Bjartur, Sunna, Dagn og Sindri

5.6.04

Fæðingarsaga Bjarts

Um nóttina, þann 4. júní, vaknaði ég með verki, fór á klósettið og varð vör við smá blæðingu. Þá ýtti ég við Loga og hann hringdi strax uppá spítala til að ráðfæra sig við ljósurnar. Þær vildu að við kæmum bara strax svo við tókum okkur til og drifum okkur af stað, bæði spennt og hrædd í senn. Þetta gerðist milli klukkan 4 og 5 um nóttina og umferðin var engin. Ég hafði orð á því við Loga hvað ég væri fegin að þurfa ekki að vera með hríðir fyrir framan alla í umferðinni... Við komumst fljótt og greiðlega á fæðingardeildina- þurftum reyndar að stoppa fyrir gæsum í Kópavogi. Þær röltu makindalega eftir Reykjarvíkurveginum alveg áhyggjulausar.

Ég var strax skoðuð þegar við komum og þá mældust 4 í útvíkkun. Ljósan sem tók á móti okkur var alveg yndisleg og sagði að þetta yrði ábyggilega komið rétt eftir hádegi! Vá hvað við vorum fegin að heyra að þetta tæki örugglega ekki langan tíma og fórum með allt okkar hafurtask inná eina fæðingarstofuna og komum okkur vel fyrir. Ég var sett í mónitor en hríðarnar voru ekki orðnar mjög slæmar ennþá.
Svo hófst biðin. Um hádegi vorum við búin að heyra hræðileg óp í einni konunni sem var að fæða í næstu stofu og við það stoppaði ferlið okkar. Við vorum send í göngutúr og athuga hvort það hefði eitthvað að segja... Við röltum framhjá Hallgrímskirkju, Logi stökk í sjoppu meðan ég sat á bekk og keypti handa okkur súkkulaði og ís. Við röltum svo til baka, inn á fæðingardeild eftir að hafa tekið stigana glæfralega, ég var aftur skoðuð en ekkert var að gerast. Þá kom fæðingarlæknir sem vildi að við færum bara heim, við áttum að taka skýrsluna okkar með og ég átti bara að fara í mæðraskoðun sem ég átti að mæta í næsta þriðjudag (nú var föstudagur). Hvort hún var að taka mig á sálfræðinni, veit ég ekki, en við fórum heim og frekar svekkt. Þetta lofaði allt svo góðu þarna eldsnemma um morguninn- þegar við mættum.

En ekkert við því að gera- við fórum heim um 4 leytið. Logi skreið uppí rúm en ég fór í bað eftir að hafa tekið tvær verkjatöflur. Þegar ég steig uppúr baðinu fór sóttin strax að versna. Ég orðin dauðþreytt- vakti Loga og sagði að við yrðum að taka tímann á milli hríða. Hann stökk á fætur, náði í símann sinn og fylgdist samviskusamlega með tímanum á skeiðklukkunni í símanum.
Nú voru hríðarnar heldur betur að versna og ég farin að bíta saman tönnum og anda eins og herforingi. Þá hringdi síminn hans Loga. Helga, mamma hans, að hringja til að tékka á stöðunni- hvort það væri nokkuð að gerast í dag því mig hafði dreymt að barnið ætti að koma í heiminn 4. júní (en áætlaður fæðingardagur var 7. júní).
Einhverra hluta vegna vildi ég ekki að neinn vissi þegar ég færi í fæðingu þannig að Logi laug blákalt að við værum bara róleg- ekkert að gerast. Á meðan reyndi ég að láta ekki heyrast í mér í hríðunum.

Logi hringdi svo aftur uppá fæðingardeild og lét vita að við værum á leiðinni. Nú var klukkan rúmlega 5 og mikil umferð og mér sko alveg sama um að vera með hríðir fyrir framan alla í umferðinni- hugsaði bara um að komast sem fyrst uppá fæðingardeild!
Þangað komumst við og fengum sama herbergi og fyrr um daginn. Ljósmóðirin sem tók á móti okkur fannst mér svo truntuleg- vildi bara fá þessa sem tók á móti okkur fyrst en eftir því sem sóttin harðnaði var mér slétt sama. Restina af kvöldinu var ég í móki- alltaf að bíða eftir að þetta væri búið. Við vorum búin að undirbúa okkur vel- ákveða tónlist og fleira en Nora Jones náði bara að syngja eitt lag fyrir mig. Eftir það var ég bara í mínum eigin heimi. Ég man ekki eftir ljósunni sem sat yfir mér, man bara eftir að hafa fengið nálastungur og muninn þegar ég tók fyrsta andardráttinn með glaðloftinu. Sagðist vera full....hehe.
Alltaf voru þær að tékka á útvíkkun sem gekk ekki nógu hratt fyrir minn smekk og ég var alveg að fara að gefast upp- ætlaði bara að panta keisara! Glaðloftið saug ég í mig eins og ég ætti lífið að leysa og sá eftir því að hafa ekki nefnt mænudeyfingu fyrr. Þóttist vita að það væri of seint að biðja um það núna.
Eitthvað í kringum 10 um kvöldið var útvíkkunin orðin nógu mikil til að þær gætu sprengt belginn og eftir að vatnið var farið fann ég mikinn létti! Stuttu seinna byrjaði rembingurinn og man ég eftir að hafa hugsað að út skyldi krakkinn fyrir miðnætti! Til að ná dagsetningunni sem mig dreymdi og þá hefði kennitalan líka verið 04-06-04.... eins og það skipti höfuðmáli hahaha.


Þegar ég var búin að rembast aðeins voru vaktaskipti - yndislega ljósan komin aftur á vakt Hún bauð mér að finna kollinn á barninu þegar hún sá í hann og ég varð fyrir gífurlegum vonbrigðum þegar ég fann hversu langt var í hann- því mér fannst hann alveg vera að koma út- nóg var ég búin að rembast! Ég átti nú eftir að rembast aðeins lengur og sá öll herlegheitin speglast í glerskáp sem var staðsettur beint á móti mér. Logi var farinn að hrópa hvatnigarorð og ég við það að kreista af honum hendurnar þegar út kom Bjartur 10 mínútum of seinn ;o) eða kl. 00:10 með engum látum.... nema í pabbanum. Bæði grét hann ekki þegar hann fæddist og ég passaði mig á að það heyrðist lítið í mér í fæðingunni- minnug þess hvað það heyrist vel þarna á milli herbergja! Vegna þessa var ég æðasprungin í andlitinu og niður á bringu!
Á meðan á meðgöngunni stóð hélt ég alltaf að ég myndi fara að gráta þegar ég fengi barnið mitt í fangið í fyrsta skipti en ég var svo ánægð með að þetta var afstaðið og upptekin að skoða strákinn minn að ég gleymdi alveg að fella tár! Við vorum svo hamingjusöm að allt gekk vel (þó að hægt væri) og þarna var komin fullkomin lítil manneskja!
Þegar búið var að mæla og vigta drenginn og hann aðeins búinn að fara á brjóst fengum við að fara inná Hreiður. Þar var yndislegt að vera - að skoða fallegasta barn sem fæðst hafði og kúra saman í rúminu þreytt og svo hamingjusöm.
Þannig leið fyrsta nóttin okkar saman- reyndar stökk ég í sturtu til að skola af mér og áttu feðgarnir gæðastund saman á meðan. Uppúr hádegi daginn eftir fórum við svo heim í kotið okkar að halda áfram að knúsast og kúra...

Mæli með að skoða öll gullkornin mín.

Engin ummæli: