Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

24.11.08

Kominn enn einn mánudagurinn! Manni finnst alltaf alveg merkilegt hvað tíminn flýgur þó maður sé bara heima. Það sýnir þó að maður hefur nóg að gera og leiðist ekki á meðan.

Við fjölskyldan áttum alveg yndislega helgi. Fengum lánaðan bústaðinn hennar Möllu og Þrastar. Þau hafa stundum boðið okkur hann en við aldrei getað nýtt okkur þessi góðu boð. Svo langaði mömmunni svo að breyta um umhverfi og auðvitað var ekki málið að fá að skjótast í Karrakot. Brunuðum útúr bænum rétt fyrir 4 á föstudaginn. AAaahhhhhhh það var æði að keyra útúr bænum og eftir svona 1 og hálfs tíma keyrslu (eða svona 100 klukkutíma í huga Bjarts) vorum við komin. Það var ýmislegt brallað: Leikið úti í snjónum, farið í pottinn, hamast uppá leiklofti og litað og teiknað og margt fleira. Meira að segja búið til trölladeig en við náðum ekki að leira neitt... Það bíður bara betri tíma....

Krakkarnir eru bara sprækir... Það er að myndast smá spenna gagnvart jólunum. Aðallega Bjartur sem er að pæla eins og honum einum er lagið. Hann er strax byrjaður að hugsa hvernig jólasveinarnir geta búið í fjalli. Hvar komast þeir inn? Hvers vegna hefur enginn fundið hellinn þeirra?... Við megum búast við spurningaflóði allan desember. Sérstaklega þegar sveinarnir koma til byggða. Eins gott að vera með einhver svör. Góð og gild. ;o)
Sunnulingur er að breytast smátt og smátt í litla mömmu. Það er alveg æðislegt að fylgjast með henni dúllast í Dagnýju. Strjúka hárið, breiða yfir hana teppi og tala fallega til hennar. Svo er hún alltaf syngjandi barnið! og dansandi. Meira að segja þegar hún á að fara að sofa syngur hún hástöfum. Þá segir mamman:,,Uss Sunna. Nú áttu að fara að sofa". Þá segir Sunna:,,Ég.Er.Að. SYNGJA"! Og hana nú!
Dagný dafnar vel. Það er alveg fyndið að fylgjast með henni. Hún er alltaf svo værðarleg að það er engu lagi líkt! Henni líður greinilega svo ofur vel. Alltaf sami sældarsvipurinn á henni. Við erum að fara í 6 vikna skoðun á fimmtudaginn og það verður spennandi að sjá þyngdartöluna. Við erum í því að bera saman krakkana ;o)

Vonandi fara svo að koma inn einhverjar myndir... myndavélin er alltaf á lofti það er ekki það... Það þarf bara að finna tíma til að setja myndirnar í tölvuna...Læt ykkur vita.

9.11.08

Dagný Logadóttir biður að heilsa ;)



Smá myndskeið frá skírninni ;)

6.11.08

Skírn

Nú er Helgamma komin til að vera við skírnina á litlu systur. Það er æði að fá hana í heimsókn! Bjartur ætlar að gista með henni hjá Gauta og co eina nótt og allt!

Það er allt að smella saman fyrir skírnina... þökk sé æðislegum vinum og vandamönnum. Það eru allir svo hjálplegir og duglegir að bjóðast til að baka og svona þannig að mamman getur hugsað um brjóstagjöfina og þarf lítið sem ekkert að gera fyrir veisluna. Amma bakar, Lilja líka og Malla og Henný gera sín frægu horn (namm namm), Berglind ætlar að gera eitthvað gúmmulaði líka og ætli mamman reyni nú ekki að hrista eitthvað fram úr ermunum svona til að sýnast eitthvað;o)

Bjartur stóri bróðir ætlar að segja nafnið á litlu dömunni þegar presturinn spyr hvað barnið eigi að heita.... Við vonum bara að hann segi rétta nafnið... ekki Sóley eins og hann er búinn að ákveða. Spennan vex.....