur hjá Sunnu..... ennþá. Hún er nú bara 2 ára.
Einhvers staðar á ég líka til um Tvíburamerkið. Finn það ekki svona í fljótu.
Gaman að þessu

22.3.09

Sunna hætt með bleyju

Í nótt svaf Sunna í fyrsta skiptið án bleyju. Það hafði ekki verið gert fyrr þ.s. við fundum ekki pissulök í RL búðinni fyrr en í fyrradag.

Hún var nú ekki sátt við að verða að fara á klósettið fyrir svefninn. Enda er hún meira fyrir að ráða hlutunum sjálf og fara þegar henni hentar.

Þannig að nú kemur hún reyndar fram ef hún þarf að pissa. Hún læðist eins og lítil mús í dyragættina og biður um leyfi til að fara að pissa. Þegar foreldrarnir hafa samþykkt hleypur hún sigri hrósandi inná klósett og þar þarf allt að vera eftir kúnstarinnar reglu. Fyrst skal prinessu-sessan sett ofan á setuna og svo verður kollurinn hennar að fara undir. Hún getur hjálparlaust komið sér fyrir og gert þetta allt en er svoldið fyrir að stjórna og láta aðra vinna fyrir sig ;) Ef kúkur er á leiðinni er öllum skipað að fara fram og taka til eða gera eitthvað annað en standa yfir henni ;)

Ég er búúúúin að pissaaaaaa heyrist svo eftir smá stund.

14.3.09

Dagný 5 mánaða

Þá er Dagný orðin 5 mánaða ótrúlegt en satt! Hún braggast alltaf jafn vel og er algjört undrabarn hvað varðar rólegheit og værð. Hún er farin að gera allt það sem 5 mánaða börn eiga að gera samkvæmt bókinni og gott betur: aðeins farin að æfa sig að sitja. Hvað stærð varðar er hún bara copy-paste af systur sinni. Reyndar ca 200 gr þyngri en Sunna var þegar hún var 5 mánaða en annars eins.
Eftir að Sunna fékk sýklalyfin hefur horið sömuleiðis minnkað hjá Dagnýju. Hún var nú samt eitthvað aum í síðustu viku og við alveg viss um að hún væri komin með eyrnabólgu. Aumingja Dagný... það má aldrei heyrast í henni og þá hlýtur eitthvað meiriháttar að vera að ;o) Það var rokið strax um morguninn með hana til læknis sem skoðaði hana alla og hlustaði....Niðurstaðan var: ekkert að. Stúlkan var samt enn heit og eitthvað aum um kvöldið þannig að aftur rauk mamman á vaktina. NIðurstaðan var:ekkert að.... Við semsagt reyndum að gera hana að eyrnabólgubarni tvisvar sama daginn og það tókst ekki hehe. Nú er stúlkan bara eiturhress og alltaf sama draumabarnið.

9.3.09

Og við höldum áfram að horfa...

...á Mama mia. Sunna er enn heima og komin á sýklalyf. Hún er nú öll að hressast og fer á leikskólann á morgun. Alveg magnað hversu mikið slím og hor getur komið úr svona litlum kroppi.... Hún er rosalega dugleg að snýta og taka inn lyfin sín... snýta Dagnýju svoldið og strjúka...breiða yfir hana teppi og gefa henni dudduna eða dót og lesa fyrir hana. Læknirinn sagði okkur að reyna að halda þeim í sundur... það er varla hægt, það er svo mikil systraást í gangi. Við þorum ekki að fara að banna henni að koma nálægt systur sinni því hún hefur alltaf verið svo góð við hana. Viljum ekki vera að skemma það. Litlu kerlingarnar... ;o)

Aðalmaðurinn á heimilinu er duglegur að semja sínar reglur núna... Hann vill að við segjum núna alltaf já við hann... Þó við meinum nei. Af hverju? Jú, við segjum svo oft nei að við erum alveg búin að rugla hann í hausnum! Svo stríðir hann Sunnu. Hvað gerir hún þá? Öskrar. Það er rosalega gaman og prakkarinn fær mikið útúr þessu öskri. Það er ekki annað hægt en að skilja hann...Sunnuöskur er svo skemmtilegt hehehe. Við erum búin að vera að tala um hvort hann heyri illa drengurinn... Hann hefur greinilega heyrt það tal (heyrir ekki verr en það) og um daginn var hann að stríða og Sunna að öskra. Mamman kallar á hann:,,Bjartur! Hættu!" Hann heldur áfram.
Aftur:,,Bjartur! Heyrirðu ekki? Hættu þessu!" Ekki hættir drengurinn. Mamman tekur hann þá frá öskurapanum og segir:,,Heyrirðu ekki þegar ég segi þér að hætta?!"
,,Nei."
,,Þú hlýtur þá að heyra í Sunnu öskra! Þá áttu að hætta."
,,Já en hún öskrar hærra en ég heyri".
.....Hún er nú ekki þekkt fyrir annað en háa skræki og oft kölluð Krían hérna á heimilinu en er sem sagt komin yfir í hátíðnihljóð...(Nú hljómar þetta eins og hún sé alltaf æpandi barnið....)

Jæja.. vaknar yngsti molinn...

Kveðjur,
Mamma og Sunna Dancing queens....having the time of our lifes úúújeee

6.3.09

Unglingurinn Sunna

Nú er Sunna búin að vera veik í 4 daga.... Það er búið að glápa á endalaust mikið skrípó. Og Mama mía líka. Svo syngur hún með:,,mammamía. Híjagóa geeee..mæmæ..." En litla konan er orðin leið á ástandinu og farin að hressast líka þannig að eirðarleysið er tekið við. Í morgun mátti mamman ekki snýta og þá hljóp okkar dama inná bað og skellti hurðinni! Þegar hún var búin að væla þar í smá tíma bankar hún á hurðina, tilbúin að koma fram. Þegar mamman opnar skellir hún aftur og vælir á pabba sinn... Svona gekk þetta í nokkur skipti. Svo gaman að henni þegar hún er með þessa "unglingastæla". Það verður stuð á bænum þegar þetta verða ALVÖRU unglingastælar... Svo lyftist nú brúnin þegar litla systir vaknaði og lífið er allt annað. Núna eru þær í mömmuleik, Sunna er ofurumhyggjusama mamman og Dagný greyið segir ekki bofs við öllu þessu dúlleríi.

Bjartur er kominn með ný gleraugu. Óbrjótanlegu gleraugun brotnuðu um daginn. Sem betur fer vorum við enn í ábyrgð þannig að hann fékk ný án þess að þurfa að borga neitt. Þau eru eiginlega alveg eins og gömlu, bara aðeins blárri ;O) Já það er óhætt að segja að við séum fastagestir í Augnsýn....ef það eru ekki gler, þá eru það nefpúðar, stillingar eða bara heilu brillurnar!

Annars eru nýjar febrúarmyndir komnar...

25.2.09

Öskudagur

Það var spennandi að vakna í morgun og fara í leikskólann. Bjartur var ekki alveg búinn að ákveða sig með búning og vildi helst blanda öllu saman. Fyrir valinu varð svo Incredible búningur sem hann fékk að láni hjá Emil Gauta. Sunna fór sem Minna mús. Flottust.
Strákurinn okkar er orðinn svo stór og mikill munur frá því á öskudeginum í fyrra. Þá vildi hann (og fékk) að vera Gríslingur. Núna var það: Batman, Súperman, úlfur eða Íþróttaálfurinn. Ekki eins krúttulegt og í fyrra ;o) En Sunna sá um krúttulegheitin fyrir allan bæinn held ég! Hún er þvílík dúlla sem Minna mús! Næstum æt hún er svo sæt.

19.2.09

Allt sem er rautt, rautt finnst mér vera fallegt...

Pabbinn sótti stóru krakkana snemma í leikskólann í gær því Hallur afi var búinn að bjóða þeim að koma og skoða leikmyndina af Kardemommubænum í Þjóðleikhúsinu. Þetta var skemmtileg upplifun. Að fá að standa á sviðinu og labba um og skoða allt saman! Og Hallur afi setti sviðið af stað og þá fannst Sunnu hún vera að detta og riðaði til, þó hún stæði ekki einu sinni á snúningssviðinu hehe. Á morgun förum við svo öll að sjá Kardemommubæinn...nema Dagný. Amma og afi ætla að passa hana á meðan.

Splæst var í nýja úlpu á Bjart um daginn. Mamman fór í bæinn og keypti bláa úlpu á drenginn sinn. Þegar hún kom heim vildi hann ekkert bláa úlpu, heldur rauða! Uppáhaldsliturinn er sko rauður ef það hefur farið framhjá einhverjum... Þannig að úlpunni var skipt og litli maðurinn frekar sáttur! Svo seinna getur Sunna tekið við úlpunni og jafnvel Dagný líka (bjartsýn?). Fyndnast var þó hversu hissa afgreiðsludömurnar voru:,,Vildi hann frekar rauða??" Eins og það væri alveg bannað...Maður er sko ekki Haukamaður fyrir ekki neitt ;o)

Um helgina er Bjarti boðið að fara á rúntinn með Valgeiri og Þyrí. Þau ætla að gefa kannski öndunum brauð ef veðrið verður gott. Litli ástarpungurinn tók andköf af gleði þegar honum var sagt að hann myndi hitta Þyrí. Þvílíkt krútt.
Svo ætlum við að fara í afmæli til Emils Gauta, vinar okkar, í Bjarkarhúsið. Það verður sko stuð. Alltaf nóg að bralla á Hjallabrautinni...

Sjáumst!
Bjartur púlli - Sunna sæta - Dagný dúlla.

15.2.09

Dagný hló í gær

og það var stórkostlegt! Allt í einu varð lífið 100 sinnum betra. Mamman var að syngja fyrir hana og dansa og hún hló! Hún er allt í einu svo stór, farin að hlæja svona upphátt. Svo mikil manneskja eitthvað. Henni finnst eitthvað vera fyndið! Magnað alveg. Þetta er með því sætasta sem maður hefur heyrt.

11.2.09

Love is in the air...

Bjartur er ástfanginn. Hann elskar þrjár. Tvær leikskóladömur sem eru með honum á deild og svo Þyrí, kærustuna hans Valgeirs. Þau turtildúfurnar pössuðu Bjart og Sunnu í gærkvöldi meðan mamman og Dagný fóru í kellingaheimsókn og pabbi fór að hnykkla vöðvana.
Um leið og þau komu bað Bjartur um hjálp við að skrifa: "Ég er skotinn í þér" á blað til þess að gefa Þyrí. Svo héldu ástarjátningarnar áfram fram eftir kvöldi. Hann bað hana meira að segja að skrifa á blað að hún ætli að koma í heimsókn eftir nokkra daga! Einn að tryggja sig hehe.... eins gott að hafa þetta skriflegt sko! Já hann er sko með stjörnur í augunum yfir henni- enda yndisleg stelpa. Hún er líka heilluð af honum og ekki amalegt að fá svona flottar barnapíur...Valgeir var samt feginn að enginn kúkaði hahahahaha...Ekki alveg hans deild.

Dagný er 4 mánaða í dag. Hún fékk graut í fyrsta skipti í gærkvöldi. Stúlkan var alveg æst bara í grautinn! Það fengu allir að halda í skeiðina og troða uppí hana ;O) Þvílík spenna. Pabbinn stóð sig líka eins og hetja með myndavélina þannig að von bráðar fá allir að sjá það þegar Dagný fékk graut. Hún var líka sú ánægðasta- með alla þessa athygli og gleypti við grautnum. Leikurinn verður endurtekinn í kvöld og gaman að sjá hversu lengi þetta verður svona spennandi í augum systkinanna....

5.2.09

Sunna þarf ekki brillur!

Og það þarf ekki að fylgjast neitt sérstaklega með henni. Stúlkan stóð sig eins og sönn dama og læknirinn svona glimrandi ánægður með hana. Hún gerði allt sem hún átti að gera og alveg yndislegt að fylgjast með henni. Litla ráðskonan. Það var alveg eins og hún hefði mætt þarna áður og gert þetta allt saman mörgum sinnum. Þannig er hún alltaf: Hún sko Á pleisið! Læknirinn sagðist yfirleitt þurfa að slást við krakka á þessum aldri hehehe. En hann tæklaði þetta alveg frábærlega enda þaulvanur.
Meðan við biðum eftir að fá seinni dropana í augun skoðuðum við aðeins gleraugu á svona litla krakka. Henni finnst þetta náttúrulega svakalegt sport því Bjartur notar gleraugu. O my god! Hún er nú þvílíkt krútt með svona lítil og sæt krakkagleraugu... en þau héldust samt varla á trýninu á henni þrátt fyrir krækjur bak við eyru og aukanefpúða.

Dagný er enn að berjast við kvefið og smá hitavella í henni. Ætli við förum ekki með hana til læknis á morgun ef hún lagast ekki... Maður er samt orðinn svo sjóaður í þessu- þykjumst alveg vita hvaða svör við fáum: Hitinn er ekki hár....Hún er að drekka vel.... Tvö leikskólabörn á heimilinu....Við erum ekkert að stressa okkur enda skítakuldi úti. Svo leiðinlegur þessi árstími!! En hún er alltaf jafn yndisleg- aldrei lætin í þessu barni þó hún sé slöpp.

Þannig voru fréttir dagsins!
Yfir og út

2.2.09

Litli Glámur

Þá er einkasonurinn kominn með ný gler. Hann fékk þau núna seinnipartinn og er búinn að vera með nefið í öllu síðan. Byrjaði strax í gleraugnabúðinni að grandskoða og útskýra mynstur og svona fyrir mömmunni og afgreiðslukonunni. Mamman hló að honum en afgreiðsludaman hálfvorkenndi honum. Greyið- loksins sá hann almennilega. Ekki nóg með að gömlu glerin voru orðin svo rispuð þá voru þau heilum einum of dauf fyrir hann. Núna er hann sko flottastur, annað augað aðeins stærra bakvið glerið en hitt.
Sunna er ekki enn farin til augnlæknisins. Við förum í það ævintýri á fimmtudaginn. Smá stress í gangi varðandi það... Við vorum svo viss um að Bjartur þyrfti ekki gleraugu. Fórum eiginlega bara með hann til augnlæknis uppá grínið. Af því að hann skáskaut augunum í 3oghálfs árs skoðun. Þannig að í þetta skiptið búum við okkur undir að litla trýnið þurfi kannski bara gleraugu... vonandi ekki samt. Kannski hégómalegt að segja svona og margt verra en að þurfta gleraugu, en þetta er samt smá mál fyrir svona litla krakka.

Loginn setti inn nýjar myndir. Í nýtt albúm merkt 2009 hér til hliðar. Endilega tékkið á þeim. Makalaust hvað þau stækka hratt!

27.1.09

Langur vinnudagur

Mamma:,,Bjartur? Geturðu farið undir borðið og náð í þennan lit þarna?"
Bjartur:,,Nei."
Mamma:,,Ha? Afhverju ekki?"
Bjartur:,,Maður getur ekkert verið að beygja sig svona mikið -nýkominn heim úr leikskólanum!"

Veikindi

Nú stöndum við í veikindabasli. Foreldrarnir nýstignir uppúr viðbjóðs magapest og krakkarnir allir með hósta og hor. Enginn hefur enn fengið hita nema Dagný litla, en hann er ekki hár.
Bjartur hefur hingað til ekki verið til í að snýta sér þegar hann hefur fengið kvef. Sýgur og sýgur upp í nefið tyggjóþykkt eiturgrænt hor (nú fær amman velgju hehe). Hann eignaðist svo nýlega horbókina sem er sko bók að hans skapi. Nógu mikið af fræðslu og útskýringum og flipum til að lyfta og toga í og svoleiðis. Eftir að hafa lesið þessa bók vill hann snýta. En hann er eins og amma hans- getur ekki gert það sjálfur og berst við æluna meðan á snýtingunni stendur (amma getur nú samt snýtt sér sjálf).
Sunna ofursjálfstæða snýtir sér hins vegar sjálf og má helst enginn koma nálægt hennar litla nefi. Dagný fær suguna.

Já, ekki hefur mikið merkilegt gerst þessa veikindadaga...en samt alltaf nóg að gera einhvern veginn. Alltaf stuð á þessum bæ ;o)

16.1.09

Mælingar

Dagný er víst orðin 3 mánaða. Í því tilefni fékk hún sprautu í litla lærið í gær. Svo var hún auðvitað vigtuð og mæld á alla kanta. Hún dafnar bara vel og mælist áfram nokkrum millimetrum minni en systir hennar var á sama tíma og líka nokkur hundruð grömmum þyngri. Litla daman var svo á flakki í allan gærdag. Bjartur fór til augnlæknis, Logi í blóðbankann og Sunna sótt og brunað í heimsók til ömmu og afa. Þetta var of mikið fyrir litla og væra manneskju. Hún grenjaði!! Foreldrarnir vita varla hvernig á að sinna henni þegar hún grenjar. Þegar við komum heim um 6 leitið sofnaði hún fljótlega og hefur sofið síðan. Vaknar auðvitað til að drekka en hún er nú að jafna sig á þessu óvænta aukaálagi.

Bjartur fór semsagt til augnlæknis. Það er nú heljarinnar prógramm. Fyrst þarf hann að fá skoðun með gleraugunum, svo fær hann dropa í bæði augun, bíða smástund, aftur dropa, bíða smá stund og loks skoðar augnlæknirinn augun með því að lýsa í gegnum allskonar gler. Litli spekingurinn er furðu þolinmóður við þetta allt saman enda nóg að spyrja að og svona. Alltaf að spá og spekúlera.
En þetta er ekki búið. Við þurftum að mæta svo aftur tveimur dögum seinna. Þá fékk hann svaka gleraugnapakka á nefið með nýja styrkleikanum og átti að leika sér aðeins. Svo var aftur sjónpróf og allskonar test. Niðurstaðan er: Verri sjón en í fyrra. Okkur skilst að það sé ekkert óalgengt á þessum aldri og eigum að gleðjast yfir því að munurinn á milli augnanna er að minnka. Vinstra augað er sem sagt að fá séns miðað við þessar mælingar.

Augnlæknirinn bendir svo á Dagnýju og segist vilja fá að skoða hana með tímanum. Já ok.... En hvað með Sunnu? Hann gerði nú ekki ráð fyrir einu barni þarna á milli en jú, hann vill fá að skoða hana. Við eigum tíma í byrjun feb. Það verður sko gaman að sjá hann díla við Sunnu sætu sól!! Hún verður ekki gáfuleg með gleraugu: Hún er með svo lítið nef að hún skýtur alltaf hökunni fram þegar hún er með sólgleraugu. Þannig að ef hún þarf gleraugu þróar hún með sér skúffu....

Lífið

Ef maður er stelpa og teiknar stráka þá breytist maður í strák. Af hverju? Þannig er lífið. (Bjartur)

3.1.09

Gleðilegt ár allir..

og takk fyrir allt gamalt og gott.

Við erum búin að hafa það svo gott. Öll saman í fríi. Bjartur og Sunna kunna reyndar ekkert að vera saman allan daginn...Það er strítt og öskrað. Þið vitið hver það er sem stríðir og hver öskrar (þannig að það hristast glerin). Við erum alltaf að segja þeim að TALA saman og það er að ná í gegn núna þegar jólafríið er að verða búið... Dagný tekur þessu öllu með einstakri ró.

Jólin voru ekki hefðbundin hjá okkur. Við vorum heima hjá okkur í fyrsta skipti! Það var bara æðislega huggulegt. Fórum eins og venjulega til ömmu og afa í jólakakó á aðfangadagsmorgun. Vorum með möndlugrautinn í hádeginu. Skiptumst svo á pökkum við allt pakkið. Fórum svo heim um 3 til að gera allt og alla reddí áður en klukkan sló sex. Á MÍNÚTUNNI sex var allt tilbúið. Ég er ekki að grínast. Maturinn kominn á borðið, einn, tveir, þrír krakkar komnir í jólafötin og mamman og pabbinn líka. Hlustuðum á jólin hringja inn, smelltum af fjölskyldumynd og settumst til að raða í okkur kræsingum, búin að kveikja á kertum og allt!

Síðan var náttúrulega ráðist á pakkafjallið. Gamla settið og bræðurnir komu svo í eftirrétt. Krakkarnir háttaðir og svifið inní jólanóttina.
Á jóladag var varla farið úr náttfötunum.
Á annan var árlegt jólaboð hjá ömmu og afa. Stelpur og strákar háðu Trivial baráttu. Karlarnir unnu.... með svindli- þeir voru fleiri;o)
Hallur afi og Sæunn amma komu í hamborgarhrygg á laugardeginum, amma og afi í afgangana af því á sunnudeginum (hehe). Á mánudag fórum við Bjartur á geðveika flugeldasýningu. Þriðjudagur leið einhvernveginn.... svo var alltíeinu kominn gamlársdagur!

Við vorum hjá Möllu og Þresti og familí á gamlárskvöld. Líka amma, afi, Balli, Valgeir, langafi, Lilja og dætur. Þvílíkt góður matur og skemmtilegt fólk auðvitað. Það voru mjög þreyttir krakkar sem komu heim þá nótt, nema Dagný.

Á nýárskvöld spiluðum við við Berglindi og Nonna og strákarnir þeirra æfðu stórubræðrataktana. Styttist í litlu skottuna þeirra!

Í kvöld var gerð tilraun til að snúa sólarhringnum við hjá krökkunum. Það gekk vonum framar! Þetta eru svo stillt börn:o)
Á morgun förum við krakkarnir á síðasta jólaballið. Pabbinn ætlar þá að stelast til að taka jólatréð niður... Til að hlífa ofurtilfinninganæma syninum. Það má aldrei henda neinu, setja í geymslu eða gefa. Þá byrja tárin að streyma.

Að lokum: Það eru komin 3 ný albúm.

Hilsen