Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

21.7.05

Skemmtilegir sumardagar

Það hefur verið alveg rosalega gaman hjá mér þessa sólardaga! Ég og mamma höfum gert eitthvað skemmtilegt á hverjum degi og svo er ennþá skemmtilegra þegar pabbi kemur heim og leikur við mig. Við erum búin að leika úti í garði, hoppa á trampolíni (ég er ógó góður í því), fara í dagsferð uppí bústað til möllu ömmusyss og í húsdýra- fjölskyldu- og grasagarðinn. Ég var þar í dag með ömmu, Lilju ömmusyss og Svölu Birnu. Ég veit ekkert skemmtilegra en að skoða dýrin og reyna að klappa þeim. Svo fórum við í fjölskyldugarðinn og þar gat ég snúið ömmu alveg í hringi í kringum mig! Hún gerði allt sem ég vildi og er alveg í uppáhaldi hjá mér núna. Við fórum svo í grasagarðinn að borða og svo þegar við fórum heim vildum við Svala fara beint út í garð að hoppa... Þannig að ég er búinn að vera úti í allan dag! Amma var svo ekki búin að fá nóg af strumpinum sínum í dag því hún bauð mér (og mömmu og pabba auðvitað) í mat. Þar sýndi ég allt sem ég kann og var með glæsileg skemmtiatriði við matarborðið. Ég get svarið það - það voru allir að drepast úr hlátri yfir mér! Mikið svakalega er ég skemmtilegur þegar sólin skín svona- kem eiginlega sjálfum mér á óvart og bara verð að taka undir með svaka hlátursrokum og innsogi og allt- alveg eins og fullorðnir gera...
Mamma og pabbi eru búin að vera frekar dugleg með myndavélina þessa dagana en það gengur eitthvað seint að setja þær inn í tölvuna- gerist kannski þegar sólin er farin...
Later, yours Bjartur skemmtikraftur

16.7.05

Frekar rólegt...

Halló.
Það eru búnir að vera frekar rólegir dagar hjá mér núna. Pabbi er aftur byrjaður í vinnunni -ég er búinn að venjast því að hafa hann ekki heima á daginn núna en fyrst var ég alltaf að leita að honum og kalla á hann. Svo áttaði ég mig á því að hann var ekkert á svæðinu og þá var ekki til neins að vera alltaf að kalla...
Mamma er búin að vera dugleg að fara með mig í heimsókn til ömmu og afa því þar finnst mér svo gaman að vera. Þau eiga svo fínt dót handa mér og það er alveg meiriháttar að fá aðeins að breyta til. Nýjasta dótið er algjör töfrakassi! Maður setur peninga í raufar og ýtir á takka og þá hverfa þeir! Svo ýtir maður á annan takka og þá koma þeir rúllandi út- ekki á sama stað og þeir hurfu, heldur allt annars staðar! Þetta finnst mér sko merkilegt.
Við mamma fórum um daginn í Nauthólsvíkina og hittum Lilju ömmusyss og Svölu. Það var svo gott veður að ég fékk að leika mér í sandinum á táslunum og með sólgleraugu. Svo fékk ég meira að segja að vaða líka! Þetta var skemmtileg upplifun. Mér finnst svo gaman líka að leika við Svölu. Núna er hún í sumarfríi og við getum leikið og leikið allan daginn.
Svo er ég búinn að vera alveg óþekkjanlegur í röddinni. Læknirinn segir að ég sé með barkabólgu en ég er nú að lagast. Mér finnst ég frekar flottur með röddina svona því þá er ég eins og alvöru ljón þegar ég segi eins og ljónið og mamma verður svaka hrædd við mig hehe.
Jæja- vonandi fara nú að koma inn myndir af aðalstrumpinum- ég veit að einhverjir hafa verið að rukka;o)

4.7.05

Fyrstu göngutúrarnir

Þá er ég byrjaður að fara í smá göngutúra =) Byrjaður að labba um aleinn og stundum sleppi ég pabba þegar ég geng með honum og held í höndina á honum. Ég er rosa montinn og alltaf að sýna hvað ég er duglegur að rölta um, þótt ég detti nú stundum =) Fyrst varð ég alltaf að hafa hendurnar uppí loft þegar ég var að labba en núna er nóg að hafa þeir beint fram. Helgamma og mamma segja að ég sé eins og múmía en ég verð einhvern veginn að halda jafnvægi!! Mér finnst líka rosa gaman að herma eftir pabba mínum, er alltaf að segja "Oh" þegar eitthvað dettur eða gerist eins og pabbi segir. Stundum segjum við oh á sama tíma, það er nú svoldið fyndið. Ég sest líka stundum í stólinn sem pabbi situr oft í og hlæ að sjónvarpinu eins og pabbi, eða halla mér aftur eins og hann og hlæ eins innilega og ég get. Ef einhver ropar eða hóstar þá hermi ég eftir og skellihlæ svo- mér finnst ég svo sniðugur. Mamma kom með lítinn hund handa mér frá London sem geltir og hoppar. Ég var nú svoldið smeikur við hann fyrst um sinn þegar hann var að gelta og hoppa, en núna þykir mér endalaust vænt um hann og knúsa hann fast og gef honum að drekka úr glasinu mínu. Ég er að reyna að kenna honum að segja ahh þegar hann er búinn að súpa en hann er eitthvað tregur greyið....